Þegar gengið var að kjörborðinu árið 2016 féll Samfylkingin næstum því út af þingi. Hún rétt skreið yfir þröskuldin og var þrefalt minni en flokkurinn til vinstri, VG. Nú einungis átta árum síðar hefur þessi staða snúist við. VG mælast utan þings og Samfylkingin gæti orðið stærsta stjórnmálaafl landsins.
Fylgjendur Samfylkingarinnar hafa útskýrt þessa sveiflur á þann hátt að undir forystu Kristrúnar Frostadóttur hafi flokkurinn leitað aftur í kjarnann. Snúið hafi verið í átt að klassískri jafnaðarstefnu. Minna fer þó fyrir umræðu um inntak þeirrar stefnu. Vísað er til velferðar og inn á milli til jöfnuðar. En megináhersla er lögð á frasakennd hugtök á borð við „ábyrga hagstjórn“ á grundvelli „fjármálareglna“ og Samfylkingin auglýst sem flokkur „verðmætasköpunar“. Hugmyndin er sú að hér sé ekki tjaldað til einnar nætur enda séu klassískir jafnaðarmenn hófsamir umbótasinnar sem hreyfi sig hægt.
Það má vera að þetta sé skynsamlega nálgun í kosningabaráttu en það er ekki með öllu ljóst hvort hér sé á ferðinni afturhvarf til klassískrar jafnaðarstefnu. Líklega hefur aldrei verið til ein heildstæð stefna sem allir sem kenna sig við jafnaðarmennsku geta fellt sig við. Bæði á vettvangi hugmyndafræði og stefnumörkunar deildu sósíaldemókratar á Norðurlöndum og í Evrópu um inntak velferðarríkisins. Tekist var á um ólíkar leiðir í efnahagsmálum, allt frá efnahagslegu lýðræði verkamanna á vinnustöðum til þjóðnýtingar. Jafnaðarmenn aðhylltust ýmist heildstæða áætlunargerð eða hófstillari hugmyndir um fjármálastefnu sem var þó framsækin. Á síðustu þremur áratugum hafa sósíaldemókratar hins vegar bundið trúss sitt við íhaldssama peninga- og fjármálastefnu í anda niðurskurðarhyggju og nýfrjálshyggju. Það sama má segja um útfærslu velferðarríkisins, hversu rausnarlegt kerfið eigi að vera, hverjir eiga að njóta þess og hvort reka eigi þjónustu samfélagslega eða með gróða útvaldra að marki. Að lokum hafa jafnaðarmenn haft afar ólíka sýn á alþjóðamálin og því hvort fylgja eigi við Bandaríkjunum að máli í einu og öllu eða sporna gegn heimsvaldastefnu og styðja málstað undirokaðra þjóða, allt frá Víetnam til Palestínu.
Gerum eins og Olof Palme
Sósíaldemókratar vísa stundum til Svíþjóðar sem fyrirheitna landsins og það er – eða var öllu heldur – ekki að ástæðulausu. Klassísk jafnaðarstefna náði hápunkti í Svíþjóð á áttunda áratug síðustu aldar og lágu rætur hennar í stúdentauppreisnum, kvenfrelsishreyfingunni og verkalýðshreyfingunni. Fram undir lok sjöunda áratugsins flokkaðist Svíþjóð vissulega sem norrænt velferðarríki en skar sig ekki endilega úr. Raunar var Svíþjóð á eftir helstu ríkjum í að innleiða ýmsar almannatryggingar. En í fyrri stjórnartíð Olofs Palme frá 1969 til 1976 umbreyttist Svíþjóð á afar skömmum tíma og varð eitt jafnasta og framsæknasta samfélag jarðar.
