Þeir komu víst askvaðandi að Laugarvatni og kölluðu fjölmiðla til. Í stærsta steinsteypta húsinu í burstastíl, versölum Jónasar frá Hriflu, mekka framsóknarmanna, skrifuðu þeir undir ríkisstjórnarsáttmálann. Töluðu um að með myndun nýrrar ríkisstjórnar myndi hefjast ný sókn í þágu lands og þjóðar. Tilvísanir í þjóðernishyggju voru alltumlykjandi.
Á eftir var boðið upp á myndatökur fyrir utan.
Í bakgrunni blakti íslenski fáninn.
Þetta var í maí 2013.
Verndari þjóðarinnar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varð til sem stjórnmálamaður þegar Bretar settu hryðjuverkalög á Íslendinga til að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi. Þá var hann einn af upphafsmönnum Indefence og birtist á ljósmynd þar sem hann stóð með mótmælaspjald við hlið konu klæddri í íslenskan þjóðbúning.
Mættur til að verja þjóð sína.
Verndari Íslands gagnvart erlendri ógn.
Ári síðar var Framsókn í leit að nýjum formanni. Hér var kynntur til leiks „ungur vel menntaður maður sem hlyti að vera nokkuð módern“. Maður sem sagður var menntaður í Kaupmannahafnarháskóla og Oxford-skóla, þótt síðar kæmi í ljós að hann hefði hvoruga gráðuna klárað og ósamræmis gætti í frásögn hans af námsferlinum. En hann varð formaður. Var reyndar sakaður um fjandsamlega yfirtöku á Framsóknarflokknum í leiðinni, með því að smala inn nýjum framsóknarmönnum, þeirra á meðal erlendum verkamönnum sem mættu beint úr byggingarvinnu til að greiða atkvæði með honum. Og faðir hans var sagður hafa greitt landsfundargjöld fyrir stuðningsmenn hans.
Áður hafði Framsóknarflokkurinn lagt áherslu á nýja stjórnarskrá, þjóðaratkvæðagreiðslur og aðildarviðræður við Evrópusambandið. Á fundinum samþykktu hátt í 90 prósent fundarmanna ályktun um aðildarviðræður í Evrópusambandið. Síðan mætti Sigmundur Davíð til leiks. Og næsta dag mætti hann í viðtal og lýsti því yfir að Evrópumál væru ekkert forgangsmál.
Hann var með aðrar hugmyndir. Gamlir framsóknarmenn sögðu þær einkennast af einangrunarhyggju, íhaldssemi og þjóðernispopúlisma.
„Það átti að búa til einhverja íslenska leið,“ lýsti einn sem sagði sig úr flokknum.
Með tilkomu Sigmundar hóf flokkurinn málþóf um stjórnlagaráð, setti sig upp á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna um Evrópusambandið, lagðist alfarið gegn inngöngu og lýsti því yfir að Schengen-samstarfið væri „komið á fremsta hlunn með að vera ónýtt“.
Tveimur árum síðar var íslensk glíma og fánahylling á flokksþingi Framsóknarflokksins. Fólk stóð með hönd á brjósti á meðan fáninn var dreginn að húni og söng texta sem búið var að dreifa í öll sæti: Ísland er land þitt. Sigmundur Davíð flutti svo ræðu um þjóð „sem hefur í meira en þúsund ár mætt þrautum sínum djörf og sterk býr nú við stjórnvöld sem draga úr henni þrótt og kjark“. Á flokksþing væri mætt fólk sem ætlaði að snúa vörn í sókn. „Þið hafið trú á framtíð Íslands,“ sagði hann og bætti því við að þetta fólk ætti skilið laun fyrir fórnfýsina.
