Fyrir tæpum tíu árum stóð Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra frammi fyrir því að þurfa að taka afstöðu vegna loftslagsvanda. Sjónarhóllinn sem hann valdi var að loftslagsbreytingarnar sköpuðu tækifæri fyrir íslensku þjóðina. Þannig myndu erfiðleikar jarðarbúa geta skapað tækifæri, því matvælaverð myndi hækka – en Íslendingar eiga auðveldara með að framleiða matvæli með hlýnandi loftslagi. Síðan myndi fólk skorta jarðrými, en Íslendingar myndu eiga nóg af því. „Augljóslega er þetta á heildina litið neikvætt en í því felast þó tækifæri til að bregðast við þróuninni og bregðast sem best við henni og það eru ekki hvað síst tækifæri sem Ísland hefur,“ sagði Sigmundur í viðtali við RÚV þann 1. apríl 2015, en sumir líktu því við aprílgabb að hann legði þessa áherslu á afstöðu gagnvart loftslagsáhrifum.
„Með hlýnandi loftslagi skapast ný og spennandi sóknarfæri,“ sagði síðan í drögum að ályktun flokksþings Framsóknarflokksins nokkrum dögum síðar.
Spennan magnast
Síðustu ár hafa vísbendingar um að loftslagsáhrif geti reynst Íslendingum sérstaklega hættuleg farið vaxandi.
Fyrir fund Norðurlandaráðs í Reykjavík í október síðastliðnum gáfu 44 vísindamenn með sérhæfingu í hafstraumum út opinbera áskorun til stjórnmálamanna, sem vakti þó merkilega litla athygli á Íslandi miðað við efnið. Í yfirlýsingunni var vakin athygli á „alvarlegri hættu á stórfelldum breytingum á hafstraumum í Norður-Atlantshafi“ sem nýjar rannsóknir bendi til að hafi verið „stórlega vanmetin“ fram að þessu. „Þessi breyting á hringrásarstraumum í hafinu hefði eyðileggjandi og óafturkræf áhrif, sérstaklega á Norðurlöndunum,“ sagði í yfirlýsingunni.
Kenningin um að hlýnun jarðar gæti valdið röskun á hafstraumum í Norður-Atlantshafi hefur verið þekkt í marga áratugi. Sömuleiðis virknin og áhrifin: Að með bráðnun íss flæði ferskvatn inn í veltihringrásina (AMOC-strauminn) með þeim afleiðingum að það teppi flæði hlýsjávar að sunnan, með ýmsum óútreiknanlegum áhrifum, en líklegast mikilli kólnun á Íslandi, Norðurlöndunum og Bretlandseyjum.
Fyrir hálfum mánuði birti Veðurstofan mynd sem sýndi að kaldur, saltsnauður pólsjór nær óvenjulega snemma að ströndum Íslands þessa dagana og hafís nálgast landið. Sömuleiðis hefur verið mun kaldara en í meðalári síðustu vikur. Það er þó ekki þannig sem búist er við að breytingin verði, skyndileg kólnun, heldur langtíma þróun.
Það sem vekur áhyggjur vísindamanna er að áhrifin eru þegar sýnileg. Eini staðurinn á jörðinni sem hefur kólnað frá árinu 1850 er hafið suður af Íslandi. Og eins og kenningin segir: Kaldari sjór með minna saltinnihaldi en áður og annars staðar.
Vísindamenn hafa misjafnar skoðanir á því hver áhættan er og hvenær hún myndi raungerast. Rannsókn danskra vísindamanna á sviði loftslags og hafstrauma, sem birt var í fyrra, gaf til kynna yfirgnæfandi líkur á því að veltihringrás Norður-Atlantshafsins myndi raskast á næstu áratugum. Vendipunkturinn gæti orðið í fyrsta lagi eftir tvö ár, eða minna en ár miðað við daginn í dag, en líklegast að það gerist eftir 33 ár. Vísindamönnunum var verulega brugðið við niðurstöðurnar.
