Ég er að bíða eftir vinkonu minni, ætla að fara með hana í mat á Búlluna. Hún er barnabarn þeirra sem eiga þetta hús hérna á Bárugötunni. Hún heitir Askja, hún verður 17 ára í janúar. Ég sinni henni dálítið mikið. Ég er búinn að leggja dálítið mikla vinnu í þessa stelpu, hún er helvíti klár og góð sko, spilar í lúðrasveit, kennir yngri krökkum á klarínett og fimleika og er voðalega aktíf í MH. Ég á engin barnabörn en ég er búin að passa hana síðan hún var tveggja daga gömul. Á ég mikið í henni? Já og nei, kannski. Ég ætla að nota tækifærið og umgangast hana sem mest núna af því að það fer að líða að því að hún hefur minna samneyti, það bara fylgir unglingunum. Ég ætla að njóta þess á meðan það varir.
„Ég ætla að njóta þess á meðan það varir.“
Ég er búinn að vera heppinn, ég hef ferðast heilmikið, bæði innanlands og utan. Búinn að sjá mjög mikið af Íslandi en ég er eiginlega hættur að ferðast núna, ég er orðinn slæmur í hægra hnénu, ég labba ekki eins og ég gerði. Ég myndi segja að mitt líf hafi verið ósköp venjulegt, ég vildi hafa það svoleiðis. Mér líður eiginlega best í skugganum. Þar er meiri friður. Ég byrjaði að fara á vesturstrandirnar '72, þá var enginn þarna, þá gastu labbað í tvær, þrjár vikur og rakst ekki á neitt nema refi. Síðast þegar ég fór þarna var þetta hálfpartinn eins og að fara Laugaveginn, allt of mikið af fólki. Sama með Lónsöræfi, ég hef ferðast mikið þar.
Ég myndi vilja fá að sofa í stóra píramídanum í Egyptalandi, en það þykir mér frekar mjög svo ólíklegt. Það er læst á næturnar og það eru verðir þar, þú þarft örugglega að múta þeim með þó nokkuð miklum pening til þess að það myndi ske. En já, ég myndi þrælfíla það, held ég.“
Athugasemdir