Fyrir nokkrum vikum sendu 40 virtir loftslags- og hafvísindamenn Norræna ráðherraráðinu og Norðurlandaþingi bréf þar sem lýst var verulegum áhyggjum af ástandi í hafinu við Ísland. Bréfið er stutt og efnisríkt og varar við því að tilvistargrunnur Íslendinga á þessari eyju við heimskautsbaug gæti raskast illilega. Vegna þess að loftslag og hafið hafa ofhitnað af mannavöldum gætu straumar sem færa okkur varma úr suðurhöfum horfið og landið orðið harðbýlt vegna kulda. Þetta hljómar eins og þversögn, en hefur lengi verið ljóst. Verði vendipunktur í straumakerfinu sem færir okkur varma sunnan úr heimi gæti snöggkólnað á Íslandi þótt heimsbyggðin öll þess utan stæði á öndinni af hita.
Það er ekki að heyra að þeir sem nú bjóða sig fram til að vera sómi Íslands, sverð og skildir á Alþingi, hafi minnstu áhyggjur af þessu. Fyrir þau sem ekki vita þá eru bréfritarar í Meistaradeild loftslagsvísinda í heiminum og vita manna gerst hvað nú er í gangi. Formaður Loftslagsráðs var ómyrkur í máli í útvarpsfréttum í vikunni um það sem gera þarf. Það er núna eða ekki sem við tökum okkur tak.
Hafið hitnar hratt
Þessi mynd sýnir hve mikið yfirborðshiti hefur hækkað að undanförnu miðað við fyrri áratugi:
Síðasta ár var svo heitt í hafinu að menn ætluðu ekki að trúa línuritinu. Þetta ár verður enn heitara og slær öll met. Svo í hafi sem á landi - hver mánuðurinn af öðrum slær fyrri hitamet eins og við fréttum nánast daglega. Í fyrra mældust hafstraumar við Flórída og í Miðjarðarhafinu sem voru hlýrri en vatnið í heita pottinum mínum sem Orkuveitan þjónustar. Það eru ekki bara öryggis- og efnahagshagsmunir Íslands að þjóðir heimsins nái að hemja útblástur gróðurhúsalofttegunda - heldur hreinlega tilvistarlegir. Hafið hitnar ekki bara hraðar hér á norðurslóð en að meðtaltali um plánetuna alla, heldur súrnar það af völdum útblásturs. Svona hröð og mikil súrnun ógnar líffverum og vistkerfum - hér á okkar heimaslóð einkum og sér í lagi. Fjörurnar okkar og miðin breytast líka hægt og bítandi í plasthauga. Eftir 20-30 ár verður meira plast í sjónum en fiskur. Sjófuglarnir okkar eru vitnisburður um það sem gerist um allan heim núna: Dýrum og plöntum á landi hefur fækkað um 70% á fimmtíu árum og nú fáum við aftur og aftur staðfestingu á því að lundinn okkar og hinir sjófuglarnir séu á sömu leið. Forstjóri Hafró tjáði okkur um daginn í útvarpinu að ástæðan fyrir því að flotinn okkar finnur ekki loðnu tvö ár í röð gæti vel skrifast á hlýnun sjávar. Eins og hjá sandsílastofninum sem til lengri tíma litið virðist eiga í vök að verjast.
Hvenær hvarf hafið úr þjóðarvitundinni?
Nú standa linnulausar umræður og skoðanaskipti í undanfara kosninga en enginn talar um hafið. Jú, um skiptingu auðsins, vissulega. En um vistkerfin, lífríkið, tegundirnar og varðveislu auðlindanna allra er ekkert sagt. Opinber stefna íslenskra stjórnvalda um hafið fagnar nú 20 ára afmæli og hefur ekki verið endurskoðuð síðan 2004. Síðan þá hefur ótrúlega margt gerst og ekkert af því fagnaðarefni. Miðað við það sem formaður Loftslagsráðs segir fer því fjarri að við stöndum við áform Parísarsáttmálans frá 2015 um samdrátt í losun og við erum rétt að ná áttum varðandi samkomulagið um verndarvæði á landi og í hafi sem tengist alþjóðlegu samkomulagi um líffræðilegan fjölbreytileika.
Stefnan um hafið frá 2004 var framsýn, samin af fulltrúum þriggja ráðuneyta. En eftirfylgnin takmörkuð og skrifast það á marga kjörna fulltrúa, ráðherra og ríkisstjórnir. Ekki þarf að leita lengi í heimildum til að sjá að síðan stefna Íslands um hafið var samþykkt fyrir 20 árum hefur nánast verið samfelldur niðurskurður til hafrannsókna og úthaldsdögum rannsóknarskipa stöðugt fækkað. Eigum við að ræða Gæsluna? Meðan áhyggjufullir frambjóðendur ræða ,,landamærin” við Keflavíkurflugvöll er þeim nákvæmlega sama um að allt hafsvæðið okkar er nánast eftirlitslaust frá fjöru og út í 200 mílur. Besta öryggistækið okkar, TF-SIF, fer ekki á loft nema í útleigu í framandi löndum og skipin snapa olíu í Færeyjum þá sjaldan þau sigla útaf blankheitum Gæslunnar.
Og vont versnar
Miklu meira má rekja en hér er tóm til, en tvennt þarf að telja. Í stefnunni um hafið frá 2004 var sagt að setja yrði lagaramma utan um fiskeldi sem ætti sér framtíð á Íslandi. Við vitum hvernig það fór. Nýleg herfileg útreið Ríkisendurskoðunar lýsir hvernig þessum atvinnuvegi var gefinn vaxtarhormón eftirlitslaust án þess að gæta að varúðarreglu og vöktun á vistkerfum. Stjórnvöld hreinlega pössuðu uppá að ekki væri burðugt eftirlit. Svo kom óreiðukenndur viðskilnaður Alþingis sem gafst upp á málinu í vor leið. Nú er ekkert vit í öðru en stöðva frekari útþenslu sjókvíaeldis þangað til næst utan um verkefnið með náttúruvernd að leiðarljósi og vernd vistkerfanna í fjörðum okkar. Og hvað gerist þá á meðan? Haldið þið ekki að námafyrirtæki frá Þýskaland vilji hefja fordæmalausa efnistöku á sjávarbotni þar sem eru hrygningar- og uppeldissstöðvar nytjastofna! Hafró varar eindregið við öllu slíku og Vestmannaeyingar skilja manna best hvers konar glapræði þetta er og nefna ,,ósk fyrirtækis um námugröft á einu mikilvægasta hryggningarsvæði Íslandsmiða”. Samt er haldið áfram og 2900 manna Ölfushreppur á að kjósa um málið þessa dagana. Þessi atlaga að vistkerfunum okkar sameiginlegu auðlindar kemur auðvitað engum öðrum við? Þýska fyrirtækið ætlar ekki bara að flytja út fjöll heldur líka hafsbotninn við suðurströndina. Hvers vegna er þetta ekki stoppað strax að ráðum okkar bestu vísindamanna?
Hafráð
Nú þarf að stofna Hafráð eins og Loftslagsráð sem heldur okkur við efnið. Við verðum að taka okkur tak. Ala upp nýja kynslóð stjórnmálamanna, fjölmiðlafólks, félagasamtaka og skoðanaleiðtoga sem skilja mikilvægi hafsins fyrir Ísland.
Athugasemdir