Það er ekki nýtt að kjósendum sé talin trú um að töfralausnum fylgi betri tími og blóm í haga. Slík töfralausn er sú kenning að með niðurskurði og skattalækkunum verði til hagvöxtur sem skili brauðmolum á hvers manns disk innan tíðar. Að baki hennar eru hagfræðikenningar frá þeim tíma þegar sköttum var nær eingöngu varið til uppihalds kónga og aðals og hernaðar á þeirra vegum, löngu áður en til kom ríkisbúskapur sem að mestu felst í þjónustu við almenning og uppbyggingu innviða fyrir hann og atvinnustarfsemi.
Fram yfir síðustu aldamót blómstraði sú kenning að miklum niðurskurði ríkisútgjalda í kreppu fylgi kröftugur hagvöxtur. Hana var m.a. að finna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) allt til ársins 2010 að ströng trú á henni var lögð til hliðar. Hún kom t.d. fram í stuðningsáætlun AGS við Ísland eftir Hrunið. Áætlanir AGS og Íslands haustið 2008 gerðu nær eingöngu ráð fyrir niðurskurði útgjalda til að vinna á halla ríkissjóðs en ný ríkisstjórn í ársbyrjun 2009 breytti um stefnu og ákvað með samþykki sjóðsins að stórum hluta af árlegum halla ríkissjóðs yrði mætt með auknum tekjum auk þess sem að fé var varið í félagslegar aðgerðir, vaxtabætur og barnabætur. Skilaði það góðum árangri, hagvöxtur óx fyrr og halli ríkissjóðs minnkaði hraðar en fyrri áætlanir AGS höfðu gert ráð fyrir.
Auðvelt er að finna önnur dæmi þess að vikið var frá kreddufestu í þessum efnum með góðum árangri. Endurreisn Obama-stjórnarinnar í Bandaríkjunum (BNA) eftir kreppuna 2008 var að mestu aukin framlög til samgönguinnviða og framfærslustuðningur. Fastheldni í ríkisfjármálum í Evrópu er talin hafa seinkað endurreisn efnahagslífs þar á sama tíma. Aðgerðir Biden-stjórnarinnar eftir Covid áfallið í BNA voru að miklu leyti aukin útgjöld, fjárfestingarhvatar í loftlagsmálum o.fl. sem skiluðu góðum árangri en hagvöxtur í Evrópu var dræmur eftir Covid.
Þrátt fyrir fræðilega veikleika og augljós dæmi um lítinn árangur lifir trúin á niðurskurð víða góðu lífi og hefur ráðið för hér á landi frá árinu 2013. Litið er á viðbrögð við Covid og eldsumbrotum sem stök frávik en ríkisfjármálaáætlunin hefur eftir sem áður það höfuðmarkmið að skera útgjöld niður um 2-3% af vergri landsframleiðslu (VLF). Með því er byrðin af þessum áföllum lögð á herðar launafólks og notenda opinberrar þjónustu og uppbyggingu innviða slegið á frest.
„Skattar eru það sem við greiðum fyrir siðað samfélag”
Oliver Wendell Holmes, Jr.
Hagvöxtur og samneysla
Kenning niðurskurðarsinna er að með því að skerða opinbera starfsemi aukist umsvif einkarekstrar og hagvöxtur aukist. Þeir líta fram hjá tveimur mikilsverðum staðreyndum. Annars vegar því að aukin og bætt opinber þjónusta er líka hagvöxtur og hins vegar því að bæði eftirspurn eftir vörum og þjónustu á markaði og eftirspurn eftir opinberri þjónustu breytist í takt við aukna hagsæld í samfélaginu.
Hlutur hins opinbera í VLF hefur á síðustu 100 árum vaxið úr ca 20% um 1920 í yfir 50% í mörgum ríkjum Vesturlanda og henni fylgdi mikil og víðtæk hagsæld. Þessi hækkun á hlutfalli hins opinbera í þjóðarbúskapnum er ekki tilviljun og er ekki vegna pólitískra duttlunga heldur vegna þess að æ fleiri verkefni í nútíma samfélag eru þess eðlis að þau verða ekki leyst á frjálsum markaði. Framleiðsla vöru og þjónustu hefur vegna tæknilegra framfara o.fl. náð því að uppfylla að mestu þarfir til lífsviðurværis en samhliða hefur eftirspurn aukist eftir gæðum sem ekki eru í boði á markaði eða ekki er á færi markaðsaðila að veita. Má í því samhengi að nefna heilbrigðisþjónustu, framfærslutryggingar, menntun, öryggismál, rannsóknir og vísindi o.m.fl. Eftirspurn eftir þessari þjónustu hefur vaxið umfram eftirspurn eftir vörum og þjónustu á markaði. Við það bætist að lýðfræðilegar breytingar, framfarir í heilbrigðisvísindum og félagsleg þróun hafa aukið álagið á mörg hinna opinberu kerfa og saman veldur þetta hærri hlutdeild hins opinbera í verðmætasköpun og VLF.[1]
Siðað samfélag og skattar
„Skattar eru það sem við greiðum fyrir siðað samfélag” skrifaði bandaríski hæstaréttardómarinn Oliver Wendell Holmes, Jr. árið 1927 í rökstuðningi fyrir lögmæti skattlagningar. Þessi setning undirstrikar skyldu borgaranna til að leggja sitt af mörkum til að skapa og viðhalda siðuðu samfélagi. Skattar eru ekki fjárhagsleg kvöð heldur fjárfesting í samfélagi sem virkar og tryggir borgurunum öryggi, sanngirni og jafnrétti. Það er hlutverk stjórnmálanna að leggja mat á hvað þarf til þess á hverjum tíma og finna það jafnvægi milli einkaneyslu og samneyslu sem svarar til þess. Undan þeirri skyldu verður ekki vikist með lýðskrumi og hentifræði.
