Loftslagsbreytingar eru að breyta Evrópu í „útungunarstöð“ fyrir sjúkdóma sem moskítóflugur bera með sér, að sögn vísindamanna. Lengri sumur, hærra hitastig og meiri úrkoma en áður hafa skapað kjöraðstæður fyrir moskítóflugur á svæðum sem þær áður þrifust ekki á.
Í samantekt sem Evrópska smitsjúkdómastofnunin (ECDC) hefur gefið út kemur fram að það sem af sé ári hafi 715 tilfelli vesturnílarveiru greinst í fimmtán Evrópulöndum sem er meira en allt árið í fyrra og yfir tíu ára meðaltali. Í byrjun september hafði 51 sjúklingur látist vegna þessarar skæðu veirusýkingar. Flestir voru þeir aldraðir.
„Þetta er nýr veruleiki,“ hefur vísindatímaritið Nature eftir sérfræðingi í smitsjúkdómum sem starfar hjá ECDC. Moskítóflugan sem ber veiruna hefur verið þekkt á vissum svæðum í Evrópu frá því um miðja síðustu öld. Á þeim slóðum hefur fólk, kynslóð fram af kynslóð, orðið ónæmt fyrir verstu einkennum smits. Nú þegar flugan finnst víðar vegna hagfelldra veðuraðstæðna, er fólk sem fyrir stungu verður og fær veiruna í sig næmara fyrir smiti og í meiri hættu á að fá alvarleg einkenni.
Í nýrri rannsókn, sem birt var fyrr á þessu ári, er niðurstaðan sú að loftslagsbreytingar eigi þátt í aukinni tíðni smita af vesturnílarveiru í Evrópu.
Athugasemdir