„Myndir sem birtust nýlega af afleiðingum flóða í Valencia á Spáni sýndu hundruð bíla veltandi um eins og leikföng, vegi sem skolast höfðu burtu, járnbrautarteina er gengið höfðu úr lagi og eyðilögð hús. Allt var þetta umlukið gífurlegu magni af brúnni leðju. Rafmagnið var farið, vatnsveitan óstarfhæf og símalínurnar dauðar. Á götum úti stóð örvæntingarfullt fólk sem hafði misst allt sitt. Sumir, eins og í æðruleysi, önnum kafnir við að ýta leðjunni með kústum og skóflum, aðrir við að tæma matvöruverslanir.“
Þannig lýsir danska blaðið Information (12.11.2024) því sem blasti við fréttmönnum eftir að heils árs rigning hafði fallið á hluta Valencia-héraðs á aðeins átta klukkustundum 29. október sl.. Þegar vatnið flæddi niður af fjöllunum líktist það þriggja metra hárri flóðbylgju og tók allt á vegi sínum með sér, þar á meðal 220 mannslíf samkvæmt nýjustu tölum frá spænskum yfirvöldum. Að sögn voru þetta verstu náttúruhamfarir í sögu Spánar á síðari tímum. Loftslagsbreytingum af mannavöldum er kennt um.
Í nýlegum fréttum hefur komið fram að helmingslíkur séu á því að farið verði yfir vendipunkt í veltihringrás Atlantshafsins á þessari öld. Í barnaskóla lærði ég að Íslendingar eigi lífsviðurværi sitt undir Golfstraumnum komið. Ef hann hverfur er reiknað með að meðalhiti á Íslandi geti fallið um 5 til 7 gráður. Lífsskilyrði í landinu yrðu afar erfið. Loftslagsbreytingum af mannavöldum er kennt um.
Ein af mörgum slæmu fréttum að sem rekja má til loftslagsbreytinga af mannavöldum. Í minni eru myndir sem sýna afleiðingar af fellibyljunum tveimur Helene og Milton, sem fyrir rúmum mánuði síðan herjaðu á Flórída, og ollu dauða hundraða og miklum skaða á mannvirkjum. Varla er nokkur búin að gleyma gríðarmiklum flóðum eftir storminn Boris í september sl. sem olli mannlegum hörmungum og miklu tjóni í Austurríki, Pólland, Slóvakíu, Tékkland og Rúmeníu. Fjær í minni eru hitabylgjurnar sem gengu yfir Evrópu árin 2022 og 2023 sem eru taldar hafa valdið dauða upp undir 100.000 Evrópubúa. Þeir sem best til þekkja segja að þessi atburðir tengist breytingum á loftslagi af mannavöldum.
Ýmsar aðrar fjarlægari loftslagstengdar hamfarir hafa lítið borist á síður fjölmiðla á Íslandi. Má nefna mikla úrkomu sem skall á Nepal í september sl. og flæddi yfir stór svæði og olli dauða og tjóni, flóð í Súdan í ágúst og í Nígeríu, Níger, Tsjad og Kamerún í september. Þessar hamfarir vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum kostuðu meira en 2.000 mannslíf og ráku milljónir frá heimilum sínum.
Alþjóðaveðurfræðistofnunin tilkynnt nýlega að styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hafi sett nýtt met árið 2023. Loftslagsþjónusta ESB (Kóperníkus) greinir frá því að árið 2024 muni enda sem hlýjasta ár í sögu mælinga, og hafi farið yfir 1,5 gráðu hitastigshækkun sem er markmið Parísarsamkomulagsins frá 2015. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna segir í skýrslu um þróun aðgerða til að draga úr losun loftslagsaðgerða, að óbreyttu stefni í að hitastig jarðar hækki um allt að 3,1 gráður á þessari öld.
Tíðindi um hættulegar breytingar á loftslagi af mannavöldum höfum við heyrt mörg undanfarin ár, en aldrei eins alvarleg og í ár. Tilvist mannlegs samfélags á jörðinni er í húfi verði blaðinu ekki snúið við.
Á Íslandi er gengið til kosninga 30 nóvember. Náttúruvernd og loftslagsmál eru olnbogabörn kosningabaráttunnar. Þá hafa fjögur framboð skilað algjörlega auðu blaði hvað varðar aðgerðum gegn loftslagbreytingum og hunsa mikilvægasta viðfangsefni samtímans. Eiga slíkir flokkar skilið að fá atkvæði Íslendinga sem þykir vænt um börn og barnabörn?
Loftslagskrísa af mannavöldum er rétt að byrja. Hana verður að stöðva áður en hún verður óviðráðanleg. Spyrjum þá sem eru í framboði hvernig þeir telja að Ísland eigi að bregðast við þessum tilvistarvanda.
Athugasemdir