Hentifræði, þ.e. staðhæfingar sem sýnast trúverðugar en eru í reynd inntakslausar eða rangar eru algengar í pólitískri umræðu. Loforð um skattalækkun til að bæta almannahag og einkavæðing til að bæta þjónustu er af þeim toga. Til lengri tíma litið verða skattar og ríkisútgjöld standast á. Skattalækkun fylgir því minni opinber þjónusta. Hvort lækkunin verður til að auka velsæld eða ekki ræðst af því hvort sú þjónusta sem niður fellur er meira eða minna virði en sú einkaneysla sem kemur í hennar stað. Sá rökstuðningur að einstaklingurinn eigi sjálfur valið á ekki við ef sú þjónusta sem hann þarfnast er ekki til á markaði. Sá sem þarfnast læknis er lítið betur settur með brauðmola til að narta í á biðlistanum.
Markaðsbrestur sem þessi verður einungis leystur með pólitískri ákvörðun og það er hlutverk stjórnvalda að sjá til þess að ríkið sé á hverjum tíma í stakk búið til að veita þá þjónustu sem fólkið í landinu vill fá og nauðsynleg er fyrir framfarir og hagsæld til lengri tíma. Stjórnvöld mega ekki láta forpokuð viðhorf til samfélagsins og úreltar kenningar ráða gerðum sínum en verða í stað þess að leggja mat á alla kosti með almannaheill í huga. En skilningur margra stjórnmálamanna á félagslegu og hagfræðilegu hlutverki ríkisins sem og samhengi skatta og opinberrar þjónustu virðist takmarkaður eins og sýnir sig í síbylju um lægri skatta og niðurskurð í ríkisrekstri.
Skattapólitík, jafnrétti og sanngirni
Hversu stórum hluta af tekjum samfélagsins á að verja til sameiginlegra verkefna verður að svara í samræmi við óskir borgaranna sem koma fram í kosningum, rannsóknum og könnunum og innan raunhæfs efnahagslegs ramma hverju sinni. Spurningin og svar við henni snýst um heilbrigðismál, menntamál, félagsmál, öryggismál o.fl. er um velferðarpólitík.
Skattapólitík er allt annað. Viðfang hennar er að ákveða hvernig þeirra tekna er aflað sem þarf til að ná settum markmiðum í velferðarmálum. Í henni þarf að ákveða hvaða sköttum er beitt, hverjir skuli greiða þá og hvernig skattbyrði er dreift. Þar reynir á pólitísk og félagsleg viðhorf og önnur atriði sem lögð hafa verið til grundvallar í fræðilegri umfjöllun um skatta frá því að hún hófst á 18. öld með ritum Adam Smith. Mikilvægast þeirra eru að við skattlagningu sé gætt jafnréttis og sanngirni. Jafnréttis þannig að þeir sem jafnt standa, hafa t.d. sömu tekjur, greiði sama skatt og sanngirni þannig að þeir sem betur standa, t.d. eru tekjuhærri, greiði hærri skatt en þeir sem tekjulægri eru. Þessi leiðarljós góðrar skattlagningar svara ekki því hversu mikið meira hinir betur settu eiga að greiða en hinir verr settu en við þá ákvörðun má líta til nytjafræði og þess að fórnarkostnaður við skattgreiðslu ræðst efnahagslegri stöðu. Sama skattfjárhæð er meiri fórn fyrir þann sem er á lágmarkslaunum en þann sem ekki veit sinna tekna tal. Af þessum ástæðum m.a. er stigvaxandi tekjuskattlagning meginregla í flestum löndum.
