Samherji gæti mögulega verið fyrsta fiskifyrirtækið sem markar sér sess í listasögunni. Í þessum töluðu orðum erum við Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri útgerðarfyrirtækisins Samherja, bæði að taka þátt í vexti sama listaverksins og það heitir: „We're Sorry“ – en það er listaverk Odds Eysteins Friðrikssonar, sem er betur þekktur undir listamannsnafninu Odee.
Gjörningaverk þetta er þess eðlis að umræðan um það er kjarni þess. Því meiri sem umræða um verkið verður og því meira sem andspyrna gegn tilvist þess eykst, því stærra verður verkið. Þannig er þessi pistill nú þegar orðinn hluti af verkinu. Sama má segja um aðgerðir Samherja gegn því.
Fyrirtækið fékk lagt bráðabirgðalögbann í Bretlandi á vefsíðuna samherji.co.uk. þar sem Odee hafði birt afsökunarbeiðni Samherja til handa Namibíu. Í viðtali við RÚV kvaðst listamaðurinn ekki eiga annarra kosta völ en að samþykkja úrskurðinn og taka niður vefsíðuna sem sýndi list hans. Hann taldi þetta vera alvarlega aðför að tjáningarfrelsinu.
Vefsíða þessi tilheyrir áðurnefndu listaverki sem jafnframt er vegglistaverk í Listasafni Reykjavíkur, ásamt fréttatilkynningu með afsökunarbeiðninni. Í fréttum hérlendis í maí var talað um að fölsuð afsökunarbeiðni hefði verið send út í nafni Samherja og vefsíða verið látin líta út eins og hún væri tengd fyrirtækinu. Nú hefur Samherji stefnt listamanninum fyrir Hæstarétt Bretlands, þar sem málið verður tekið fyrir 25. og 26. september næstkomandi. Þá verður listamaðurinn leiddur fyrir dómara sem taka mun ákvörðun um það hvort málið fari áfram. Listamaðurinn ver sig sjálfur andspænis lögmönnum Samherja en þeir lögmenn koma frá Íslandi, Noregi og Bretlandi.
Listræn aðkoma okkar Þorsteins
Listræn aðkoma okkar Þorsteins Más að verkinu er þó af ólíkum toga. Á meðan undirrituð tjáir sig nú opinberlega um að listaverkið sé prófraun á umburðarlyndi samfélagsins gagnvart grundvallarfrelsi listamanna og tjáningarfrelsinu, þá talar Þorsteinn Már í tilkynningu um svokallaðan listgjörning (innan gæsalappa) með misnotkun á vörumerki Samherja sem nái til þriggja heimsálfa. Jafnframt segir hann að Samherji hafi fengið vitneskju um þessa víðtæku misnotkun þegar félagið fékk lagt lögbann á meinta ólöglega notkun vörumerkis félagsins, meðal annars við notkun á léni í nafni Samherja í Bretlandi. Hann skrifar að Samherji beini eingöngu spjótum sínum að því að verja mikilvæg vörumerki félagsins en að Samherji hafi „leitt hjá sér túlkanir á list og tjáningarfrelsi“
Af tilkynningunni má skilja að það myndu svo sem öll fyrirtæki gera hvarvetna í heiminum. En er það? Raunar má efast um að öll fyrirtæki myndu meta málið þannig. Þarna takast á mikilvægi tjáningarfrelsisins og mikilvægi vörumerkja. Listrænn leikur á í hlut, nokkuð sem býr að sínum lögmálum. Í bréfi Þorsteins til samstarfsfólks var þó listrænn gjörningur settur í það samhengi að reynt hefði verið að hafa af Samherja fé með því að fela auglýsingastofu birtingu á auglýsingaefni af sama tagi gegn greiðslu frá Samherja.
