„Yfirferð framboðanna er hafin og stendur í dag og næstu daga,“ segir í tilkynningu frá landskjörstjórn. Ellefu stjórnmálasamtök skiluðu inn listum til landskjörstjórnar áður en framboðsfrestur rann formlega út á hádegi í dag. Ábyrg framtíð skilaði aðeins inn lista fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður. Græningjar höfðu áætlað framboð fyrir alþingiskosningarnar en drógu sig í hlé í gær og gáfu út að þau hefðu ekki náð að safna nægum fjölda meðmælenda.
Fulltrúar flokkanna streymdu í Hörpu í dag þar sem landskjörstjórn tók við meðmælendalistum vegna framboðanna en skila þurfti inn lista yfir frambjóðendur og tilkteknum fjölda meðmælenda í hverju kjördæmi til að geta boðið fram.
Landskjörstjórn stefnir að því að vera búin að fara yfir framboðsgögnin klukkan sex í dag. Þá er áætlað að fara yfir stöðuna með fulltrúum flokkanna. Ef eitthvað vantar upp á hafa flokkarnir sólarhring til að gera úrbætur.
„Landskjörstjórn úrskurðar um gildi framboða á fundi sem halda skal í síðasta lagi þremur sólarhringum og fjórum klukkustundum eftir lok framboðsfrests. Fundurinn verður auglýstur þegar tímasetning liggur fyrir,“ segir ennfremur í tilkynningu landskjörstjórar en þarna er miðað við að það liggi fyrir í síðasta lagi klukkan 16:00 á sunnnudag hvaða framboð eru gild. Ef ágreiningur er um þá niðurstöðu hafa framboðin 20 klukkustunda kærufrest og kærunefnd hefur í framhaldinu tvo sólarhringa til að úrskurða.
Þau framboð sem hafa skilað inn gögnum til landskjörstjórnar:
B – listi Framsóknarflokks skilaði gögnum fyrir öll sex kjördæmin.
C – listi Viðreisnar skilaði gögnum fyrir öll sex kjördæmin.
D – listi Sjálfstæðisflokks skilaði gögnum fyrir öll sex kjördæmin.
F – listi Flokks fólksins skilaði gögnum fyrir öll sex kjördæmin.
J – listi Sósíalistaflokks Íslands skilaði gögnum fyrir öll sex kjördæmin.
L – listi Lýðræðisflokks – samtaka um sjálfsákvörðunarrétt skilaði gögnum fyrir öll sex kjördæmin.
M – listi Miðflokks skilaði gögnum fyrir öll sex kjördæmin.
P – listi Pírata skilaði gögnum fyrir öll sex kjördæmin.
S – listi Samfylkingar – jafnaðarmannaflokks Íslands skilaði gögnum fyrir öll sex kjördæmin.
V – listi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs skilaði gögnum fyrir öll sex kjördæmin.
Y– listi Ábyrgrar framtíðar skilaði gögnum fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður.
Athugasemdir