Nýr þjóðarpúls Gallup sýnir töluvert aðra mynd en aðrar kannanir sem birst hafa í vikunni, en þar mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 16,4 prósenta fylgi, sem þó er samdráttur frá síðasta þjóðarpúlsi.
Einungis Samfylkingin mælist með meira fylgi í þessari Gallup, sem framkvæmd var dagana 1.-14. nóvember, en fylgi flokks Kristrúnar Frostadóttur mælist nú 20,4 prósent og dalar frá fyrri könnun.
Á hæla Sjálfstæðisflokks koma Viðreisn og Miðflokkur, sem mælast með 15,5 og 14,3 prósenta fylgi. Þar á eftir kemur Flokkur fólksins, en 10,2 prósent segja að þau myndu kjósa flokkinn.
Sósíalistaflokkurinn mælist með 6,2 prósent fylgi í könnun Gallup, Framsókn 6 prósent og Píratar 5,5 prósent. Aðrir flokkar ná ekki fimm prósentum á landsvísu, en Vinstri græn mælast með 4,1 prósenta fylgi.
Könnun Gallup var framkvæmd dagana 1.–14. nóvember. Heildarúrtak var 4.802 og þátttökuhlutfall 48,0 prósent.
Athugasemdir