Sannleikurinn í myndinni Gladiator II: Hvert var hlutverk Macrinusar?

Leik­stjór­inn Ridley Scott fjall­ar í stór­mynd­inni Gla­diator II um at­burði í Róma­veldi um ár­ið 200. Ein eft­ir­minni­leg­asta per­sóna mynd­inn­ar er Macr­in­us nokk­ur sem Denzel Washingt­on leik­ur eft­ir­minni­lega. En hver var Macr­in­us í raun og veru?

Sannleikurinn í myndinni Gladiator II: Hvert var hlutverk Macrinusar?
Macrinus (hér leikinn af Denzel Washington) gerði vissulega samsæri gegn keisara sínum. En ástæðan var allt önnur en í bíómynd Ridleys Scotts.

Undanfarið hef ég fjallað hér, hér og hér um hinn sagnfræðilega bakgrunn stórmyndar Ridleys Scotts, Gladiator II. Þar var komið sögunni að bræðurnir sem sátu saman á keisarastóli Rómaveldis, Caracalla og Geta, voru komnir í hár saman og endaði með að Caracalla drap bróður sinn.

Það gerðist í raun og veru og líka í bíómyndinni þótt forsaga morðsins hafi verið allt önnur í túlkun Scotts en sagnfræðiverk greina frá.

Það var í febrúar árið 211 ET sem Geta var drepinn. Hatur Caracalla fylgdi honum út yfir gröf og dauða því hann lét nú eyðileggja allar styttur og allar myndir sem hann vissi um af Geta bróður sínum.

En í bíómynd Scotts er það svo rómverski valdamaðurinn Macrinus, sem Denzel Washington leikur afar ísmeygilega, sem síðan drepur Caracalla fljótlega eftir að Geta féll í valinn.

Í myndinni er Macrinus fyrrverandi skylmingaþræll sem náði að kaupa sér frelsi og auðgaðist svo mjög, ekki síst með því að skipa þær skemmtanir sem voru í svo miklum hávegum hafðar af Rómverjum og fólust í að skylmingaþrælar börðust til bana — almúganum til skemmtunar. Macrinus dreymir um að verða sjálfur keisari og nú þegar bæði Geta og Caracalla eru dauðir virðist leiðin greið fyrir hann.

Ég hirði ekki um að rekja hér frekar hvað gerist í bíómyndinni en í raunveruleikanum gerðist það að eftir að Caracalla hafði orðið Geta að bana sat hann einn á keisarastóli í sex ár í viðbót.

Og hann var langt frá því sá munúðarfulli héragaukur sem lýst er í kvikmyndinni.

Caracalla hafði satt að segja engan áhuga á að lifa í vellystingum í Róm. Árið 212 lagði upp með her sinn til Germaníu til að kveða þar í kútinn innrás Alemanna og hann átti aldrei eftir að snúa aftur til borgarinnar.

Móðir hans, hin rómaða Julia Domna, sem fylgdi honum jafnan á herferðum hans, mun hafa tekið að mestu yfir stjórnmálahlið keisarastarfsins og sinnt því af kostgæfni. Caracalla sjálfur sinnti hins vegar eingöngu hermennskunni og með býsna góðum árangri.

Caracallahefði hugsanlega getað orðið voldugasti keisari Rómar fyrr og síðar. En hræddur embættismaður kom í veg fyrir það.

Hann hratt árás Alemanna og 217 var Caracalla kominn til Sýrlands þar sem hann var að undirbúa árás sem átti að ganga milli bols og höfuðs á hinum fornu fjendum Rómar, Pörþum sem réðu Persíu og Mesópótamíu (Íran og Írak). Hann var ekki nema 29 ára gamall og ef hann hefði náð ríki Parþa undir sig (sem vel hefði getað gerst) þá var ekkert því til fyrirstöðu að nýtt blómaskeið hæfist í Róm — enda yrði ríkið þá voldugra en nokkru sinni fyrr.

En þegar Caracalla fór einu sinni út í vegarkant til að pissa á miðri hergöngunni gegn Pörþum, þá réðist að honum herforingi sem hafði gramist mjög að keisarinn hafði neitaði að veita honum tign hundraðshöfðingja. Óánægði herforinginn hjó keisara sinn banahöggi en var svo sjálfur drepinn af lífvörðum hans.

Seinna kom upp úr dúrnum að morðinginn hafði verið verkfæri í höndum eins helsta embættismanns Caracalla sem jafnframt var yfirmaður lífvarðasveita hans. Hann var ættaður frá Númidíu, sem nú heitir Alsír, var af ættum Berba eða Mára og hafði verið einn af tryggustu hjálparkokkum Severusar keisara, föður þeirra Caracalla og Geta.

Og hann hét Macrinus.

Þar er sem sé kominn sá illa þokkaði hundingi sem Denzel Washington leikur í bíómynd Scotts — þótt persóna hans virðist hafa verið allt önnur en leikstjórinn ímyndar sér.

Í var það óttinn sem olli því að Macrinus snerist skyndilega gegn Caracalla og gabbaði herforingjann fyrrnefnda til myrða keisara sinn.