„Ísland mun líklega verða fyrir 5–10 gráðu lækkun á hitastigi, sem hlýnun jarðar bætir þó upp að hluta,“ segir Peter Ditlevsen, prófessor við Niels Bohr-stofnunina í Kaupmannahöfn og annar rannsakendanna, í samtali við Heimildina í fyrra.
Síðast þegar hringrásin stöðvaðist var það samhliða því að ísöld skall á. Hitastig lækkaði um 10 til 15 gráður á einum áratug, en það gerðist þó í öðruvísi aðstæðum en í dag. Það sem truflar vísindamennina núna er annars vegar fullvissan um að breytingar séu að eiga sér stað og hins vegar óvissan um hversu slæmar þær geta orðið.
Alvarleg áhætta
Þýski loftslagsvísindamaðurinn Stefan Rahmstorf sagði í lokaorðum greinar sinnar um hættuna í september að það „væri óábyrgt, jafnvel fífldirfska, ef stefnumótendur, fólk í atvinnulífinu og raunar kjósendur halda áfram að hunsa þessa áhættu“.
Í samtali við Heimildina í haust kallaði hann eftir tafarlausum aðgerðum. „Persónulega þá tel ég að áhættan á þessum breytingum í hafi sé svo alvarleg, sérstaklega fyrir Íslendinga og hin Norðurlöndin, að ríkisstjórn Íslands ætti umsvifalaust að grípa til aðgerða ásamt ríkisstjórnum hinna Norðurlandanna,“ sagði hann.
„Ríkisstjórn Íslands ætti umsvifalaust að grípa til aðgerða“
Án þess að leggja sérstaka áherslu á að Ísland er eitt þeirra landa á jörðinni sem getur orðið fyrir mestum neikvæðum áhrifum vegna loftslagsbreytinga, og það í versta falli á næstu áratugum, hafa íslenskir stjórnmálamenn gripið til einhverra aðgerða. Ein þeirra var að veita afslátt af skatti við innflutning og sölu rafbíla, til að ýta undir orkuskipti, sem hafði í för með sér stóraukinn innflutning hreinorkubíla. Þessi aðgerð átti eftir að sæta endurskoðun.
Að bjarga þjóðinni
Tveir pólar í íslenskum stjórnmálum hafa tekist á um aðgerðir vegna loftslagsáhrifa. Annar þeirra er Miðflokkur Sigmundar Davíðs, sem vann ágætan kosningasigur í lok nóvember. Flokkurinn hefur gert út á að fylgja „róttækri skynsemishyggju“.
Í einu myndbandi ungra Miðflokksmanna á Tiktok fyrir alþingiskosningarnar sést Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dansa á balli ungra Miðflokksmanna undir textanum: „pov [sjónarhóll] þú ert að fara að bjarga þjóðinni“.
Talsmaður Ungra Miðflokksmanna varaði við því reiðilega á Tiktok fyrir kosningarnar í síðasta mánuði að Íslendingar gætu dáið út ef ekki yrði kosið rétt. Áður hafði hann kvartað undan villandi umræðu um að Miðflokksmönnum væri gert upp að afneita loftslagsbreytingum.