Það dylst ekki neinum að langt er frá því að skattlagning hér uppfylli skilyrði góðrar skattheimtu. Mismunur á skattlagningu tekna eftir uppruna þeirra brýtur jafnréttisregluna og það ásamt skattasmugum fyrir sumar tekjur veldur því að dreifing skattbyrði er ekki sanngjörn. Breyting hefur orðið á skattkerfinu til hins verra á síðustu árum bæði með breytingum á skattalögum og því að ekki hefur verið brugðist við vaxandi skattasniðgöngu með notkun eignarhaldsfélaga o.fl. Þörf er á róttækum breytingum.[2]
Nauðsynlegar breytingar
Meðal þess sem breyta þarf er að skattkerfið endurspegli félagsleg sjónarmið betur en nú og taki meira tillit til fjölskylduaðstæðna svo sem framfærslu og húsnæðis. Álagningu beinna skatta þarf að fella betur að greiðslugetu skattborgaranna hvort sem hún birtist í tekjum eða eignum. Liður í því væri að fjármagnstekjur sæti sömu skattlagningu rauntekna og launatekjur og að þær verði einnig með einhverjum hætti stofn útsvars til sveitarfélaga.
Skattlagning eigenda eignarhaldsfélaga ætti að lúta þeim reglum um reiknað endurgjald sem gilda um sjálfstætt starfandi einstaklinga og einkahlutafélög í öðrum starfsgreinum auk þess sem afnema þarf skattfrelsi einkahlutafélaga af arðstekjum og söluhagnaði. Vextir, þóknanir og aðrar fjármagnsgreiðslur íslenskra félaga til erlendra og innlendra eigenda verði skattlagðar og hækkaður lágmarksskattur lagður á félög hér á landi í eigu erlendra aðila.
Stefna þarf að því að afnema þrepaskiptingu virðisaukaskatts í áföngum með tekjuhlutlausri lækkun efra þrepsins. Samræmd náttúru- og umhverfisgjöld verði látin standa undir öryggismálum og þjónustu á ferðamannastöðum um land allt.[3]
Tekjur af framangreindum breytingum ásamt skattlagningu rentu af nýtingu allra náttúruauðlinda, þar sem nýtingin er takmörkuð af lagalegum reglum eða náttúrulegum aðstæðum, gætu staðið undir styrkingu velferðarkerfa og uppbyggingu innviða í landinu án þess að þyngja skattbyrði launafólks.
Tilvísanir
-
Sjá einnig grein mína um Lögmál Wagners, birt 26. október 2017 á kjarninn.is
-
Sjá nánar: Sanngjörn dreifing skattbyrði, skýrsla mín og Stefáns Ólafssonar unnin 2019 fyrir Eflingu https://indridih.com/skattar-almennt/sanngjorn-dreifing-skattbyrdar/
-
Sjá Hagfræðistofnun HÍ: Staða efnahagsmála á haustmánuðum 2024, bls. 11 og 12 https://ioes.hi.is/sites/ioes.hi.is/files/2024-11/astand_efnahagsmala_04_11_lok.pdf
Greinin birtist fyrst í Vísbendingu, vikuriti um viðskipti og efnahagsmál. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.
Þessi skattheimta sem var til reksturs Tryggingastofnun ríkisins felld niður af vinstri stjórn Ólafa Jóhannessonar 1971-74 og þá var reksturinn settur á fjárlög. Auðvitað hafði unglingur nánast enga þörf á þessari þjónustu en þegar litið er til baka er býsna margt sem við erum á eftir. Fyrir um 140 árum voru innleiddar almannatryggingar í Þýskalandi að tilstuðlan Bismarcks kanslara sem þótti nokkuð afturhaldssamur. En hann naut fylgis þýsku þjóðarinnar þegar hann sýndi þessum málum skilning og lét hrinda þessum áformum úr vör.
Mjög margir íhaldsmenn telja sig gera rétt í að koma skattbyrðinni yfir á láglaunafólk. Það er aðferð þeirra að halda þeim sem minna mega sín fjárhagslega niðri á mörkunum að geta lifað af.
Að reka samfélag er eikki auðvelt. Þjóðvegakerfið okkar er t.d. um 13.000 km langt en skattgreiðendur um 300.000. Það eru því um 25 skattgreiðendur sem kosta til hvern km af þjóðvegunum okkar. Þá eru skólarnir, heilbrigðiskerfið, félagsmálin og allt hitt.
Erlendir ferðamenn sem hingað koma eru forviðra hvernig okkur tekst að reka þetta samfélag. En því miður eru margir sem vilja seilast í meira fé en þeir leggja sjálfir til samfélagsins. Alltaf er mér hugstætt þegar Kristur fjallaði um skattinn sem fátæka ekkjan greiddi til keisarans í Róm. Það var mun stærri hlutur en sem auðmaðurinn lagði af sínum auði.
Þakka góða grein og hlakka til að lesa þá næstu.