Sigmundur Davíð lauk ræðunni með orðunum: „Betra Ísland.“
Í Bandaríkjunum birtist Donald Trump seinna með frasann: „Make America Great Again.“
Tilvísanir í fasískt minni
Fundargestur sem sagði sig úr flokknum í kjölfarið lýsti tilfinningunni svona: „Maður bara hélt að maður væri kominn á fund hjá einhverri fasistahreyfingu.“ Fræðimenn bentu á að ný útgáfa af merki Framsóknar með yfirskriftinni: „Ísland í vonanna birtu“, sem kynnt var á fundinum vísaði í fasískt minni.
Á svipuðum tíma sendi fulltrúaráð framsóknarmanna í Kópavogi yfirlýsingu þar sem málflutningi formannsins um málefni útlendinga var afdráttarlaust hafnað. Yfirlýsingin var birt eftir að Sigmundur Davíð hafði spurst fyrir á Alþingi um hlut fólks af erlendum uppruna í afbrotum og skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi.
„Orðræða sem tengir saman glæpi og útlendinga og sjúkdóma og útlendinga eru til þess fallnar að auka á fordóma í samfélaginu,“ sagði meðal annars í yfirlýsingunni. Þar var varað við því að alið væri „á umræðu á þjóðernislegum nótum og úlfúð í garð þeirra samborgara okkar sem eru af erlendu bergi brotnir“.
En Sigmundur Davíð var rétt að byrja. Í útvarpinu fullyrti hann að fjárfestingar innlendra fjármagnseigenda væru æskilegri en útlendra því útlendingar væru fyrst og fremst að sækjast eftir gróða sem flytja mætti úr landi. Þetta var áður en afhjúpað var að faðir hans ætti minnst 270 milljóna eignir í skattaskjóli. Fyrir utan það sem hann átti þar sjálfur: Wintris.
Maðurinn sem virtist í fyrstu vera svo módern hafði leitt stjórnmálin á gamlar slóðir. Eins og maður sem hafði starfað fyrir flokkinn í áratugi sagði: „Framsóknarflokkurinn hefur aldrei verið svona afturhaldssamur.“
En þjóðernishyggjan hefur verið meginstefið í pólitík Sigmundar Davíðs frá upphafi.
Áróðursmeistarinn
Sigmundur Davíð var sigurvegari alþingiskosninganna árið 2013. „Hann stal kosningabaráttunni eins og fyrirbærið stal jólunum hérna einu sinni,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, „með því að keyra inn í kosningabaráttuna svo yfirgengileg loforð en gera út á svo viðkvæman málaflokk að andstæðingum hans var erfitt um vik. Hver vill setja sig í þá stöðu að vera stimplaður á móti heimilum og skuldugu fólki í erfiðleikum?“
Leiðrétting húsnæðislána var loforð Framsóknarflokksins. Fjármagna átti niðurfellinguna með því að beita kylfum og haglabyssum á hrægamma ef á þyrfti að halda – en erlendir kröfuhafar voru hér skilgreindir sem hrægammar.
Svo sterkur.
Hinn sterki leiðtogi.
Verndari þjóðarinnar.
Orðræða Sigmundar Davíðs var farin að vekja athygli. Vísað var til þess að aðstoðarmaður hans hefði ekki komið að pólitík áður, en hann þætti snjall þjálfari ræðumanna í Morfís. Áhugi aðstoðarmannsins á áróðursbrögðum nasista var þekktur og sagður svo mikill að á meðan hann starfaði sem grunnskólakennari hefði hann geymt Mein Kampf í lokaðri hirslu í skólastofunni.
Áróðurstæknin sem hann hafði masterað fólst í því að einfalda og margfalda, sem var útskýrt í söngtexta: „Einfalda og margfalda. Alveg eins og nasistar. Útlenskir blórabögglar. Hið illa er þeim að kenna.“ Af því að „fólk hefur takmarkaða athyglisgáfu og þess vegna þarf að einfalda hlutina og segja þá nógu oft.“
Önnur aðferð var kölluð trektin: Að skilgreina umræðuefnið þröngt sér í hag, setja andmælendum ströng skilyrði og hamra harkalega á því, í mikilli árás. „Aðalatriðið var að reyna að leiða umræðuna þangað sem hún hentaði þeim.“
Kosningabaráttan snerist um skuldamálin og aðrir flokkar áttu erfitt með að koma sínum málum að. Þannig komst Sigmundur Davíð til valda.
