Tæp þrjátíu prósent svarenda í Kosningaprófi Heimildarinnar áttu mesta samsvörun með frambjóðendum Samfylkingarinnar, samkvæmt niðurstöðum prófsins eins og þær litu út í gær. Í næstu sætum þar á eftir voru Píratar og Flokkur fólksins, en 18,5 og 16,5 prósent svarenda áttu mesta samsvörun við frambjóðendur þessara flokka. Enginn annar flokkur hafði mesta samsvörun við yfir tíu prósent svarenda í prófinu.
Kosningapróf Heimildarinnar er í tveimur útgáfum þetta árið, 30 spurninga léttútgáfu sem er opin öllum og svo 70 spurninga útgáfu sem er í boði fyrir áskrifendur og skilar ítarlegri niðurstöðum.
Frambjóðendur í efstu fimm sætum á öllum listum í öllum kjördæmum fengu boð um þátttöku í prófinu. Þeir sem þreyta prófið geta svo séð hvernig svör þeirra samsvara svörum frambjóðenda flokkanna, bæði meðaltals svörum flokkanna og svörum einstaka frambjóðenda.
Samfylkingin í topp þremur hjá 7 af 10 svarendum
Ljóst er að stór hluti þeirra sem tekið hafa prófið, sem finna má hér á vef Heimildarinnar, eiga samleið með flokkum sem flokkast geta vinstra megin við miðjuna á hinu pólitíska litrófi, miðað við niðurstöðurnar úr kosningaprófinu, en þeir þrír flokkar sem koma oftast upp eru hallir undir félagshyggju.
Samsvörunin við Samfylkingu var ákaflega mikil hjá svarendum, en samanlagt höfðu 69,9 prósent þeirra sem voru búin að taka prófið í gær fengið Samfylkinguna sem einn þeirra þriggja flokka sem pössuðu best við svör þeirra. Píratar voru á meðal þriggja efstu flokka hjá 45,6 prósentum svarenda og Flokkur fólksins í 41,2 prósentum tilfella.
Vinstri græn voru í topp þremur hjá 28,3 prósentum svarenda, Framsókn hjá 27,1 prósenti svarenda, Viðreisn hjá 25,6 prósentum. Þar á eftir kom Lýðræðisflokkurinn, sem kom upp sem topp þrjú flokkur hjá 17,9 prósentum svarenda og þar á eftir Sjálfstæðisflokkur hjá 13,8 prósentum svarenda, Miðflokkur hjá 12,2 prósentum og Sósíalistar hjá 12 prósentum. Ábyrg framtíð rekur svo lestina en notendur prófsins fengu topp þrjú samsvörun við framboðið, sem býður bara fram í Reykjavík norður, í 7,3 prósentum tilfella.
Hvað segir þetta okkur?
Allt er þetta nú til gamans gert og gefur okkur að sjálfsögðu litla hugmynd um annað en samsvörun skoðana þess hóps sem þreytt hefur prófið við skoðanir þeirra frambjóðenda sem þreyttu prófið fyrir hönd flokkanna.
Það er svo einnig mögulegt að svör frambjóðenda endurspegli stefnu flokkanna misvel. Heimildin bauð öllum frambjóðendum í efstu fimm sætum í öllum kjördæmum að þreyta prófið, en svörunin var æði misjöfn eftir flokkum.
Hjá flestum flokkum var hún nokkuð góð, best hjá Sósíalistum, en 25 af 30 frambjóðendum flokksins svöruðu prófinu. Það gerðu einnig 23 frambjóðendur Samfylkingar, 22 frambjóðendur Pírata og Viðreisnar, 20 frambjóðendur Vinstri grænna, 16 frambjóðendur Framsóknar og 15 frambjóðendur Lýðræðisflokksins.
Svörunin var hins vegar dræmari hjá Flokki fólksins (9 af 30), Sjálfstæðisflokki (7 af 30) og Miðflokki (4 af 30) og því síður hægt að segja að svörin í prófinu endurspegli almenna afstöðu flestra lykilframbjóðenda þessara flokka til þeirra málefna sem spurt er um.
Kosningaprófið er áfram aðgengilegt á vef Heimildarinnar, en í ítarefni prófsins, sem aðgengilegt er áskrifendum, er hægt að glöggva sig á því hvernig frambjóðendur svara spurningum prófsins og einnig hvernig svörin sem maður veitir staðsetja mann á þremur ásum, frá frjálshyggju til félagshyggju, frá breytingum til íhaldssemi og frá valddreifingu til valdsækni.
Athugasemdir