Ég hef notað þessa setningu og skilið þannig að við sem vitverur komum örstutta stund inn í langa sögu. Erum einu lífverurnar sem geta hafa gríðarleg áhrif á náttúruna, vitandi vits. Höfum gert það, einkum undanfarnar tvær til þrjár aldir, en of oft farið illa að ráði okkar. Maðurinn er barn náttúrunnar og við öll þar með hluti af láninu. Við nytjum náttúruna okkur til bjargar. Maðurinn er þar með í sérkennilegri stöðu sem neytandi og verjandi í sömu andrá. Margt getum við nytjað á sjálfbæran hátt (t.d. skóg) en annað ekki (t.d. efnisnámu til mannvirkja).
Skert náttúra og breytt er á okkar valdi. Næg dæmi eru um að ræktun matvæla eða öflun orku eru taldar heimilar náttúrunytjar frammi fyrir mikilvægum kröfum um náttúruvernd. Hugmynd um algjöra vernd villtrar náttúru víkur fyrir kröfunni um lífsviðurværi og lífsöryggi. Samtímis er löngu ljóst að ofnýting og þjösnaskapur í náttúrunni gengur ekki upp. Um það hafa t.d. sjálfbærir lífshættir hópa vitnað í tiltölulega einangruðum samfélögum víða um heim. Þeir kenna heimsbyggðinni mikilvægar lexíur en geta ekki orðið að fullkomnu viðmiði.
„Um þessa byrði mannsins mun pólitík næstu ára snúast í miklu meira mæli en ætla mætti af kosningastarfi flokkanna vegna þess að margþætt vá loftslagsbreytinga vex hratt“
Hinn tæknivæddi maður hefur nýlega fundið upp stefnu um aukna sjálfbærni kapítalísku samfélaganna til þess að réttlæta lífsmynstur milljarða manna og bæta um leið úr alvarlegum ágöllum hagkerfisins. Meðal annars boðað hringrásarhagkerfi. Virkni þess og pólitískar afleiðingar munu samt gjörbreyta ríkjandi hagkerfi og stjórnmálum, nái það að verða að veruleika. Hagkerfi stöðugs vaxtar og sem mests einkahagnaðar er á endanum ónothæft.
Þegar allt kemur til alls snýst sjálfbær tilvera um að meta og stunda afar flókið jafnvægi milli náttúrunytja og náttúruverndar. Við tökum eitt og annað að láni í náttúrunni og skilum töluverðu til hennar. Vitum engu að síður að það eyðist sem af er tekið. Ferill mannsins á jörðinni er löng orðið stórt spurningamerki í alheiminum. Núna snýst vegferðin um að snúa við loftslagsþróun af okkar völdum á skömmum tíma og með verulegum fórnum.
Hugmyndin um okkur sem vörslumenn náttúru og lántaka er um margt ágæt og umhugsunarverð. Hún fríar okkur ekki frá því að greina, vega og meta, með þekkingu að grunni, jákvæð og neikvæð (eða hlutlaus) áhrif framkvæmda og ferla sem við berum ábyrgð á. Sjálfbærni er eitt viðmiðanna, vistkerfisnálgun annað, mannúð það þriðja og pólitík fjórða viðmiðið. Ekkert þeirra er fullskilgreint eða meitlað í stein og því ávallt efni umræðna, deilna og að lokum ákvarðana, góðra, gagnslausra eða vondra.
Nú reynir á að ná fram víðtækum skilningi og sem mestri samstöðu um aðgerðir í loftslagsmálum og orkuskiptum því helsti vandi veraldar er orkuframleiðsla sem veldur enn um 70% losunar gróðurhúsalofttegunda. Hér á landi bíður okkar að skipta út yfir einni milljón tonna of olíuættuðum vörum á ári fyrir endurnýjanlega orkugjafa. Til þess þarf flókin, vandasöm og oft umdeilanleg vinnubrögð og stefnumið. Um þessa byrði mannsins mun pólitík næstu ára snúast í miklu meira mæli en ætla mætti af kosningastarfi flokkanna vegna þess að margþætt vá loftslagsbreytinga vex hratt.
Athugasemdir