„Fólk hefur takmarkaða athyglisgáfu og þess vegna þarf að einfalda hlutina og segja þá nógu oft“
Stjórnarmyndunarviðræður fóru fram á Þingvöllum. Þaðan kölluðu þeir eftir óskalagi: Wild boys með Duran Duran: „The wild boys are calling. On their way back from the fire.“
Á Laugarvatni var stjórnarsamstarfið innsiglað. Og þeir brostu.
Daginn eftir tók Sigmundur Davíð við forsætisráðuneytinu og Bjarni við fjármálaráðuneytinu. Síðan hefur sá síðarnefndi setið óslitið í ríkisstjórn, þótt það hafi reyndar aðeins einu sinni á þessu tímabili tekist að klára kjörtímabilið fyrir fall ríkisstjórnar. Það var þegar heimsfaraldur skall á.
Komnir á rétta braut
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lýsti því yfir á sínum tíma að ný ríkisstjórn myndi starfa í anda ungmennahreyfingarinnar með ræktun lýðs og lands að leiðarljósi. Bjarni Benediktsson lýsti því yfir að með samstarfinu væru menn komnir á rétta braut. Von hans væri sú að með nýrri ríkisstjórn myndi andrúmsloftið í samfélaginu breytast til batnaðar og pólitískri óvissu yrði eytt.
Stöðugleikinn.
Traust forysta.
Ábyrg stjórnmál.
Allt þetta sem stjórnmálamenn reyna að selja okkur. Nú slær Sigmundur Davíð um sig með frasanum: „Skynsemishyggja.“
Í stefnuræðu forsætisráðherra setti Sigmundur Davíð samansemmerki á milli þess að skorta trú á Íslandi og vera öfgamaður. „Þeir eru til sem hafa ekki trú á Íslandi, þeir sem ala á sundrung og þeir sem aðhyllast öfgakennda hugmyndafræði.“
„Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar,“ stóð í stjórnarsáttmálanum árið 2013, þar sem áhersla var lögð á að auka innlenda matvælaframleiðslu. Vaxandi spurn eftir mat á heimsvísu skapaði íslenskum landbúnaði sóknarfæri.
Strax á sumarþingi voru veiðigjöld lækkuð um þrjá milljarða á ári, fallið var frá hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu, ákveðið var að framlengja ekki álagningu raforkuskatts sem lenti að mestu leyti á stóriðju.
Þegar utanríkisráðherra sleit einhliða aðildarviðræðum með bréfi til framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, án vitneskju og vilja Alþingis var flokksforystan sökuð um aðför að stjórnskipan lýðveldisins.
Annar ráðherra í ríkisstjórninni sagði af sér eftir að aðstoðarmaður hans var dæmdur fyrir að leka trúnaðargögnum um hælisleitanda, með það að markmiði að stöðva mótmæli vegna fyrirhugaðrar brottvísunar.
Að þremur árum liðnum hrökkluðust Bjarni og Sigmundur frá völdum í kjölfar afhjúpunar á aflandsfélögum í þeirra eigu – og annarra ráðherra. Forsætisráðherrann sem ætlaði að sigrast á erlendum hrægömmum leyndist á meðal þeirra. Hann hefur ekki komist aftur til valda síðan – en ætlar sér stóra hluti í kosningunum 30. nóvember næstkomandi.
Hann stefnir á að setjast aftur í stól forsætisráðherra.
Óhefðbundinn stjórnmálamaður
Í millitíðinni hefur Sigmundur Davíð stofnað stjórnmálaflokk sem snerist fyrst og fremst um að hann héldi forystusætinu sem hann hafði misst í Framsóknarflokknum.
