„Ef þið skoðið hvað það er sem Alþingi afgreiðir þá er það meira og minna frumvörp sem oft eru samin af samtökum fyrirtækjaeigenda sem renna þar í gegn. Það er sáralítið sem hefur runnið í gegnum Alþingi á undanförnum árum og áratugum sem eru raunverulegar réttarbætur fyrir almenning. Ekkert í líkingu við það sem gerðist á síðustu öld.“
Þetta sagði Gunnar Smári Egilsson, oddviti Sósíalista í Reykjavík norður, í nýjasta þætti Pressu. Hann var þar viðmælandi Aðalsteins Kjartanssonar ásamt Rósu Björk Brynjólfsdóttur, sem skipar 2. sætið á lista Vinstri grænna í sama kjördæmi og hann.
Gunnar Smári vill meina að inn á Alþingi vanti raunverulega rödd almennings og almannasamtaka. En Sósíalistar myndu ekki stjórna Íslandi í samræmi við kröfur svokallaðra hagaðila, svo sem stórútgerðarinnar.
Þetta virtist ekki leggjast vel í Rósu Björk sem sagði málflutning Gunnars Smára einkennast af fortíðarþrá, lýðskrumi og vanþekkingu á störfum þingsins.
Popúlismi á hægri og vinstri jöðrunum
„Það er ekki svo að þingið sem er löggjafarvaldið með kjörna fulltrúa sé bara undirlagt af fyrirtækjum sem semja frumvörp inn í þingið – og að Alþingi hafi ekki afgreitt nein frumvörp í þágu almennings núna síðustu árin. Ég held að þetta sé varasamur málflutningur þegar svona er talað. Það er verið að tala niður löggjafarvaldið.“
Rósa Björk segir það ábyrgðarlaust að tala sífellt um fortíðina. „Og vera alltaf að hjakka í einhverju Alþýðubandalagi og sovíeskri hugmyndafræði, heldur verðum við aðeins að fara fram á við og átta okkur á þeim áskorunum sem blasa við bæði í nútíð og framtíð.“
Hún segir að bæði á hægri og vinstri jöðrunum megi sjá popúlíska orðræðu sem sýni vanþekkingu á málefnunum. Sporna þurfi gegn þessu og draga úr skautun.
Aðalsteinn spurði hana þá hvort að hún beindi þar orðum sínum að Gunnari Smára þegar hún talaði um popúlíska orðræðu á jöðrunum.
„Já, ég er að tala bæði vinstra og hægra megin. Það er popúlísk orðræða þegar farið er hér fram með málflutning um það að öll lagafrumvörp á Íslandi séu samin af fyrirtækjum.“
Horfa má á nýjasta þátt Pressu í heild sinni hér að neðan:
Tvö dæmi sem hún hefði líklegast tekið ef VG væri núna í minnihluta hefðu verið hvernig umsagnir félagasamtaka og opinberra stofnana voru hunsaðar, í tilvikum nýju útlendingalaganna og leyfisveitinga sjókvíaeldis.
Svo hefði hún kannski nefnt hvernig hagsmunaðilar geta/hafa komið í veg fyrir lagaumbætur, eða hvernig hagsmunaaðilar geta haft ráðandi áhrif á stjórnvaldsákvarðanir, t.d. leyfisveitingu hvalveiða.
Ætli maður sé ekki spenntur að sjá þau bæði í minnihluta og sjá hvernig hljómurinn þróast.