„Guð hjálpi okkur,“ eru fyrstu viðbrögð fimm hjúkrunarfræðinga, inntar eftir því hvað þeim finnst um heilbrigðiskerfið í dag. Þær starfa ekki lengur í heilbrigðiskerfinu, af ýmsum ástæðum, en streita, ósveigjanlegur vinnutími og lægri laun leiddu þær í heilbrigðistæknigeriann þar sem þær starfa í dag.
Álagið á og í heilbrigðiskerfinu birtist einna helst á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Landspítalinn hefur nú verið á efsta viðbúnaðarstigi, af þremur, í tæpan mánuð. Ólafur G. Skúlason, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, segir efsta viðbúnaðarstig vera „nýja normið“, kerfið sé of lítið og innviðirnir vaxa ekki með. Eins og staðan er núna liggja 78 sjúklingar á göngunum því ekki er pláss fyrir þá annars staðar. Staðan hefur samt sem áður batnað frá því í síðustu viku þegar 94 sjúklingar lágu á göngum spítalans vegna plássleysis á deildum. Ástæðuna má að hluta til rekja til skorts á hjúkrunarrýmum.
Gulla Akerlie, hjúkrunarfræðingur og vörustjóri hjá Sidekick Health, er einn af fimm hjúkrunarfræðingum sem var í ítarlegu viðtali við Heimildina í síðustu viku. Allar tilheyra þær ört stækkandi hópi hjúkrunarfræðinga sem hafa hætt störfum í heilbrigðiskerfinu og starfa nú í heilbrigðistæknigeiranum. Hún segir álagið sem þær kynntust, starfandi á spítalanum, nýtast þeim í starfi í dag. „Þetta gerir okkur færar í starfinu sem við erum í í dag. Við höfum allt aðra sýn á streitu og það sem er hættulegt. Þegar aðrir halda að allt sé að fara til fjandans þá hugsa ég: Það er enginn að deyja. Stress-levelið í vinnunni og lífinu öllu minnkaði til muna.“
Gulla sagði upp á Landspítalanum fyrir nokkrum árum, aðstæðurnar voru ekki boðlegar. „Ég var með samviskubit heima og í vinnunni. Það var alltaf samviskubit. Ef ég geri mistök í mannlegu starfi þar sem ég hef ekki tíma til að gera vinnuna nógu vel þá getur einhver kært mig. Það var svo margt sem púslaðist saman. Ég næ ekki að gera það sem ég þarf að gera, það þarf að finna einhverja lausn til að hjálpa mér að vinna vinnuna.“
Sidekick Health þróar og markaðssetur stafrænar heilbrigðismeðferðir í samstarfi við stærstu lyfja- og sjúkratryggingafélög í Evrópu og Bandaríkjunum. Gulla saknar þess stundum að starfa „á gólfinu“. „Ég sakna þess að stinga fólk,“ segir hún, og meinar það eins vel og mögulegt, hún saknar til dæmis að setja upp „flókið drip og baxter-dælu“. Henni verður einnig hugsað til gamla fólksins. „Ég væri alveg til í að fara í öldrun af og til. Það er öldrunarheimili í hverfinu og ég hugsa oft af hverju ég er ekki að taka vaktir þar.“
Viðtalið við Gullu, og fjóra aðra hjúkrunarfræðingar sem hafa fært sig úr heilbrigðiskerfinu yfir í heilbrigðistæknigeirann, sem birtist í nýjasta tölublaði Heimildarinn má lesa í heild sinni hér.
Athugasemdir