„Auðvitað vitum við það að loftslagsbreytingar eru raunverulegar. Það sem við erum að takast á um er hversu langt við eigum að ganga. Núna erum við að kenna sex ára börnunum okkar að plánetan sé að brenna og að þau muni öll deyja ... Umræðan á Íslandi er alltaf bara þannig að ef Ísland geri ekki eitthvað núna þá bara er heimurinn undir. Þá gleymum við því að við erum bara 400 þúsund manna þjóð í Norður-Atlantshafi. Nei, við afneitum ekki loftslagsbreytingum. Við setjum aftur á móti spurningarmerki við að setja álögur á fátækasta fólkið á Íslandi með því að neyða þau til að kaupa rafmagnsbíl.“
Hann sagði þetta „óskynsamar aðgerðir“ sem „kosta skattpeningana okkar alltof mikið“ og skar úr um málið: „Við afneitum því að kolefnishlutlaust Ísland bjargi heiminum.“
Þessi nauðhyggja er ekki bundin við Miðflokkinn, heldur hafa þessi sjónarmið heyrst meðal annars í umræðum útvarpsfólks í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, þar sem fjallað var um hættuna á kólnun Íslands. Sjónarmiðið er að umræðan um hættuna væri í raun neikvæð vegna gagnslausra og skaðlegra áhyggna af þróuninni í ljósi valdaleysis okkar.
Háleit markmið og dregið úr hvötum
Heilt yfir hafa sjónarmið þess að gera eitthvað í málunum verið ofan á og stjórnvöld sett sér metnaðarfull markmið, sem þó virðast ekki ganga eftir.
Það eru ekki aðeins ungir sem eldri Miðflokksmenn sem hafa viljað draga úr loftslagsaðgerðum. Andstæði póllinn í stjórnmálunum, sem er Vinstri græn, leiddi ríkisstjórnina sem ákvað að breyta hvataumhverfi orkuskiptanna um síðustu áramót, undir þrýstingi frá núverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, sem þá var í leit að tekjupóstum þrátt fyrir að hafa annars lofað lágum sköttum.
Um síðustu áramót ákváðu stjórnvöld að innleiða 6 króna kílómetragjald á rafbíla, með markmið um að leggja sömuleiðis kílómetragjald á dísil- og bensínbíla um næstu áramót, sem ekki varð þó af. Eftir að stjórnvöld settu kílómetragjaldið á varð 80 þúsund krónum dýrara að reka rafbíl á einu ári í meðalakstri.
Sömuleiðis ákváðu stjórnvöld að hækka verð á rafbílum með því að minnka skattaafslætti.
Við upphaf árs 2023 var hámarksendurgreiðsla lækkuð úr 1,56 milljónum í 1,32 milljónir króna. Í ársbyrjun 2024 var innleiddur lægri styrkur í stað skattaafsláttar sem nemur að hámarki 900 þúsund krónur. Að raunvirði hefur rafbílastyrkurinn næstum helmingast frá ársbyrjun 2023, úr 1,7 milljónum króna að hámarki niður í 900 þúsund. 47% lækkun á sama tíma og innleitt var kílómetragjald.
Ýmis rök eru fyrir því að draga úr ívilnunum vegna rafbílakaupa. Fyrst eru það jafnaðarrökin. Sumir segja ívilnunina ósanngjarna vegna þess að hún nýtist frekar tekjuháum, þeim sem kaupa nýja bíla. Aðrir að fáir geti tengt rafbíla heima hjá sér, eða að innviðir þoli ekki fleiri rafbíla í bili.
Þetta eru rök sem má svara með því að tekjulægri eiga auðveldara með að eignast rafbíl ef söluverð er lækkað og þar með lækka eldsneytiskostnað. Sömuleiðis er það fyrst og fremst ákvörðun að byggja upp innviði fyrir hleðslu og því meiri hvati sem er fyrir rafbílaeign, þess meiri hvati er til þeirrar uppbyggingar.
Síðan eru jafnræðisrökin, að það sé mikilvægt að rafbílaeigendur greiði meira fyrir notkun af vegakerfinu. Þetta eru hugsanlega sterkustu rökin fyrir því að skattleggja rafbíla meira, þó svo að á sama tíma hafi stjórnvöld verið með ýmis áform um notkunargjöld af þjóðvegum.
Á móti má nefna að notkun rafbíla er með innbyggðan neikvæðan hvata, sem liggur í því að eigendur þurfa að verja tíma í að hlaða þá og treysta á innviði.