Stjörnuspekingur einn hafði nefnilega skömmu áður lesið í stjörnukort Macrinusar og þar gaf á að líta.

Því var spáð að Macrinus yrði hvort meira né minna en næsti keisari Rómar.

Macrinus og Denzel Washington í hlutverki Macrinusar.

Slíkt hafði örugglega aldrei hvarflað að Macrinusi. Hann var ekki bara Berbi, en þeir voru litnir hornauga af yfirstéttinni í Róm, heldur var hann af tign ekvíta (riddara) en ekki hinna fínni senatora (öldungaráðsmanna). Það var einfaldlega útilokað að slíkur maður yrði einhvern tíma valinn eftirmaður Caracalla á keisarastóli með einhvers konar friðsamlegum hætti.

Ef hann ætlaði að láta sig svo mikið sem dreyma um að verða keisari (sem hann hafði áreiðanlega aldrei gert) þá yrði hann að gera uppreisn gegn Caracalla og velta honum með valdi úr sessi.

Ég ítreka — það stóð áreiðanlega aldrei til. En Macrinus vissi vel að strax og hinn tortryggni Caracalla frétti af þessum spádómi, þá myndi hann fyllast þvílíkri tortryggni í garð undirmanns síns að Macrinus myndi ekki lifa margar mínútur upp frá því.

Og Macrinus vissi líka fullvel að Caracalla myndi fljótlega frétta af spádóminum.

Þess vegna greip hann til þess ráðs að skipuleggja morð á  Caracalla keisara. Það var eingöngu af því hann óttaðist með réttu um líf sitt en ekki af því hann var sá valdagírugi metorðasjúklingur sem Ridley Scott gerir úr honum.

Núnú — Caracalla var dauður. Hann átti engan son. Hver yrði þá keisari næst? Og hvað yrði um skörunginn móður hans, Juliu Domnu?

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Ný ógn við haförninn rís á Íslandi
1
Vindorkumál

Ný ógn við haförn­inn rís á Ís­landi

Hafern­ir falla blóð­ug­ir og vængja­laus­ir til jarð­ar í vindorku­ver­um Nor­egs sem mörg hver voru reist í og við bú­svæði þeirra og helstu flug­leið­ir. Hætt­an var þekkt áð­ur en ver­in risu og nú súpa Norð­menn seyð­ið af því. Sag­an gæti end­ur­tek­ið sig á Ís­landi því mörg þeirra fjöru­tíu vindorku­vera sem áform­að er að reisa hér yrðu á slóð­um hafarna. Þess­ara stór­vöxnu rán­fugla sem ómæld vinna hef­ur far­ið í að vernda í heila öld.
Fólkið sem nær kjöri - samkvæmt þingmannaspá
2
ÚttektAlþingiskosningar 2024

Fólk­ið sem nær kjöri - sam­kvæmt þing­manna­spá

Þing­manna­spá dr. Bald­urs Héð­ins­son­ar og Heim­ild­ar­inn­ar bygg­ir á fylgi fram­boða á landsvísu í nýj­ustu kosn­inga­spá Heim­ild­ar­inn­ar, auk þess sem til­lit er tek­ið til styrks fram­boða í mis­mun­andi kjör­dæm­um. Fram­kvæmd­ar eru 100 þús­und sýnd­ar­kosn­ing­ar þar sem flökt er á fylgi og fyr­ir hverja nið­ur­stöðu er þing­sæt­um út­hlut­að, kjör­dæma- og jöfn­un­ar­þing­sæt­um.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Ný ógn við haförninn rís á Íslandi
6
Vindorkumál

Ný ógn við haförn­inn rís á Ís­landi

Hafern­ir falla blóð­ug­ir og vængja­laus­ir til jarð­ar í vindorku­ver­um Nor­egs sem mörg hver voru reist í og við bú­svæði þeirra og helstu flug­leið­ir. Hætt­an var þekkt áð­ur en ver­in risu og nú súpa Norð­menn seyð­ið af því. Sag­an gæti end­ur­tek­ið sig á Ís­landi því mörg þeirra fjöru­tíu vindorku­vera sem áform­að er að reisa hér yrðu á slóð­um hafarna. Þess­ara stór­vöxnu rán­fugla sem ómæld vinna hef­ur far­ið í að vernda í heila öld.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
2
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
3
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Myndir af neyðarmóttöku sendar áfram: „Ekki myndir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“
6
FréttirKynferðisbrot

Mynd­ir af neyð­ar­mót­töku send­ar áfram: „Ekki mynd­ir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“

Lög­reglu var heim­ilt að senda mynd­ir sem tekn­ar voru af Guðnýju S. Bjarna­dótt­ur á neyð­ar­mót­töku fyr­ir þo­lend­ur kyn­ferð­isof­beld­is á verj­anda manns sem hún kærði fyr­ir nauðg­un. Þetta er nið­ur­staða Per­sónu­vernd­ar. Guðný seg­ir ótækt að gerend­ur í kyn­ferð­isaf­brota­mál­um geti með þess­um hætti feng­ið að­gang að við­kvæm­um mynd­um af þo­lend­um. „Þetta er bara sta­f­rænt kyn­ferð­isof­beldi af hendi lög­regl­unn­ar.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu