Þegar þetta er skrifað síðdegis miðvikudaginn 2. október hef ég verið að fylgjast lauslega með atburðum fyrir botni Miðjarðarhafs, meðal annars á fréttavef Ríkisútvarpsins.
Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar 2022 brugðust ráðamenn á Vesturlöndum þegar við, sem eðlilegt var, og innan fárra daga var búið að herða á þeim refsiaðgerðum gegn Rússum sem settar höfðu verið á þegar árið 2014 og bæta nýjum við. Og eitt helsta vinaríki Rússlands, Belarús, mátti líka sæta ýmsum refsiaðgerðum þótt það bara styddi Rússa en tæki ekki neinn þátt í hernaðaraðgerðum.
Ég hugsaði sem svo, þegar ég frétti að Ísrael hefði ráðist inn í Líbanon að kvöldi 30. september eftir tveggja vikna loftárásir – sem kallast víst ekki innrás, – að nú hljóti að koma til fordæminga og refsiaðgerða af hálfu vestrænna ríkja, hér hefði þó verið ráðist inn í sjálfstætt og viðurkennt ríki. Þótt vestrænir þjóðarleiðtogar hafi meira og minna haldið að sér höndum gagnvart fjöldamorðum undanfarins árs á réttdræpum skjólstæðingum hryðjuverkasamtakanna Hamas, þá hlytu þeir nú að bregðast við þessari innrás rétt eins og innrásinni í Úkraínu fyrir hálfu þriðja ári.
Þá birtu forsætis- og utanríkisráðuneytið samdægurs tilkynningu: „Íslensk stjórnvöld fordæma harðlega víðtækar árásir rússneskra stjórnvalda á Úkraínu og lýsa harmi yfir þeirri eyðileggingu og þjáningu sem slík innrás óhjákvæmilega veldur.“ Og: „Stríðsrekstur Rússa í Úkraínu er raunveruleg ógn við öryggi í Evrópu. Við stöndum staðfastlega með okkar bandalagsríkjum og nánustu samstarfsríkjum og tökum fullan þátt í víðtækum þvingunaraðgerðum sem verða útfærðar í dag og á morgun. Ísland hefur lýst algjörum stuðningi við Úkraínu og fordæmir innrás gegn löghelgi landamæra þeirra. Við tökum heilshugar undir kröfu um að Pútín Rússlandsforseti dragi herlið sitt tafarlaust frá Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Í viðtali við Vísi 9. október í fyrra, tveim dögum eftir hryðjuverkin í Ísrael og innrás Ísraels á Gasa í kjölfarið sagði utanríkisráðherra: „Ísraelsmenn hafa kláran rétt til að verja sig og beinlínis skyldu til að verja sína borgara. En auðvitað þarf að halda því til haga að Ísrael þarf að halda sig innan alþjóðalaga, og að það eru ákveðnar reglur. Ég geri ráð fyrir því að Ísrael geri meiri kröfur til sjálfs sín í þeim efnum heldur en hryðjuverkasamtök.“ Hún benti á að spennustigið í heiminum væri að aukast og sagði: „Þess vegna skiptir máli að afstaða okkar sé skýr, og við séum þjóð meðal þjóða sem talar fyrir því að alþjóðalög séu virt, landamæri séu virt og lögsaga sé virt.“ Í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 28. september síðastliðinn benti hún reyndar á að árásir Ísraels á borgaraleg skotmörk á Gasa væru nú ekki alltaf brot á alþjóðalögum: „Frá því hefur verið skýrt að borgaralegir innviðir og sjúkrahús hafi verið notuð í tilgangi sem hefur komið í veg fyrir verndun þeirra samkvæmt alþjóðalögum. Þetta er líka óásættanlegt“ (lausleg þýðing mín).
Það skal látið ósagt hversu miklar kröfur Ísrael geri til sjálfs sín en hitt er víst að spennustigið í heiminum hefur sannarlega ekki minnkað með innrás Ísraels í Líbanon. Enn hef ég samt ekki frétt neitt, núna síðdegis 2. október, af fordæmingum stjórnvalda á Íslandi eða í öðrum vestrænum ríkjum. En kannski hefur Ríkisútvarpið ekki séð ástæðu til að segja frá því. Hins vegar kom fram á vef Ríkisútvarpsins rétt fyrir klukkan átta í morgun að Evrópusambandið, Bretland og Spánn hefðu fordæmt árás Írans á Tel Aviv síðdegis 1. október og stjórnvöld í Bandaríkjunum lýstu fullum stuðningi við Ísrael.
Athugasemdir