Á innan við áratug jókst hlutdeild hins opinbera í þjóðarbúskapnum um helming. Næstum því allir skólar, háskólar, sjúkrahús, heilsugæsla, hjúkrunarheimili og leikskólar voru færð í ríkiseigu, sem og helstu innviðir. Aðgengi að opinberri þjónustu, þ.á m. heilbrigðisþjónustu, var gert ókeypis eða gott sem. Til að ná niður lyfjaverði voru apótek þjóðnýtt ásamt lyfjafyrirtækjum að hluta til. Fimm vikna sumarfrí var lögleitt, sjö mánaða foreldraorlof innleitt og öllum börnum tryggt leikskólapláss. Vinnuvikan var stytt og eftirlaunaaldur var lækkaður. Börnum á skólaaldri var séð fyrir öllum námsgögnum og hádegismat að kostnaðarlausu og atvinnurekendur urðu að veita starfsfólki launað námsleyfi. Sveitarfélög sáu bæði um að byggja og leigja út öruggt húsnæði á ásættanlegum kjörum. Leiga húsnæðis á vegum einkaaðila var tengd við leigu hins opinbera og ákveðin í samningarviðræðum heildarsamtaka leigjenda og leigusala. Vissulegt var byggt á öflugum grunni eftirstríðsáranna, en frelsi einstaklinga frá ágangi markaðsaflanna – sem er besta mælistikan á frelsið – tók stakkaskiptum á einungis nokkrum árum.
Þá er ótalin stuðningur sænskra jafnaðarmanna við frelsishreyfingar í hinum svokallaða þriðja heimi þvert á kröfur Bandaríkjanna, t.d. í málefnum Víetnam, Palestínu, Kúbu og Sjíle. Ólíkt flestum ráðamönnum á Vesturlöndum tók Palme, sem og sænska þjóðin, skýra afstöðu gegn aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku og studdi Afríska þjóðarráðið með fjárframlögum. Bandaríkin settu samskipti við Svíþjóð á ís eftir að Palme líkti óhugnanlegri spengjuherferð þeirra í Hanoi um jólin 1972 við útrýmingabúðir nasista í Treblinka. Á vettvangi Öryggisráðs Sþ, þar sem Svíar áttu sæti 1975-1976, rauf ríkisstjórn Palme samstöðu með Vesturlöndum og tók afstöðu með óháðum ríkjum þriðja heimsins, m.a. með því að fordæma hernám Ísraela á Vesturbakkanum.
Pólitík Palme spratt ekki upp í úr tómarúmi heldur voru skoðanir hans mótaðar af sterkri verkalýðshreyfingu, róttæku vinstra fólki og framsýnni kvenfrelsishreyfingu. Þar á móti vóg íhaldsöm flokksforysta og eldri kynslóðir verkalýðsforkólfa. Forveri Palme í embætti, Tage Erlander, sem var forsætisráðherra um langt árabil, var því ekki einu sinni sá róttækasti þegar hann sá fyrir að velferðarríkið væri áningarstaður á vegferð frá kapítalisma yfir til lýðræðislegs sósíalisma. Eins og sagnfræðingurinn Kjell Östberg bendir á í nýútkominni bók (The Rise and Fall of Swedish Social Democracy), ætluðu Palme og félagar að koma á lýðræðislegri umsjón með atvinnulífinu. Horfið var frá þreyttu vinnumarkaðsmódeli eftirstríðsáranna og áhrif verkalýðshreyfingarinnar stóraukin á kostnað kapítalsins. Sett voru lög sem takmörkuðu rétt atvinnurekenda til að reka fólk. Starfsfólk fékk aukna hlutdeild í stýringu fyrirtækja og fulltrúar þeirra sæti í stjórnum. Árið 1975 lagði verkalýðshreyfingin ásamt sósíaldemókrötum til að hagnaður fyrirtækja í meðalstórum og stórum fyrirtækjum yrði afhentur starfsfólkinu í formi hlutabréfa. Hlutabréfin myndu renna í sjóði sem væri stýrt af samtökum launafólks. Innan fárra áratuga myndi meirihlutaeign í flestum fyrirtækjum því vera í höndum starfsfólksins. Þó að ýmsir meðal sósíaldemókrata væru ekki tilbúnir að ganga svo langt voru það jafnaðarmenn sem lögðu grunn að því að efnahagslegt lýðræði almennings myndi taka við af séreignarétti kapítalista.
