Losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðnaði á Íslandi dróst saman um 3,3 prósent milli áranna 2022 og 2023 samkvæmt splunkunýjum bráðabirgðatölum um losun á Íslandi. Fimm fyrirtæki í málmbræðslu falla undir ETS-viðskiptakerfið svokallaða í loftslagsbókhaldinu og losuðu þau í fyrra samtals yfir 40 prósent af allri losun ef frá er talin losun frá landnotkun.
„Þannig að það verður alltaf dýrara og dýrara, eftir því sem tíminn líður, að losa“
Samdráttur er af hinu góða, enda er það markmiðið með hinu samevrópska ETS-kerfi, þar sem losunarheimildir geta gengið kaupum og sölum, að draga úr losun um heil 62 prósent fyrir árið 2030 miðað við losunina sem var árið 2005. Sífellt mun því þrengja að möguleikum til kaupa fyrirtækja á losunarheimildum sem munu þá verða dýrari eftir því sem þær verða fágætari vara.
En ef litið er nánar á stóriðjuna í uppgjöri ársins 2023 kemur í ljós að losun frá álframleiðslu jókst um 3,6 prósent á milli ára og er 31% af heildarlosun Íslands í fyrra. Lækkun stóriðjunnar í heild er til komin vegna þess að losun frá kísil- og járnblendifyrirtækjum dróst umtalsvert saman.
Það á sér einfaldar skýringar. Þau síðastnefndu framleiddu einfaldlega minna en árið áður. Að sama skapi framleiddu álfyrirtækin meira og það skýrir aukna losun þeirra.
Lítið að frétta
En er samdráttur í losun frá stóriðju eingöngu tengdur minni framleiðslu, eru þessi fyrirtæki ekki að gera neitt annað sem skiptir máli í þessu sambandi?
Birgir Urbancic Ásgeirsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir það rétt að breytingar á losun þessa iðnaðar haldist nánast alfarið í hendur við framleiðsluna.
Eina aðra breytu má telja til sem stuðlar að samdrætti en það er notkun á viðarkurli í stað kola líkt og Járnblendið á Grundartanga gerir. Þannig hafi tekist að draga úr losun frá þeirri verksmiðju. „En svona í heildina er þetta í sambandi við framleiðslu og það er lítið að frétta, ef svo mætti segja, í losun frá þessum iðnaði á Íslandi.“
Þetta er svo risastór þáttur þegar kemur að losun. Þyrfti ekki að vera meiri áhersla á þennan geira?
„Nú ertu komin í pólitíkina,“ segir Birgir og hlær létt. Vissulega sé mikilvægt að tækla stóru losunarþættina, til að ná settum markmiðum, en þá kemur að flokkun út frá skuldbindingum.
Flokkað eftir skuldbindingum
Losun Íslands má almennt skipta í þrjá meginflokka þegar hún er skoðuð út frá skuldbindingum gagnvart ESB. Flokkarnir eru samfélagslosun, landnotkun og losun sem fellur undir ETS, viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Innan viðskiptakerfisins eru stóru einstaka losendurnir, stóriðja og flug.
Innan samfélagslosunar, þar sem eru samgöngur, úrgangsmálin og allt hitt, þá berum við í raun ábyrgð sem ríkið Ísland, segir Birgir. Við erum búin að skuldbinda okkur til að draga úr okkar losun, líkt og hvert og eitt ríki Evrópu. „Hins vegar, hvað varðar þessa stórnotendur, þá er sá flokkur tekinn út fyrir sviga. Ekki í merkingunni að við ætlum ekki að tækla það, heldur að það er byggt sér kerfi utan um þá. Þar segja menn: Við ætlum ekki að tækla þetta per ríki heldur ætlum við saman sem Evrópa að ná samdrætti, óháð því innan hvaða landamæra það gerist.“
Dýrara og dýrara
Viðskiptakerfið er líkt kvótakerfi, útskýrir Birgir. Það sé ákveðinn kvóti á losun og hann fari minnkandi með hverju árinu. „Þannig að það verður alltaf dýrara og dýrara, eftir því sem tíminn líður, að losa.“ Hugmyndin er sú að rekstraraðilar fari í breytingar hjá sér því það sé ódýrast. Því ef fyrirtækin ná losun niður geta þau selt öðrum heimildir og þeir sem ná því ekki þurfa að kaupa. Þetta þýðir að þar sem hægt er að draga úr losun á sem hagkvæmastan hátt, þar verður dregið úr henni. „Andrúmsloftinu er alveg sama um hvort einhver sameind koltvíoxíðs losni á Ítalíu eða á Íslandi. Við viljum bara minnka þessa losun,“ segir Birgir.
Fimm stórar verksmiðjur á Íslandi eru innan þessa viðskiptakerfis. Þau sjálf þurfa að greiða fyrir losun með því að kaupa heimildir frá öðrum. Þannig að það á að skapast fjárhagslegur hvati til að draga úr henni.
Samfélagslosunin er gerð upp með öðrum hætti. Kostnaður sem fellur til vegna hennar, ef til þess kemur, lendir á skattgreiðendum. Ef markmið nást ekki þarf að kaupa heimildir frá öðru landi. „Það mætti kannski segja að þó að við sjáum ekki samdrátt á Íslandi hjá þessum aðilum, ál-, kísil- og járnblendifyrirtækjum, þá þýðir það ekki að þátttaka í þessu kerfi skili ekki einhverju. Samdrátturinn verður einhvers staðar annars staðar í Evrópu í staðinn. Því hann er í raun þvingaður með þessum kvóta, með þessum losunarheimildum.“
Birgir segir að eins og staðan er núna sé ekki að sjá að samdráttur verði í losun frá stóriðju hér á landi nema með minni framleiðslu. Nú eða ef einni verksmiðju er lokar, svo dæmi sé tekið.
Föngun og förgun?
Í uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er að finna aðgerð um að setja upp áætlun sem raungerir föngun frá staðbundnum iðnaði. Aðgerðin er á hugmyndastigi samkvæmt áætluninni.
Birgir segir að Carbfix-tækninni hafi hingað til verið beitt í tengslum við losun frá Hellisheiðarvirkjun. „Þar hefur koltvíoxíð verið fangað og því dælt niður í jörðina þannig að það steinrennist. Og það hefur minnkað losun frá jarðvarmavirkjunum,“ bendir hann á.
Nú horfi menn til þess hvort hægt sé að fanga koltvíoxíð frá iðnaði – beint frá viðkomandi verksmiðjum. „Það er ekki byrjað að gera slíkt en menn þurfa að skoða hvort það sé hægt og þróa þá til þess tækni – að fanga það og dæla því svo niður.“ Ef þetta myndi raungerast þá myndi losun innan ETS-viðskiptakerfisins minnka. Birgir segir þetta dæmi um hvernig kerfið eigi að virka. Fyrirtæki þurfi að greiða fyrir losun og því sé hvati til þess að finna leiðir til að draga úr henni.
Athugasemdir