Hann hafði misst trúverðugleika vegna Wintris. En það var ekki bara það. Hann þótti líka skrítinn.
„Óhefðbundinn stjórnmálamaður“, eins og það var orðað í samantekt RÚV.
Sem forsætisráðherra mætti hann í sitthvorum skónum á fund Barack Obama Bandaríkjaforseta, í lakkskó á öðrum fæti en íþróttaskó á hinum. Myndskeið birtist af honum þar sem hann gekk um Ríkisútvarpið og bankaði í veggi þar sem hann hafði meðal annars falið Ríkisreikning ársins 1998 og Hagskýrslu ríkisins um stofnanir aldraðra undir gólffjölum. Hann hafði fært lögheimilið sitt frá Akureyri yfir á eyðibýli, sett fram endalausar samsæriskenningar og stillt sjálfum sér upp sem fórnarlambi. Hann kallaði stjórnendur fjölmiðla á fund sinn í forsætisráðuneytinu til þess að yfirfara umfjöllun um sjálfan sig, krafðist þess að fréttaflutningur RÚV um sig, ríkisstjórnina og Framsókn tæki breytingum ella væri ekki vilji til að mæta fjárhagsvandanum í Efstaleiti. Útslagið varð þegar hann varð að athlægi á alþjóðavettvangi vegna viðbragða sinna við umfjöllun um Panamaskjölin. Þá varð staðan óbærileg.
Á Alþingi var kallað eftir afsögn hans. Hann áminnti þingmenn fyrir framgönguna: „Þegar heiður þjóðarinnar og þessarar stofnunar sem Alþingi er, er í húfi, þá hljótum við öll að reyna að gæta að framgöngu okkar,“ sagði Sigmundur.
Þúsundir mótmæltu á Austurvelli. „Þér er hér með sagt upp störfum. Þér er sagt upp sem forsætisráðherra þessarar þjóðar og við krefjumst þess að þú víkir nú þegar,“ sagði í bréfi til forsætisráðherra. Ástæða uppsagnarinnar var sögð dómgreindarbrestur og skortur á siðferðisvitund. Undir skrifuðu 30.214 einstaklingar.
Sigmundur Davíð neitaði að segja af sér.
Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins á Akureyri, stærsta byggðarkjarna í hans kjördæmi, fóru fram á að hann hætti án tafar.
Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, var í Bandaríkjunum þegar Panamaskjölin voru afhjúpuð. Hann missti af flugi til Íslands, hélt sig til hlés og lét Sigmund Davíð taka höggið, neitaði að lýsa yfir stuðningi við hann. Sigmundur Davíð brást við með því að hóta kosningum ef Sjálfstæðisflokkurinn treysti sér ekki til að styðja ríkisstjórnina. Hélt síðan á fund forseta, þar sem hann kvaðst hafa verið „að spjalla“ og kvaddi fjölmiðla án svara. Forsetinn greindi síðan frá því að hann hefði neitað Sigmundi Davíð um heimild til að boða til kosninga, en aðgerðir Sigmundar Davíðs voru ekki einu sinni í samráði við þingflokk Framsóknar, hvað þá aðra.
Þannig missti hann völdin.
Riddari á hvítum hesti
En hann sneri aftur. Stofnaði sinn eiginn flokk. Settist út í hraun með hrátt nautahakk.
Merki Miðflokksins er hvítur prjónandi hestur með norðurljós í bakgrunni. Íslenski hesturinn „sem getur staðið af sér storm“, „harðan vetur“ og „þekkir leiðina heim“. „Kemur mönnum alltaf á leiðarenda þótt leiðin geti verið torsótt og löng,“ útskýrði Sigmundur Davíð. „Íslenski hesturinn er vinalegur en getur risið upp á afturlappirnar þegar hann þarf að sýna kraft sinn og óttaleysi.“
Sérfræðingur í táknfræði útskýrði merkið sem tilvísun í „þjóðernishyggju sem við föllum alltaf fyrir“. Hesturinn væri sjálfsmynd Sigmundar Davíðs. „Hann er að rísa upp, hann prjónar, hann er riddari á hvítum hesti.“
Þjóðernishyggjan er og hefur alltaf verið alltumlykjandi í pólitík Sigmundar Davíðs.
