Hugtakið vítamín mun vera komið frá pólska lífefnafræðingnum Kazimiers Funk (1884 – 1967) sem notaðist fyrst við þetta orð árið 1912. Vítamín er safnheiti yfir ýmis efni sem eru lífverum nauðsynleg heilsunnar vegna og fást aðallega úr mat. Sum þessara efna geta lífverur ekki myndað sjálfar eða geta ekki myndað nóg af. Vítamínskortur í líkamanum getur haft alvarlegar og jafnvel lífshættulegar afleiðingar. Skyrbjúgur, vegna skorts á C vítamíni, er líklega það sem flestir kannast við úr frásögnum frá fyrri tímum.
Fyrir tiltölulega fáum áratugum voru vítamín álíka mörg og nokkrir fyrstu stafirnir í stafrófinu. Núna eru þau að minnsta kosti 15, ásamt mörgum undirflokkum. Oft er talað um steinefni t.d. kalk og joð í sömu andrá og vítamín en steinefnin eru einskonar stoðefni sem hjálpa vítamínunum að vinna sitt verk og eru þannig ómissandi líkamanum.
„Það er nefnilega ekki gott að fá allt of mikið vítamín í kroppinn“
Fæðubótarefni er orð sem oft sést, ekki síst í auglýsingum, en fæstir vita kannski hvað í orðinu felst. Á heimasíðu Matvælastofnunar má lesa eftirfarandi lýsingu: „Fæðubótarefni geta verið mismunandi vörur en allar þær hafa það sameiginlegt að vera viðbót við venjulegt fæði og innihalda hátt hlutfall næringarefna. Fæðubótarefni sem koma tilbúin í neytendaumbúðum geta innihaldið, auk vítamína og steinefna, plöntuhluta (lauf, blóm, rót o.fl.), dýraafurðir (hjarta, lifur) og útdrátt úr jurtum eða öðrum efnum. Þau geta einnig innihaldið næringarefni sem eru efnafræðilega framleidd.“
Verksmiðjutöflurnar
Þegar skrifari þessa pistils var að alast upp, eftir miðja síðustu öld, var lýsi hið daglega vítamín og kannski Sana sol. Annað var það nú ekki. Mörgum þótti lýsið ekki sérlega bragðgott en hollustan átti að vega það upp. Lýsið heldur enn velli og er nú fáanlegt í ýmsum útgáfum en Sana Sol er horfið af markaðnum.
Með fjölbreyttu fæði á líkaminn að fá flest eða öll þau vítamín og steinefni sem hann þarf á að halda. En það eru fleiri lausnir. Á síðustu áratugum hafa komið á markaðinn ókjörin öll af vítamínum og fæðubótarefnum sem, ef marka má auglýsingar, tryggir langlífi og betra heilsufar. Það er nánast sama hvað að manni amar, bara að taka réttu pillurnar og þá verður allt í himnalagi.
Vítamín- og bætiefnabransinn er risastór
Í stórmörkuðum fylla vítamín og bætiefnaglösin heilu hillumetrana, sömu sögu er að segja um apótekin og alls kyns „heilsuvöruverslanir“. Í mismunandi glösum frá fjölmörgum framleiðendum, skreyttum litskrúðugum miðum, eru lausnirnar: Liðverkir, sjóndepra, hárlos, meltingartruflanir, veikt ónæmiskerfi, blöðrubólga, veirusýkingar, svefnleysi, slen o.s.frv. Allt hverfur þetta eins og dögg fyrir sólu og tryggir langlífi, bara ef passað er að taka réttu pillurnar.
Íslendingar og vítamínin
Í mars árið 2022 voru kynntar, í skýrslu, niðurstöður rannsóknar embættis landlæknis og rannsóknastofa í næringarfræðum við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands um mataræði Íslendinga sem gerð var á árunum 2019-2021. Þar kemur fram að neysla flestra vítamína og steinefna er að meðaltali yfir ráðlögðum dagskammti (RDS), nema á D-vítamíni, fólati og joði.
Eftir útkomu skýrslunnar urðu talsverðar umræður um vítamín og bætiefni, einkum um hugsanlegan skort á D vítamíni og þá staðreynd að 50 – 75 prósent Íslendinga væru með of lítið D vítamín í blóðinu. Hér verður ekki fjallað um niðurstöður þessarar yfirgripsmiklu rannsóknar sem hægt er að nálgast á netinu, meðal annars á vef Landlæknisembættisins.
Lengja vítamín lífið?
Eins og fyrr var nefnt halda framleiðendur vítamína- og bætiefna því mjög á lofti í auglýsingum að akkúrat þeirra efni bæti heilsuna og lengi lífið. Fyrir skömmu voru birtar niðurstöður viðamikillar bandarískrar rannsóknar sem sérfræðingar frá National Cancer Institute höfðu unnið. Rannsóknin tók yfir 20 ára tímabil og náði til tæplega 400 þúsund Bandaríkjamanna. Niðurstöðurnar, sem birtar voru í tímaritinu JAMA Network Open, voru í stuttu máli þær að dagleg neysla á fjölvítamínum tryggði ekki lengra líf, þvert á móti. Dánaráhættan, eins og það er orðað í rannsókninni, reyndist fjórum prósentum hærri hjá þeim sem daglega tóku vítamínpillur.
Ofurtrú á vítamínunum
Í september eða október ætlar Danska matvælastofnunin að birta umfangsmikla rannsókn á vítamínneyslu Dana. Slík rannsókn var síðast gerð fyrir tíu árum og þá kom í ljós að 6 af hverjum 10 Dönum tóku daglega eina eða fleiri vítamínpillur. Hæst var hlutfallið meðal barna.
Danska dagblaðið Berlingske hefur undanfarið fjallað mikið um vítamín og fæðubótarefni. Susanne Gjedsted Bugel prófessor við Hafnarháskóla sagði í viðtali að skýringin á mikilli vítamínneyslu væri „kannski sú að við viljum vera heilbrigð og hraust og til að taka af allan vafa um að við fáum nægt vítamín tökum við daglega eina vítamínpillu, svona til öryggis. Fyrir 20 – 30 árum var það útbreidd skoðun sérfræðinga að slíkt gæti í það minnsta ekki skaðað. Á síðustu árum hefur þetta breyst og nú er viðhorfið það að við ættum í öryggisskyni að láta vera að gleypa töflurnar,“ sagði Susanne Gjedsted Bugel. „Það er nefnilega ekki gott að fá allt of mikið vítamín í kroppinn,“ bætti hún við.
Í lokin er rétt að nefna að skýringar á örlítið hærri dánartíðni þeirra sem taka fjölvítamín á hverjum degi, eins og fram kom í bandarísku rannsókninni, liggja ekki fyrir.
En Nivea í bláu dósunum, fær mann til að líða betur, sé maður þurr í húðinni.