En í verkinu er skáldskapurinn að etja kappi við hugsunina að lífið sé bara saltfiskur og peningar. Í verki Odees býr skáldskapur og fegurð. Verkið birtir hliðarveruleika, eins og leikari að leika Þorstein Má í áramótaskaupinu. Verkið spyr: „Hvernig væri veruleikinn ef Samherji myndi biðja namibísku þjóðina einlægrar afsökunar?“ Já, skáldskapurinn spyr: „Hvað ef...?“
Hvað var aftur þarna í Namibíu?
Fegurðin er og verður sönn. Hið sanna er fagurt fyrir það eitt að vera satt, jafnvel þó að það færi okkur fregnir af misbeitingu valds og arðráni. En af hverju ætli forsvarsmönnum Samherja sé svo illa við útskriftarlistaverk nema úr Listaháskóla Íslands að fyrirtækið ræður (ekki ódýra) lögmenn til að ráðast gegn því og listamanninum í Hæstarétti Bretlands? Getur verið að ástæðan sé ekki vörumerkið sem slíkt heldur ótti forsvarsmanna fyrirtækisins við að fólk tengi það við fréttaflutning af fyrrum umsvifum þess í Namibíu? Að listaverkið tendri hugrenningartengslin: „Þorsteinn Már, Namibía!“ Að fólk spyrji sig: „Hvað gerði Samherji aftur í Namibíu?“
Leiðtogi namibísku stjórnarandstöðunnar og lítið ljóð
Þessi hunsun Samherja gagnvart túlkunum á list og tjáningarfrelsi fær mann til að velta fyrir sér hvort fyrirtækið lögsæki næst leikara í áramótaskaupinu fyrir að leika Þorstein Má? En fyrst við erum á listrænum nótum, þá er hér lítið ljóð, ef einhvern langar að prófa að lögsækja skáldskapinn. Ljóðið heitir Okkur þykir þetta leitt og er svohljóðandi:
Ef Samherji gegndi mikilvægu hlutverki
í stærsta spillingarmáli
í sögu namibísku þjóðarinnar
segjum við: „we're sorry“
ó vei ó vei
mútugreiðslur útgerðarfélags
mögulegar
í skiptum fyrir makrílkvóta
mögulega
hestamakrílskvóti
dillidó og korríró
hestamakrílskvóti
ég er leiðtogi
namibísku stjórnarandstöðunnar
bón mín er
tækifæri
til að taka afstöðu gegn spillingu og arðráni
gerðu það ...
... gerðu það
ekki veita slíkt skjól
með beinni aðstoð þinni
„we're sorry“
ég er formaður stærsta stjórnarandstöðuflokks Namibíu
ég segi:
hestamakrílskvóti
ó vei ó vei
„we're sorry“
skaðinn ómældur
(höf: Auður Jónsdóttir - Örn Elvar Arnarson - ljóðið er innblásið af fréttaflutningi og að mestu samsett úr setningum úr fréttaflutningi)
Að verða fórnarlamb listaverks
Ég skil vel að Þorsteinn Már óttist hughrif sem þessi og þá um leið orð og myndir listamanna. Auðvitað! Ég meina, ef einhver segir Þorsteinn Már, þá hugsa ég: Namibía! Og þarf ekkert listaverk til þess, það er sem er. Ég skil alveg ef Þorsteinn Már óttast hugrenningartengsl, já, frjálsa hugsun. Upplifun fólks af listaverkum og fréttum, ef út í það er farið.
Í sporum hans myndi ég sjálf hrökkva í kút, miðað við umfang þess sem fréttaflutningur benti til að Samherji gæti hafa verið ábyrgur fyrir í Namibíu. Og auðvitað er ekki auðvelt að verða fyrir listaverki útskriftarnema. Karlmaður í smá keng og verður þá í ofan á lag fórnarlamb listaverks!
En Þorsteinn Már!
Ef að list og tjáningarfrelsi skipta engu hefðir þú bara átt að berja þér á brjóst og segja: „Elsku listamaður, þú ert svo lítils virði að ég bara brosi út í annað!“ Frekar en að fyrirtækið kalli til lögmenn og fari fram á að listamaðurinn verði dæmdur; kalli eftir svokölluðu summary judgment. En sjálfur vill listamaðurinn fá að eiga sinn dag í réttinum og flytja sitt mál sjálfur.