Jákvæð hliðaráhrif skattaívilnunar
Flýtirinn við að draga úr hagkvæmni og hvata þess að eiga rafbíl gengur hins vegar gegn fjölþættum jákvæðum hliðaráhrifum rafbíla sem ýta undir efnahagslega og umhverfislega sjálfbærni.
Áhrif þess að einn kaupandi nýs bíls velji rafbíl eru að hann flytur ekki inn eitt tonn af eldsneyti til landsins á einu ári eins og fyrir venjulegan, sæmilega neyslugrannan bensínbíl á hverju ári til að brenna. Hann mengar ekki loftið með útblæstrinum sem fer inn í lungu flestra í borgarumhverfinu á kyrrum degi. Og hann veldur ekki sama viðskiptahalla þegar hann kaupir rafmagn frekar en innflutt bensín eða dísil. Sömuleiðis eykst seigla gagnvart áföllum að vissu leyti. Ef til stríðs kemur er eldsneytisverð fljótt að hækka og valda dómínóáhrifum á annað verðlag.
Svo eru það áhrifin á loftslag jarðar, sem við nennum ekki að pæla í vegna þess að orsakasamhengið er of flókið og tímalínan löng, jafnvel þótt þau gætu raunsætt séð orsakað verstu þróun sem Íslendingar gætu hugsað sér á líftíma okkar eða barna þeirra sem eru fullorðin í dag.
2.315 fleiri bílar sem brenna eldsneyti
Ákvarðanir hafa afleiðingar, þó við getum ekki alltaf greint þær eða viljum setja orku í að skilja þær.
Við getum ekki vitað nákvæmlega hversu mikil áhrif á innflutning rafbíla skattaumhverfið hefur, en við getum þó vitað ýmislegt fyrir víst. Eitt er það að á árinu 2024 hrundi hlutfall rafbíla af innfluttum bílum úr 39% í 18%. Annað er að um áramótin tóku gildi breyttar reglur um rafbíla sem dró úr hvata þeirra. Þriðja er að munurinn á árinu 2024 og 2023 er 3.550 færri rafbílar en þeir hefðu verið ef hlutfall þeirra af heildarinnflutningi bíla hefði verið jafnhátt í ár eins og í fyrra. Með auknu hlutfalli bensín- og dísilbíla eru 2.315 fleiri slíkir bílar sem brenna eldsneyti, heldur en hefðu verið í sama hlutfalli og í fyrra. Mismunurinn eru tvinnbílar sem nota líka eldsneyti. Það jafngildir því að minnst 2,3 milljónir lítra af bensíni og dísil er og verður árlega flutt til landsins meira en ef hlutfallið hefði verið óbreytt, og brennt að mestu leyti í byggðunum þar sem við búum. Eingöngu þessi munur þýðir að, miðað við verðlag í dag, eru minnst 680 milljónir króna meira færður í að kaupa og flytja inn eldsneyti á hverju ári og stór hluti af því fé fer úr landi, sem veikir gengi krónunnar og þar af leiðandi ýtir undir verðbólgu innfluttra vara.
Ef fólkið sem kaupir ekki nýjan rafbíl gæti í framtíðinni fengið hann notaðan frekar en bensínbíl spara þau 230 þúsund krónur á ári í kaup á orku við meðalnotkun. Árlegur sparnaður hefði verið tæp 290 þúsund krónur á ári, eða 5 þúsund krónum meiri sparnaður á mánuði, ef kílómetragjald hefði ekki verið lagt á rafbíla. Fyrir utan að enginn er undanskilinn því að anda að sér köfnunarefnisdíoxíði úr útblæstri bíla, sem fer gjarnan yfir heilsuverndarmörk í logni.
