Biðflokkur. Biðflokkur. Og aftur biðflokkur. Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur birt drög að tillögu sinni að flokkun tíu vindorkukosta í samráðsgátt stjórnvalda. Er í öllum tilvikum lagt til að virkjunarhugmyndirnar, sem eru um allt land, fari í biðflokk rammaáætlunar. Í þann flokk fara þeir kostir sem talið er að enn skorti á gögn og rannsóknir til að flokka í annað hvort verndar- eða nýtingarflokk. Í nokkrum tilvikum eru rökin þau að betur eigi eftir að rannsaka farleiðir hafarna á viðkomandi svæði en líkt og Heimildin hefur fjallað ítarlega um að undanförnu eru hafernir í sérstakri hættu á því að fljúga á vindmyllur.
Samráðið nú er fyrra umsagnarferlið sem tillaga verkefnisstjórnar fer í áður en lokatillaga að flokkun verður send ráðherra umhverfismála. Ráðherra setur tillögurnar svo fram á Alþingi í formi þingsályktunartillögu og það er því þingsins að taka endanlega ákvörðun um málið.
Verkefnisstjórnin hefur yfir tuttugu vindorkukosti til viðbótar til meðferðar.
Hér að neðan má finna útdrátt úr rökstuðningi verkefnisstjórnarinnar fyrir því að flokka allar virkjunarhugmyndirnar tíu í biðflokk. Niðurstaðan er m.a. byggð á mati fjögurra faghópa sem að vinnunni koma sem allir hafa ákveðið áhrifasvið til umfjöllunar.
Alviðra í Borgarfirði
Framkvæmdaaðili er félagið Hrjónur ehf sem er í eigu Helga Hjörvars, fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar. Hugmyndin er að reisa virkjunina á Grjóthálsi, sem liggur milli Norðurárdals og Þverárhlíðar í Borgarfirði. Vindmyllurnar yrðu 10-14 talsins og yrðu reistar á landi í einkaeigu á jörðunum Hafþórsstöðum og Sigmundarstöðum, á milli nærliggjandi jarða.
Flokkun: Biðflokkur
Rökstuðningur: Við mat faghópa og í samanburði við þá virkjunarkosti sem hér eru til umfjöllunar koma fram mörg atriði sem gera Alviðru ekki ákjósanlega staðsetningu fyrir vindorkuver. Skiptir þar sérstaklega mikil sjónræn áhrif í stóru héraði, verðmætt landslag, neikvæð afstaða samfélags, svo og margskonar verðmæti náttúru sem mannvirkin mun raska. Einnig komu í ljós gögn sem sýna nálægð við farleiðir hafarna sem þarf að rannsaka betur.
Garpsdalur í Reykhólasveit
Framkvæmdaaðili er EM Orka. Virkjunin yrði reist á Garpsdalsfjalli, norðan Gilsfjarðar á Vestfjörðum. Um 21 vindmylla yrði reist á hásléttu í um 500 metra hæð yfir sjó.
Flokkun: Biðflokkur
Rökstuðningur: Helstu rök fyrir því að þetta verkefni er flokkað í biðflokk er að í vinnu faghóps 1 hafa komið fram bætt gögn um farleiðir hafarna. Virkjunarkosturinn er á jaðri verndarsvæðisins Breiðafjarðar, sem er mikilvægt fuglasvæði. Þessi nýju gögn sýna að hafernir fljúga í einhverjum tilvikum nálægt og mögulega yfir mögulegt virkjunarsvæði í Garpsdal. Það er því niðurstaða verkefnisstjórnar nú að leggja til við ráðherra að virkjunarkosturinn verði í biðflokki á meðan þeirri óvissu er eytt. Telur verkefnisstjórn ekki ábyrgt að leggja til aðra flokkun á virkjunarkostinum, þar sem haförn er lykiltegund í íslenskri náttúru og tryggja þurfi að áhætta sé ekki tekin varðandi vernd þeirra. Sýni frekari mælingar á farleiðum arna litla hættu á yfirflugi mætti hins vegar færa rök fyrir því að flokka verkefnið í Garpsdal í nýtingarflokk.
Hnotasteinn, Melrakkasléttu
Virkjunarkostur á vegum Qair Ísland ehf. Virkjunin yrði sunnan við þjóðveginn á Hólaskarðsleið yfir Melrakkasléttu ofan byggðarinnar í Öxarfirði. Þar yrðu reistar 12-15 vindmyllur.
Flokkun: Biðflokkur
Rökstuðningur: Það er enn óvissa um ýmsa þætti í mati faghópa á þessum virkjunarkosti sem verkefnisstjórn telur þurfa betri skoðun. Á það bæði við þætti sem vega með þessari staðsetningu og á móti. Miklu skiptir einnig að kostnaður við að tengja þennan kost inn á dreifikerfi Landsnets er áætlaður 10-14 milljarðar. Þetta er verulegur kostnaður og mun meiri en varðandi önnur vindorkuverkefni sem hér eru til skoðunar.
Hrútmúlavirkjun í Skeiða- og Gnúpverjahreppi
Framkvæmdaaðili er wdp Ísland ehf. Virkjunin myndi samanstanda af 22 vindmyllum og yrði á jörðinni Skáldabúðum sem er í einkaeigu. Jörðin og væntanlegt virkjunarsvæði á henni er innarlega í sveitinni og liggur að afréttarlandi.
