400 hektara uppistöðulón í miðri byggð er stórt inngrip og áhætta fyrir lífríkið og íbúa svæðisins,“ segir Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar og félagi í samtökunum Sól á Suðurlandi, um þau umdeildu áform Landsvirkjunar að byggja Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár. Þrenn náttúruverndarsamtök hafa kært nýútgefin framkvæmdaleyfi og virkjunarleyfi vegna virkjunarinnar og þótt Landvernd sé ekki á meðal þeirra segir Björg Eva samtökin taka heilshugar undir kærur hinna samtakanna.
„Þótt Ísland fórnaði allri sinni náttúru og ásýnd lands myndi okkar orka einungis fullnægja minna en prómilli af orkuþörf heimsins“
Hópur íbúa og landeigenda við Þjórsá hefur einnig kært leyfisveitingarnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og hefur Landsvirkjun innan við tvær vikur til að skila andmælum.
Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Rangárþing ytra gáfu út framkvæmdaleyfi í fyrra og Orkustofnun gaf út virkjunarleyfi í lok árs 2022. Úrskurðarnefndin felldi öll þessi leyfi úr gildi. Þau hafa nú öll verið endurútgefin og aftur er kært því sautján kærumál hafa borist nefndinni vegna þessa.
„Framkvæmdin byggir á eldgömlu umhverfismati, án nokkurs tillits til nýrra laga og alþjóðlegra samninga sem lögfestir hafa verið til varnar náttúrunni, til dæmis lög um stjórn vatnamála og lög um líffræðilegan fjölbreytileika,“ segir Björg Eva um áformaða Hvammsvirkjun. „Á sama tíma höfum við undirritað Parísarsamninginn og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í matskýrslunni frá 2003 var ekki minnst á loftslagsmál.“
Björg Eva segir náttúruverndarsamtök telja framkvæmdir við Hvammsvirkjun hefjast í skugga ofríkis gegn náttúru, samfélagi og eðlilegri stjórnsýslu. Þau telji ósannað að almannahagsmunir séu í húfi, en leyfi sem áður hafði verið fellt úr gildi, var endurútgefið vegna meintra almannahagsmuna, orkuskipta og raforkuöryggis, líkt og hún orðar það. Hún minnir á að stjórnvöld hafi ekki markað skýra stefnu og áherslur um orkunýtingu og að ekkert bendi til þess að orka úr Þjórsá verði nýtt sérstaklega í þágu orkuskipta eða raforkuöryggis. Því fari reyndar víðsfjarri. „Réttmæt og margsönnuð gagnrýni á umhverfisfórnir virkjunarinnar hafa verið sniðgengin og þögguð í tvo áratugi.“
Landvernd hefur ítrekað haldið þeim sjónarmiðum á lofti að hér á landi sé ekki orkuskortur og að ekki þurfi að virkja sérstaklega til orkuskipta. Það verði að forgangsraða í orkusölu, en ekki miða við að mæta óendanlegri eftirspurn. Betur megi fara með þá orku sem þegar er framleidd, draga úr sóun sem sé umtalsverð í kerfinu og nýta nýjar lausnir sem séu smærri í sniðum. „Þótt Ísland fórnaði allri sinni náttúru og ásýnd lands myndi okkar orka einungis fullnægja minna en prómilli af orkuþörf heimsins,“ segir Björg Eva. „Er það þess virði?“
Athugasemdir (1)