Fyrir ekki svo löngu var ég staddur á veitingastað í Reykjavík ásamt æskuvini mínum. Köllum hann „Eirík“. Verður þar maður á vegi okkar, maður sem hefur átt goðsagnakennda stöðu í okkar vinahópuum næstum þriggja áratuga skeið. Köllum hann „Óla“. Óli er ekkert frægur, þannig séð, þótt hann sé án nokkurs vafa mjög vel liðinn, bæði í starfi og af vinum og vandamönnum.
En hvað gerði Óli, til að öðlast þennan risastóra stall í okkar lífi? Hann hafði, í stuttu máli, verið í eftirpartíi í Grafarvogi, þar sem eldri bróðir Eiríks, og góður vinur Óla, bauð honum að gista. Þar sem meðalverð á leigubílaferð á þeim tíma var ekkert sérstaklega hagstætt, þáði hann boðið. En um morguninn, þá gerðust töfrarnir. Undirritaður kom í heimsókn á laugardegi, bara svona til að hangsa, eins og unglingar gerðu jafnan á 10. áratug síðustu aldar. Við Eiríkur föttuðum í raun ekki að það hafði verið næturgestur hjá eldri bróður hans, eða þangað til Óli kemur allt í einu út af klósettinu, ekki með ólíkum hætti og þegar Kramer kom inn í íbúðina hjá Seinfeld. „Sjæææælir strákar,“ segir hann. „Heyrðu, Eiríkur, hvað er þetta með þína fjölskyldu og að hafa lesefni við klósettið? Ég er farinn að kunna þessa Michael Jordan-ævisögu utan að. Ekki að ég kvarti núna, það vantar klósettpappír hjá ykkur! Ég fattaði það alltof seint, en hei! Þarna var Mogginn! Þannig ég fór bara beint í bíóauglýsingarnar og rassinn á mér var bara, jó! Timecop!“
Þetta mun hafa verið í ársbyrjun 1995. Það eru næstum 30 ár síðan. Að rekast síðan á Óla, eftir allan þennan tíma, var ógeðslega skemmtilegt. Hann mundi líka eftir sögunni, og hló mjög dátt að henni.
Timecop (5.9 á imdb, ég veit þið voruð að spá) á þar með þátt í að sýna okkur hvað við, sem mannfólk, erum fær um að vera sjálfbær og umhverfisvæn þegar mikið liggur við. En er það rétta leiðin, að hafa ekki um neitt annað að velja? Það er vissulega staður og stund til að nýta sér það sem er sjálfbærast, umhverfisvænast, eða bara skemmtilegast. En hvað á ég við með því? Og af hverju er ég að spá í það þegar mér var falið að gera einhvers konar áramótauppgjör fyrir einn síðasta prentmiðil Íslands?
Á árinu 2024 voru kosningar. Mjög margar kosningar. Og raunveruleiki okkar færðist frá prentinu, færðist frá andlitum fólks, jafnvel frá hinu nútímalega sjónvarpi, yfir í að „skrolla“ á samfélagsmiðlum. Andlega næringin sem í þessu fólst var takmörkuð. En það sem var ef til vill mest einkennandi fyrir þetta tímabil, og þar með árið 2024, var mónótónískur tónn þeirra upplýsinga sem var troðið upp í spjaldið á mér. Ég hafði beinlínis ekkert um það að segja. Eins og klósettpappírinn væri búinn og eina sem væri eftir væri … Timecop.
Þessi staða virðist vera víða, þrátt fyrir að við viljum, allavega í orði, vera lýðræðisþjóðfélag sem hafi einhvers konar möguleika á að velja um hitt eða þetta. Og mig langar að fara þá aftur í áðurnefnda sjálfbærni og umhverfisvernd, hlutverk sem bíóauglýsingar Moggans um haustið 1994 tóku alvarlega. Nú vil ég ekki fara í of mikla euro-hippa-átt með þennan pistil. Því allar kosningar þessa árs snerust nefnilega ekki neitt um umhverfisvernd eða sjálfbærni. Skiljanlega. Hverjum er ekki drullusama?
Hvert er ég að fara með þetta? Sko, mig langar bara að segja að ég hef trú á okkur sem samfélagi. Og ég hef trú á því að ef við höfum raunverulegt val, sem við fáum að láta í ljós, þá veljum við rétt. Þetta á sérstaklega mikið við um sjálfbærni og umhverfismál. Hefðum við val, myndum við til dæmis eiga mun auðveldara með að nota aðra ferðamáta en einkabíl. Nú í desember kannast eflaust flestir foreldrar við að leita að gjöfum í skóinn, til að hlaupa undir bagga með þessum einstæðu feðrum sem kalla sig „jólasveina“. Og hvað er í boði? Hvert sem farið er, hvort það sé Hagkaup eða dótabúð, plast, plast og aftur plast. Algert ógeð og drasl. Mig langar ekki að kaupa þetta. Það vill þetta ekki nokkur manneskja, En það er ekkert annað í boði. Hvers vegna ekki?
Það endar auðvitað ekkert þar. Á þessu ári, 2024, höfum við horft upp á viðbjóðslegt þjóðarmorð, sem við sem sjálfstætt ríki höfum af einhverjum ástæðum ekki fordæmt eða tekið afstöðu gegn. En ég er viss um að ef þjóðin væri spurð, væri afstaða hennar skýr. Ég er líka viss um að ef við hefðum val um ýmislegt annað, myndum við velja rétt. En á árinu höfum við rifist um hitt og þetta. Til dæmis hvort við megum yfir höfuð nota viðbjóðslegt orðfæri eins og ég hef gert hingað til, að nota „kynhlutlaust“ mál. Úff, þvílíkt hneyksli. Og auðvitað guðdómlega fyndið að það er heill stjórnmálaflokkur sem gerir þetta atriði að sínu helsta (eða eina?) baráttumáli, en vill um leið berjast gegn eina miðli Íslands sem á skilgreint hlutverk um að vernda og halda upp á íslenska tungu, hlutverk sem hefur verið unnið með eftirtektarverðum metnaði á undanförnum áratugum.
En gott og vel. Við viljum allavega hafa val. Ég vil geta valið milli stjórnmálaflokka. Ég myndi óska þess að ég gæti valið milli ferðamáta, á sama hátt og fólk getur annars staðar í Evrópu. Ég vildi óska þess að ég gæti valið milli mismunandi kjörbúða, sem væru í einhvers konar samkeppni um sanngjarnt vöruverð, kjörbúðir sem hefðu markmið um að vera mikilvægar samfélaginu sínu – frekar en að skila methagnaði í hverjum einasta ársfjórðungi. Ég vildi óska þess að hafa val um að kaupa vönduð leikföng handa dóttur minni, í stað þess að eina sem er í boði er fjöldaframleitt plastdrasl sem hefur svipaðan líftíma og banani í gluggasyllu.
Fyrir mér er árið 2024 um nákvæmlega þetta. Við viljum allavega hafa val. Ekki vera neydd til að nota Time Cop-bíóauglýsingu, því það er ekki annað í boði. Ef við höfum val, er ég viss um að við veljum það sem er okkur fyrir bestu. Tökum það með okkur í nýtt ár, kærar þakkir fyrir árið sem er að líða.
Höfundur er borgarfræðingur.
Athugasemdir