„Næsta ríkisstjórn þarf nefnilega að verja þjóðina og fullveldið,“ sagði hann fyrr á árinu, þar sem hann gagnrýndi fráfarandi ríkisstjórn meðal annars fyrir „stjórnleysi í útlendingamálum“, sem hefði haft áhrif á allra aðra málaflokka, meðal annars menntakerfið, heilbrigðiskerfið og húsnæðismálin. Ekki sé hægt að reka velferðarkerfi með opnum landamærum.
Ef ekki væri fyrir útlendingana væri allt í fína á Íslandi.
Brjálaða Bína.
Frá Kína.
„Woke-ið, rétttrúnaðurinn eða hvað við viljum kalla það er á ákveðnu undanhaldi, en það er af því að fleira og fleira fólk er að átta sig á því hversu mikið rugl þetta er,“ fullyrti Sigmundur Davíð um daginn og bætti því við að stjórnkerfinu væri „alveg sama hvað fólki finnst“.
Eins og hann sé fulltrúi fólksins. Kerfið sé óvinur þess.
Orðræða sem minnir á Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikana í Bandaríkjunum.
Sigmund Davíð svimaði
„Mig svimaði eftir að hafa lesið kynningu ríkisstjórnarinnar á svokölluðum aðgerðum í útlendingamálum,“ skrifaði Sigmundur Davíð á Facebook.
Í viðtali sagði hann Ísland gjörsamlega hafa misst tökin á útlendingamálum og lýsti ófremdarástandi. Hann bætti því við að fólk væri orðið hrætt við að fara í verslanir „vegna þess að þar hanga einhverjir sem áreita fólk og virða ekki grundavallarviðmið sem hafa verið í gildi í þessu samfélagi“.
Á leigubílamarkaði væru menn komnir í vinnu sem „margir hverjir eru ekki mjög traustvekjandi“. Konum hafi verið nauðgað af mönnum „sem kölluðu sig leigubílstjóra, mönnum sem áttu aldrei að vera hérna“.
Allt í einu var maður sem tók virkan þátt í meiðandi umræðum um konur og hefur aldrei getað beðist afsökunar án þess að stilla sjálfum sér upp sem fórnarlambi í leiðinni, orðinn málsvari þeirra. Af því að hann sá þarna tækifæri til að selja hugmyndina um hættulega útlendinga. Þá skipti einu að alvarlegustu glæpir síðustu mánaða hafa allir verið framdir af Íslendingum.
„Ástandið er að þróast mjög hratt til verri vegar,“ hélt hann áfram.
Í öðru viðtali sagði hann útlendingalögin ónýt. „Það þarf bara ný útlendingalög sem taka mið af veruleikanum eins og hann er núna.“
Það skiptir engu máli hvort ummæli hans séu hrakin, hann heldur áfram á sömu leið. Nú er hann farinn að tala fyrir því að allir sem koma að landamærum Íslands til að sækja um hæli verði tafarlaust sendir til baka og missi rétt til að sækja um vernd á Íslandi. „Nú er þetta fyrst og fremst orðinn business glæpagengja,“ þar sem búið sé að selja fólki væntingar um betra líf í öðru landi. „Ísland má ekki vera söluvara glæpagengja.“
„Hann kemur inn í næstu ríkisstjórn“
Taktíkin er sú sama og áður: Að nota „trektina“ til að troða því ofan í kjósendur að útlendingar séu vandamál, endurtaka í sífellu sömu skilaboðin, með nýjum leiðum, einfalda og margfalda og gagnrýna svo harkalega þá sem taka umræðuna ekki á þeirra forsendum.
Það virkar. Sjálfstæðisflokkurinn er „bara að taka upp útlendingastefnu Sigmundar Davíðs“.