Átta prósent
Hlutfall rafmagnsbíla af innfluttum bílum er í ár orðið lægra en það var 2020. Það er ekki vegna þess að sala rafbíla sé að dragast saman í heiminum, því hún jókst um fjórðung fyrri helming ársins og þriðjung á haustmánuðum milli ára. Það er ekki heldur vegna þess að allir séu komnir á rafmagnsbíla. Þeir eru 8% ökutækja í umferðinni. Því er enn sem komið er ekki verið að neyða fólk til að nota rafbíl eða banna fólki að nýta dísilbíla í aðstæður þar sem þeir eru betri, eins og í fjallaferðir og lengri akstur í dreifbýli.
Íslendingar eru í einstakri aðstöðu til þess að nýta hreina orku í samgöngur. Það virðist hins vegar ekki á dagskránni. Í umfjöllun RÚV um alþingiskosningarnar voru kjósendur af handahófi spurðir hvaða málefna þeir söknuðu úr kosningabaráttunni. Nokkrir þeirra nefndu umhverfismál. Svo fór að tveir af þeim stjórnmálaflokkum sem hafa lagt mesta áherslu á loftslagsaðgerðir dóu út á Alþingi.
Íslenski draumurinn
En Miðflokksmenn, sem juku fylgi sitt úr 5,4% í 12,1%, hafa miklar áhyggjur af öðru. Formaðurinn, Sigmundur Davíð, sagði á kjördag að þá væri „ögurstund í 1150 ára lífi þjóðar“: „Í dag fara fram kosningar sem snúast ekki aðeins um hvert samfélagið skuli stefna heldur hvort við séum reiðubúin að gera það sem þarf til að vernda þetta samfélag til framtíðar.“
Miðflokkurinn hafði gefið út stefnu um búsetuaðstæður ungs fólks undir heitinu „Íslenski draumurinn“. Það var þungur tónn í talsmanni ungra Miðflokksmanna á Tiktok, þar sem hann sparkaði niður tveimur stólum til að leggja áherslu á mál sitt. „Þessar kosningar skipta gríðarlegu máli. Hvort við ætlum að deyja út sem þjóð eða skapa aðstæður þar sem ungt fólk vill eignast börn á Íslandi,“ sagði hann í myndbandi, sem var hnýtt saman með þrumandi rödd Sigmundar Davíðs undir lokin.
„Það á enginn að koma til Íslands í leit að hæli,“ sagði í kosningastefnu Miðflokksins á eftir íslenska draumnum.
Hvorki þeir né aðrir flokkar sem náðu inn á þing lögðu áherslu á þann raunhæfa möguleika, sem vísindamenn hafa tekið sig saman um að vara okkur við, með sérstöku ákalli til stjórnmálamanna, að loftslagsbreytingar ógni sérstaklega framtíð Íslendinga.
Að ef allt fer á verri veg geti unga fólkið eða börnin sem þau eignast neyðst til að yfirgefa Ísland vegna loftslagsbreytinga, skiljandi eftir sig verðlitlar eignir. Og leita þá ásjár hjá öðrum, með von um að vera betur tekið.
Í þeim aðstæðum farnast þeim best sem eiga mest og hafa aðgang að aflandi.
Fyrir önnur væri þetta þó ekki íslenskur draumur, heldur nær martröð.
Við getum kannski litlu breytt, en við getum þó undirbúið okkur, sýnt fordæmi, verið fyrirmyndir og gert að lágmarki það sem þó hagnast okkur hvort sem er.
En er ekki greinin einmitt um loftlagsbreytingar? Rafmagnsbílar eru ekki að fara breyta neinu sem skiptir máli þar þó skemmtilegir séu. Útblásturinn sem verður til við að grafa upp málmana í batteríin gera það að verkum að rafmagnsbíllinn er í stórum mínus miðað við jarðeldsneytisbíl þegar þeir eru báðir nýjir.
Eyðum þessum peningum sem fara í niðurgreiðslu á rafmagnsbílum frekar á öðrum stöðum sem gera meira gagn fyrir loftslagið.