Grundvallarmekkanismi frjálslynds lýðræðis
Viðbrögð þín, Þorsteinn Már, eru ómetanleg fyrir listaverk þetta, þau sanna mikilvægi þess. Hefurðu lesið Meistarann og Margarítu? Fegurð, frelsi til tjáningar og hið sanna er ekki hægt að mæla í kílóum. Hugtök þessi vega svo þungt að þau myndu sprengja allar vigtir. Án þeirra gætum við allt eins verið páfagaukar. Og páfagaukar – þeir borða ekki saltfisk.
Og núna ert þú orðinn hluti af listaverki, og ekki nóg með það, þú ert þátttakandi. Þú ert orðinn listamaður, Þorsteinn Már, með aðkomu þinni að skáldlegum hliðarveruleika einlægrar afsökunarbeiðni.
Ég veit að núna hljóma ég eins og einn af þessum sjálfhverfu elítu-listamönnum í 101 Reykjavík en Þorsteinn Már!
Auðvitað er ekki auðvelt að verða fyrir listaverki útskriftarnema. Karlmaður í smá keng og verður þá í ofan á lag fórnarlamb listaverks!
Sko, ég á ættir mínar að rekja til Dalvíkur, föðurfjölskylda mín er ættuð þaðan og pabbi Kristjáns Þórs horfði ungur á formóður mína leggja kapal og lýsti henni sem sérstaklega sjálfstæðri manneskju – sem skildi lögskilnaði svo snemma að hún telst einhvers konar frumkvöðull í þeim efnum, áður en það varð sjálfsögð hugmynd fyrir konur að skilja við eiginmann sinn. En þrátt fyrir þessi norðlensku tengsl okkar þá botna ég ekkert í íhaldssemi þinni í þessu máli. Gerirðu þér grein fyrir að mál þitt snýst ekki bara um vörumerki? Það snýr nú að grundvallarmekkanisma frjálslynds lýðræðis.
Þú veist, já, þú veist, að þegar Samherji leiðir hjá sér túlkanir á list og tjáningarfrelsi, þá segir mannréttindalögmaðurinn Andra Matei, sem veitir listamanninum lögfræðilega aðstoð, að mál þetta sé einstakt tækifæri til að jafna rétt tjáningarfrelsis gagnvart höfundarétti fyrirtækja og þá með hagsmuni almennings í huga.
Getur haft víðtæk áhrif á listamenn og almenning
Hér virðist sem á ferðinni sé einhvers konar glóruleysi um grundvallarstoðir nútímamenningar þegar fiskifyrirtæki bítur á agnið til þess eins að sprikla í neti listaverksins. Æst í að krefjast refsingar fyrir afsökunarbeiðni – sem virðist öllu frekar hafa átt að vera þess. Hvað er þá að þessari afsökunarbeiðni? Sem, eftir allt saman, er aðeins til í skáldlegum hliðarveruleika. Í listinni.
Þetta er sko ekkert bull heldur eins raunverulegt og gaddfrosið steinbítsflak. Eins og Andra Matei segir þá er þetta er þýðingarmikið fyrir Odee á sama tíma og málið getur haft mun víðtækari áhrif á allt samfélag listamanna. Krafa Samherja gæti dregið alvarlegan mátt úr listamönnum og öllum öðrum til að tala á skapandi hátt og tendra mikilvægar samræður. Þetta má allt lesa í grein í Artnews með yfirskriftinni: Art Student Sued by Iceland's Top Fishing Company After Issuing Fake Apology for Company's Alleged Role in Fishrot Scandal.
Þú ert orðinn listamaður, Þorsteinn Már, með aðkomu þinni að skáldlegum hliðarveruleika einlægrar afsökunarbeiðni.