„Hann kemur inn í næstu ríkisstjórn,“ sagði áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum.
Aftur til fortíðar
Það er ekki langt síðan hann fullyrti að „við lifum á hnignunarskeiði vestrænnar siðmenningar“.
„Hér var hent fram orðinu mennska. Hvað þýðir það? Að þeir sem eru ekki sammála þér séu ómennskir?“ spurði hann í Pallborðinu á Vísi fyrr í vikunni. Þannig sneri hann út úr málflutningi þeirra sem töluðu fyrir mannúðlegri nálgun á samfélagið.
„Hér eru mjög sterk öfl, ekki bara á Íslandi heldur víða á Vesturlöndum, sem leggja sig í framkróka við að grafa undan gildum vestrænnar siðmenningar sem var barist fyrir með blóði, svita og tárum í mörg hundruð ár,“ hafði hann áður sagt í hlaðvarpsþætti.
Þannig hefðu Vesturlönd gefið frá sér siðferðisvald. Fjölmiðlar, fræðimenn, stjórnmálamenn og aktívistar væru allir sekir, með því að „grafa undan eigin sögu og siðmenningu“. „Það veikir okkur.“
Í heimi Sigmundar Davíðs er mannréttindabarátta „grenjufræði“ og „vandamálafræði“. Aktívístar „hafa ekkert annað að gera“. Og hann varar við því að það sé hættulegt að „fólk vill hafa frið og hugsa um sjálft sig sem góðar manneskjur“.
„Þetta er eitthvað mannlegt eðli og hættulegt eðli,“ því „vegurinn til heljar er varðaður góðum ásetningi.“
Í hugmyndafræði Sigmundar Davíðs er ekki svigrúm fyrir samfélagslega gagnrýni, efasemdir eða vantrú. Annaðhvort trúir þú á málstaðinn eða ert öfgamaður.
Og þar er heldur ekki svigrúm fyrir gagnrýni á hann. Hann getur ekki enn axlað ábyrgð á því að hafa brugðist trausti kjósenda enda hefur hann snúið afhjúpunum á framgöngu hans upp í samsæri: „Ég held að mér sé alveg óhætt að segja algjörlega ýkjulaust að ég hafi þolað fleiri hitjobs, fleiri tilraunir til að koma mér úr pólitík en nokkur annar stjórnmálamaður á þessari öld. Að minnsta kosti á Íslandi,“ sagði hann í viðtali við Heimi Má á dögunum.
Í slíku andrúmslofti er ekkert svigrúm til framþróunar eða þroska, heldur þarf að hverfa aftur til fortíðar. Teikningar að nýrri skrifstofubyggingu Alþingis átti að sækja hundrað ár aftur í tímann. Rétt eins og viðhorfin.
Upprisa Útvarps Sögu
Árið 2021 var spurt á Útvarpi Sögu: „Hvern vilt þú sjá sem næsta forsætisráðherra?“ Flestir nefndu Sigmund Davíð, eða 36 prósent. Nú erum við að horfa á upprisu þessa hóps, því Miðflokkurinn mælist enn stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í skoðanakönnunum.
Sjálfur lýsti Sigmundur Davíð því yfir í viðtali við Frosta Logason að hann stefndi aftur í forsætisráðuneytið.
Það verður varla án stuðnings Bjarna Benediktssonar, sem myndi væntanlega halda áfram í fjármálaráðuneytinu. Eftir stendur spurningin um það hver færi með þeim í ríkisstjórn. Hægt er að ímynda sér að Sigurður Ingi gæti slíðrað vopnin ef sæti í ríkisstjórn væri undir.
Eftir nokkrar vikur gætum við því séð endurkomu gamla tvíeykisins: Sigmundar Davíðs og Bjarna, með þriðja manni.
Og undir hljómar Wild boys með Duran Duran:
„They tried to break usLooks like they'll try again“
Athugasemdir (3)