Flokkun: Biðflokkur
Rökstuðningur: Þetta verkefni virðist mæta töluverðrar andstöðu í nærsamfélaginu, en hefur fengið litla kynningu og umfjöllun. Það hefur veruleg sjónræn áhrif, sérstaklega í nærliggjandi sveitum um miðbik Suðurlands. Ýmis áhrif verkefnisins þurfa augljóslega frekari skoðun, eigi það að geta komið til álita.
Hrútavirkjun í Hrútafirði
Framkvæmdaaðili er Zephyr Iceland ehf. Virkjunin yrði byggð á hálsinum ofan Borðeyrar í Hrútafirði, gegnt Laxárdal í Dölum. Þar yrðu um 12-15 vindmyllur reistar.
Flokkun: Biðflokkur
Rökstuðningur: Nú liggja fyrir mælingar á farleiðum hafarna hér á landi yfir töluverðan tíma. Í þeim kemur í ljós að þessi staðsetning vindorkuvers er í meginfarleið hafarna. Ólíklegt er að frekari mælingar leiði annað í ljós, þar sem endurteknar rannsóknir undanfarin ár sýna mikla umferð arna yfir þetta svæði. Tillaga verkefnisstjórnar er að flokka kostinn í biðflokk, en líklegt má telja að fyllri gögn um farleiðir hafarna sýni að Hrútavirkjun skuli flokkast í verndarflokk, enda teljist vernd hafarnarstofnsins verulega mikilvægir náttúruverndarhagsmunir á þessu landsvæði.
Sólheimar á Laxárdalsheiði
Virkjunarkostur á vegum Qair Ísland ehf. Virkjunin er áformuð á samnefndri jörð í einkaeigu, sem er innsti bær í Laxárdal áður en komið er á Laxárdalsheiði.
Flokkun: Biðflokkur
Rökstuðingur: Nú liggja fyrir mælingar á farleiðum hafarna hér á landi yfir töluverðan tíma. Í þeim kemur í ljós að Laxárdalur og staðsetning vindorkuvers á Sólheimum er í meginfarleið hafarna. Ólíklegt er að frekari mælingar leiði annað í ljós, þar sem endurteknar rannsóknir undanfarin ár sýna mikla umferð arna yfir þetta svæði. Tillaga verkefnisstjórnar er að flokka kostinn í biðflokk, en líklegt má telja að fyllri gögn um farleiðir hafarna sýni að Sólheimar skuli flokkast í verndarflokk, enda teljist vernd hafarnarstofnsins verulega mikilvægir náttúruverndarhagsmunir á þessu landsvæði.
Mosfellsheiðarvirkjun 1 og 2
Virkjunarkostir á vegum Zephyr Iceland. Virkjanirnar yrðu á Mosfellsheiði, í Grímsnes- og Grafningshreppi en nærri lögsögumörkum hans við Mosfellsbæ. Landið er þjóðlenda.
Flokkun: Biðflokkur
Rökstuðningur: Þessir virkjanakostir er á svæði sem er að hluta mótað af virkjanamannvirkjun, en það liggur að hitaveituæðinni frá Nesjavöllum og samhliða vegi. Ýmsir kostir fylgja þeirri staðsetningu hvað varðar aðgengi og tengimöguleika. Vindorkumannvirki eru hins vegar ólík þeim orkumannvirkjum sem þarna eru fyrir og sýnileiki þeirra væntanlega meiri. Þetta verkefni hefur lítið verið kynnt, hvorki fyrir því sveitarfélagi sem það er í eða nágrannasveitarfélögum sem það gæti haft áhrif á. Það litar viðhorf íbúa í sveitarfélaginu sem hefur lögsögu á svæðinu. Ýmis sjónarmið koma fram í greiningum á virkjunarkostunum vegna ásýndar og skynræns áreitis af því, m.a. gagnvart byggð á Suðvesturhorninu, vegna Þingvalla og mikilvægrar ferðamannaleiðar yfir Mosfellsheiði og fleiri atriða sem enn eru óljós. Jafnframt hafa tvö önnur vindorkuverkefni sunnar á heiðinni nýlega verið skilgreind til rammaáætlunar.
Reykjanesvirkjun
Virkjunarkostur á vegum HS Orku yst á Reykjanesskaga.
Flokkun: Biðflokkur
Rökstuðningur: Faghópur 1 metur ýmis verðmæti náttúru- og menningarminja, sérstaklega hvað varðar jarðfræði og fuglalíf nokkuð háa. Í mati faghóps 2 hefur vindorkuverið Reykjanesgarður I hvað minnst neikvæð áhrif á ferðamennsku og útivist af þeim verkefnum sem skoðuð voru. Jafnframt eru ekki áhrif á aðra hagsmuni eins og veiði eða landbúnað. Í umfjöllun faghóps 3 koma fram ýmis atriði sem þarf að skoða. Verkefnið virðist ekki hafa fengið kynningu á svæðinu, bæði hvað varðar sveitarfélög og eins þeirra sem reka alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Eldsumbrot við Sundshnjúksgíga ollu síðan því að ekki var hægt að vinna frekar mat, m.a. á viðhorfum íbúa.
Vindheimar
Virkjunarkostur í Hörgardal í Eyjafirði á vegum Fallorku.
Flokkun: Biðflokkur
Rökstuðingur: Þar sem virkjunaraðili hefur lagt áform sín á hilluna varðandi þetta verkefni, leggur verkefnisstjórn það til að þetta verkefni verði dregið til baka úr rammaáætlun.
Athugasemdir