Þú hefur þannig í hendi þér að hafa fælingarmátt á listamenn, almenning og stofnanir! Ég veit að listamaðurinn áttar sig á því um hvað þetta mál snýst. Ég talaði við hann og hann sagði: „Málefnið er svo miklu stærra en eitthvað sem gæti komið fyrir mig einan. Þannig að ég hef í rauninni leitt það hjá mér. Nú er maður bara einhvern veginn að hrinda áfram samfélagslegri umræðu og ábyrgð. Maður getur ekki gert nákvæmlega hvað sem er, maður ber ábyrgð gagnvart einhverju stóru málefni. Þetta er það sem ég er í rauninni að berjast fyrir, að ég megi segja og tjá mig um málefni líðandi stundar.“
Samfélagsleg ábyrgð skiptir nefnilega máli, Þorsteinn Már. Bæði á Íslandi og í Namibíu. Í list og fiskiðnaði. Alls staðar. Manstu! Eins og lögmaður Samherja sagði þegar tekin var fyrir lögbannskrafa Samherja sama dag og sýningin opnaði í Listasafni Reykjavíkur, já, þegar hr. Hill sagði: „There have been issues in Namibia ...“
Gjörningurinn varð strax ljós
Issjú geta skipt máli, við þurfum að axla ábyrgð gagnvart issjúum. En þú ert kannski, að vissu leyti, að sýna ábyrgð með því að ljá listaverkinu sterkari vængi með málatilbúnaði. Þrátt fyrir að fjölmiðlar virðist ekki hafa álitið þetta raunverulega heimasíðu, hvað þá afsökunarbeiðni frá Samherja. Þið senduð jú strax út fréttatilkynningu þess efnis að afsökunarbeiðnin væri ekki frá ykkur komin. Fjölmiðlaumfjöllun gat þannig byggt á tilkynningum ykkar. Gjörningurinn varð samstundis ljós.
Af hverju brosir þú ekki út í annað – og fagnar þróttinum í list og lýðræði? Er ég að misskilja þig? Viðtökur við verkinu vekja umræðu – sem Samherji virðist umfram allt ekki vilja. Samt eru viðbrögð Samherja nú á góðri leið með að gera verk um meinta afsökunarbeiðni fyrirtækisins ódauðlega. Hvernig sem málareksturinn fer. Og þó að hinu burðuga milljarðafyrirtæki ykkar takist að gera útskriftarnema úr LHÍ gjaldþrota, þá er hugmyndafræðilegt gjaldþrot ívið verra. Ég vona að þetta sé einhvers konar misskilningur. Eða hvað, Þorsteinn Már?
Getur þetta finngálkn (ekki í hefðbundinni merkingu) sem Auður fjallar hér svo fjálglega um sjálft skilgreint sig sem listamann og verk sínsem listaverk?
Gátu þjófarnir sem stálu verki eftir þekktan listamann til að þjóna lund sinni skilgreint sig sem listakonur og ruslahrúguna sem þær settu þekkta verkið inní sem listaverk?
Getur Auður Jónsdóttir (vel ættuð, ég veit) gefið út viðurkenningarstimpil á listamenn? Ég held ekki. Ég held að þetta sé örvæntingarfull tilraun Auðar til að losa "listamanninn" (sem hún virðist hrifin af) úr klípu sem hann kom sér sjálfur í. Fórnarlund kvenna við að reyna að bjarga vonlausum karlmannsdindlum verður líklega seint uppurin.
"Listaspíran" sem Auður er að reyna að bjarga verður hins vegar eflaust aldrei borgunarmaður fyrir afleiðingunum af rugli sínu svo að morgunljóst má vera að Samherji er ekki í þessum málarekstri af peningalegum ástæðum.
Kannski er Samherji að leitast við að breyta skilgreiningu fólks eins og Auðar á því hvað teljist vera líst. Ef svo er, þá er um metnaðarfullt þjóðþrifavetk að ræða.