„Ég er lattelepjandi borgarbúi og stolt af því. Við erum stödd í Koggu, keramikverkstæði og galleríi, sem er búið að vera hér á sama stað í næstum því 40 ár. Ég er dóttir Koggu, Kolbrúnar Björgólfsdóttur, og Magnúsar Kjartanssonar. Pabbi var hérna líka, ég sit í hans gamla stól. Við höldum hans hugverki eins og við getum, hann dó fyrir 18 árum. Svo er systir mín hérna líka, búin að vera í 30 ár. Fjölskyldan er öll hérna en þetta er miklu meira en bara fyrirtæki. Mamma er búin að vera að í 50 ár.
Ég ólst upp í þessu. Það er eflaust þroskandi og ákveðið menningarlegt uppeldi, mikið af listamönnum og alls kyns skemmtilegu fólki sem var inni á heimilinu. Það var mikið talað um heimsmálin og heimspeki og skeggrætt um allan fjandann. Ég var kannski ótrúlega lítil þegar ég var að taka þátt í fullorðins samtölum og fannst það bara sjálfsagt. Ég man mjög mörg skipti þar sem ég sat með þeim á Mokka kaffi og þá voru listamennirnir allir að reykja vindla, drekka kaffi og ræða list, pólitík og lífið og tilveruna. Ég sat með þeim og fékk vöfflu með rjóma og appelsín. Mér fannst þetta geggjað, ég var oftast eini krakkinn og mér fannst þetta stórkostlegt, ég sá engan mun á mér og þessu listafólki. Mér fannst sjálfsagt að taka þátt í svona samtali um alls kyns hluti sem maður hafði kannski takmarkaðan skilning á þá.
„Það var mikið talað um heimsmálin og heimspeki og skeggrætt um allan fjandann
Svo þegar ég fór í skólann og talaði við jafnaldra þá vissu þau ekkert hvað ég var að tala um, þetta var kannski aðeins öðruvísi heimur heldur en margir aðrir félagar voru í. Ég ólst líka svolítið mikið upp fyrir austan hjá ömmu minni og móðursystur, var send þangað öll sumur. Þegar ég kom heim á haustin og var að tala eins og mér fannst eðlilegt spurði einn strákurinn af hverju ég talaði eins og gömul kona. Það stuðaði mig, en þeim fannst orðaforðinn greinilega svolítið „gammel“.
Það sem hafði mest áhrif á mig og mitt sjónarhorn er að búa erlendis. Ég lærði heimspeki á Ítalíu og á Bretlandi og hef búið í Hollandi. Mér fannst áhugaverðast að upplifa hvernig annað fólk hefur það. Þegar ég flutti aftur heim fannst mér magnað að átta mig á því hvað við höfum það brjálæðislega gott. Alveg sama hvað maður les í bók eða talar við fólk þá er mesta upplifunin að prófa það sjálfur og þurfa að standa á eigin fótum við nýjar aðstæður. Það er bæði það skemmtilegasta sem ég hef gert og mest þroskandi.
Ég flutti aftur til Íslands þegar pabbi dó. Mér rann blóðið til skyldunnar. Ég þurfti á Íslandi og fjölskyldunni að halda og þau mér svo ég kom heim og hef verið hér síðan. Ég starfa hér hjá mömmu en ég er heimspekingur, það er mitt fag, ég kenni heimspeki. Svo er ég ljósmyndari.“
Athugasemdir