Sem kennari aðhyllist ég fjölbreyttar kennsluaðferðir og þannig hef ég lært mínar lífsins lexíur. Sumar upplýsingar límast strax við heilabörkinn og ég get sótt þær áreynslulaust (það má stundum deila um notagildið), annað fer inn með vöðvaminninu og situr þar enn eftir þrjátíu ára notkunarleysi (spyrjið bara börnin mín um fyrstu skautaferðina okkar), enn annað hef ég þurft að læra af reynslunni, jafnvel biturri (já … ég er barnið sem sleikti ljósastaur í frosti … tvisvar).
Ég lærði að lesa sjálf fjögurra ára gömul, með því að fylgjast með eldri systkinum við eldhúsborðið. Þetta uppgötvaðist þegar ég las fyrir mömmu upp úr Þjóðviljanum einn daginn þegar mér leiddist. Reyndar með blaðið á hvolfi því ég sat gegnt þeim við heimanámið. Ég er enn jafnvíg á lesturinn sama hvernig bókin snýr og las stundum með bókina á hvolfi fyrir nemendur í nestistímum bara til að sýna mig. En þegar ég átti að læra stærðfræði var eins og yfir mig helltist heilaþoka og óminnishula. Þarna lá áhugahvöt að baki. Ég er fljót að læra það sem mig langar, annað tekur lengri tíma og sumt lærist bara ekki, eins og hvar ég setti lyklana, gleraugun, bílinn minn …
Lengstan tíma hefur tekið að læra á sjálfa mig. Persónulega hef ég verið frekar seinþroska, af ýmsum ástæðum. Þegar hér er komið sögu hef ég lært að eftirfarandi er mikilvægt fyrir mig til þess að þrífast:
Það verður að vera gaman! Ég hef þrautþjálfað þann eiginleika að geta séð eitthvað spaugilegt í flestum aðstæðum. Hlátur losar endorfín sem er besta meðalið við áhyggjum og ergelsi. Auðvitað hef ég upplifað áföll og sorgir, ég er alveg mannleg, en þar hef ég tileinkað mér smáskammtafræðina. Ég reyni að taka alla erfiðleika inn í eins smáum skömmtum og mögulegt er að komast af með. Þannig má bogna án þess að brotna. Ég raða góðu og skemmtilegu fólki í kringum mig og er svo ljónheppin að börnin mín þrjú eru öll húmoristar með hjartað á réttum stað þannig að ég hef ekki þurft að gefa neitt af þeim til ættleiðingar. Mínir helstu lífsförunautar hafa verið Tobba og Líney, við höfum fylgst að gegnum súrsætt frá unglingsaldri. Tríóið kallast Trúðalestin og þegar við hittumst er fyllt vel á endorfínbirgðirnar.
Í æsku fengum við systkinin að velja hvað væri í matinn á afmælisdeginum. Ég valdi alltaf brauðsúpu og fékk ónot fyrir valið. Þeim fannst galið að velja graut þegar hægt var að biðja um pulsur eða kjúkling, sem var ekki í matinn nema kannski á afmælisdögum þeirra. En maður á að segja það sem manni finnst! Ekki síst þegar maður á afmæli.
Þegar ég hélt upp á fimmtugsafmælið mitt bauð ég í hefðbundið barnaafmæli á æskuheimili mínu. Í boðskortinu stóð: „Boðið verður upp á veitingar sem afmælisbarninu þykja góðar eins og brauðsúpu, hjónabandssælu og mæjónesbrauðtertur. Farið verður í íþróttir sem hún er góð í eins og Fram, fram fylking, rólustökk og sápukúlublástur.“ Já! Ég ræð hvað kallast íþróttir í mínu afmæli! Ég hringi líka í fólk á afmælisdaginn minn og syng „Ég á afmæli í dag“ – bæði erindin. Ég er svolítið góð í því að fagna afmælisbarninu í sjálfri mér.
Ekki taka sjálfa þig of hátíðlega, Anna Lára! Ef ég tæki inn á mig öll atvikin sem hafa gert mig að vandræðalegri manneskju þá færi ég aldrei út úr húsi. Vinir og vandamenn hafa oft líkt mér Bridget blessunina Jones sem er kannski lýsandi fyrir ástandið. Ég kom til dæmis sem ráðgjafi inn í skóla, þóttist ægilegur sérfræðingur að sunnan, en sneri svo bakinu í alla á kaffistofunni með kjólinn vandlega gyrtan ofan í sokkabuxurnar að aftan. Ég starfaði sem réttargæslumaður um tíma og tókst að svívirða alla skjólstæðinga mína á einu bretti í gegnum talstöð. Óvart! – ekki láta þér detta annað í hug. Ég hef staðið nakin á sundlaugarbakka almenningssundlaugar þar sem ég taldi að dyrnar sem ég notaði væru inn á salerni en ekki út til laugar. Ég bauð í áttræðisafmæli mömmu en gestirnir rúntuðu um iðnaðarsvæðið á Hellu því ég setti vitlaust heimilisfang inn í viðburðinn. Ég hef boðið börnunum mínum upp á alls konar óvissuferðir. Til dæmis saltfisk í raspi, jólabakstur með matarsóda í stað vanillusykurs í kreminu, tjaldútilegu í hálfreistu tjaldi þar sem eitthvað af súlunum gleymdist heima, viðburði þar sem við mætum of seint, of snemma, daginn áður eða bara alls ekki. Ég virðist ófær um að lesa smáatriði eins og stað- eða tímasetningar mér til gagns. Listinn er langur og sumt vil ég ekki muna. Sumu vilja börnin mín helst gleyma. Ég vil þó meina að uppeldið hafi byggt upp í þeim seiglu. Þau eru töffarar sem kippa sér ekki upp við smáatriðin.
Æðiberið er blessun. Móðurskipið hefur oft skammast yfir flumbruganginum í mér og flökkueðlinu. Hún segir iðulega að ég sé með æðiber í rassinum og geti aldrei verið kyrr. Ég hef ákveðið að hreyfiþörfin sé kostur frekar en galli. Heilarannsóknir sýna að það lengir lífið að ögra sjálfum sér reglulega, takast á við nýja hluti og stíga út fyrir þægindarammann. Maður gerir það ekki í einhverri kyrrsetu!
Mest um vert er að ég hef lært að sýna sjálfri mér mildi og að leyfa mér að vera sú sem ég er án þess að dæma. Þannig vil ég einnig leggja mig fram um að mæta öðrum sem á vegi mínum verða.
Athugasemdir