Sænska jafnaðarmannastefnan eins og hún tók á sig mynd í stjórnartíð Palme náði ekki bólfestu til lengri tíma. Olíukrísur og upplausn í alþjóðakerfinu um 1980 gerðu útflutningsatvinnuvegum Svía erfitt fyrir auk þess sem atvinnurekendur pökkuðu í vörn gegn öllum hugmyndum um lýðræðisvæðingu efnahagslífsins. Þess í stað var stuðst við kenningarramma um niðurskurð á ríkisútgjöldum, uppbyggingu fjármálageira og fjármálavæðingu á flestum sviðum. Sósíaldemókratar tóku upp breytta stefnu og á næstu áratugum voru stefnuviðmið nýfrjálshyggjunnar tekin upp í auknum mæli ásamt tilheyrandi niðurskurði, einkavæðingu og einkarekstri. Síðustu ár hafa einkennst af auknum ójöfnuði, stéttskiptingu og útlendingaandúð og svo er komið að dreifing auðs í Svíþjóð er einhver sú ójafnasta í heiminum og jafnvel enn verri en í Bandaríkjunum.
Velferð á tímum fjármálareglna
Óháð því hvaða útgáfu jafnaðarstefnunnar Samfylkingin ætlar nú að sækja innblástur til er ljóst að klassíska jafnaðarstefnu verður seint hægt að nota sem réttlætingu fyrir því að takmarka hinn pólitíska sjóndeildarhring við „ábyrga hagstjórn“. Enn síður er hægt að reisa jafnaðarstefnu á grundvelli íhaldsamra fjármálareglna í anda ESB sem hefur verið beitt til að réttlæta niðurskurðastefnu undanfarinna áratuga með hræðilegum afleiðingum fyrir mörg ríki Evrópu – jafnvel þó að áhersla sé lögð á tekjuhliðina umfram útgjöldin. Á síðustu dögum er jafnvel farið að grípa til þrástefa úr sarpi niðurskurðarhyggju eins og að líkja ríkissjóði við heimilisbókhald og að hann sé rekinn með „yfirdrætti“. Raunar hafa endurskoðaðar fjármálareglur ESB verið gagnrýndar fyrir að sníða aðildaríkjum of þröngan stakk til að gera það sem Samfylkingin lofar nú í „framkvæmdaplani“ sínu: uppbyggingu innviða, umskiptum í atvinnugreinar sem byggja á hárri framleiðni, græn orkuskipti, og sveiflujafnandi hagstjórn.
Samfylkingin stendur því frammi fyrir sömu vandamálum og aðrir jafnaðarmannaflokkar í dag: er hægt að samþætta hagstjórn í anda hugmyndafræði nýfrjálshyggju og velferðaráherslur og víðtæk fjárfestingarloforð? Hvernig ætlar Samfylkingin að eyða uppsöfnuðum halla á ríkissjóði annars vegar og auka útgjöld til heilbrigðismála og velferðar ásamt fjárfestingaátaki í framleiðni og innviðum hins vegar? Ljóst er að fórna verður einhverjum þessara markmiða – nema að það eigi að ráðast í mun stórfelldari skattahækkanir en gefið hefur verið til kynna – og hættan er sú að það sama verði ofan á og víðast hvar annars staðar: fjárfestingarloforð eru efnd að hluta til og þá á kostnað velferðarinnar.
Pólitískt ímyndunarafl jafnaðarmanna verður því að geta náð lengra en svo að hagræða aðeins betur og skattleggja örlítið meira en hægri flokkarnir. Áhersla á „efnahagslegan stöðugleika“, meintan skuldavanda ríkissjóðs og fjármálareglur gefur ekki til kynna að Samfylkingin hafi meiri áhuga á að slíta sig frá úrsérgengnum hagstjórnarhugmyndum en t.d. Keir Starmer eða Mette Frederiksen. Klassísk jafnaðarstefna er tæplega aðeins skraut til að hengja á metnaðarlítil stjórnmál þar sem ekki er í grunninn vikið af leið nýfrjálshyggjunnar og þjónkun við utanríkisstefnu Bandaríkjanna, þar á meðal þögn gagnvart útrýmingarherferð Ísraels í Palestínu. Þá væri í alla staði æskilegra að horfa til jafnaðarstefnu Olofs Palme.
Athugasemdir