Fyrirhugaðri brottvísun Yazans Aburajab Tamimis og foreldra hans, Mohsen og Ferial, hefur verið frestað um fjórar vikur. Þetta staðfestir Albert Björn Lúðvígsson, lögmaður Yazans, í samtali við Heimildina. Vísir greindi fyrst frá.
„Þetta gefur þeim smá von,“ segir Albert, sem mun í dag senda inn endurtekna umsókn til kærunefndar útlendingamála sem byggir á nýjum málsástæðum. Hann segir málið þess eðlis að ekki sé hægt að skilja það við sig. „Meðan ennþá er möguleiki þá reynir maður áfram.“
Albert telur að ákveðnar málsástæður hafi ekki verið kannaðar eða rannsakaðar rétt. Réttindagæslumaður fatlaðra er með mál hans til skoðunar og hefur bent á að Yazan átti, samkvæmt vinnureglum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra, rétt á því að réttindagæslumaður yrði skipaður í hans máli og að ákveðið mat færi fram á fötlun hans, sem hefur ekki verið gert. „Ég tel að þetta og fleiri atriði gætu verið þess valdandi að málið verði skoðað að nýju,“ segir Albert.
Fjölskyldan kom hingað í leit að hæli í fyrra. Yazan, sem er frá Palestínu, er með vöðvarýrnunarsjúkdóminn duchenne og hafa læknar vottað fyrir það að hann muni hljóta skaða af ef hann fær ekki viðeigandi læknismeðferð.
Kærunefnd útlendingamála hafnaði beiðni fjölskyldunnar um endurupptöku hælisumsóknar þeirra um miðjan júní og til stóð að vísa þeim aftur til Spánar, hvar fjölskyldan er ekki með hæli, yfir í byrjun júlí. Fjölskyldan fékk vegabréfsáritun á Spáni og komst kærunefnd útlendingamál að þeirri niðurstöðu að fjölskyldan skyldi fara aftur til Spánar á grundvelli dyflinnarreglugerðarinnar, jafnvel þó að þar séu þau ekki með stöðu flóttamanns eða hælisleitenda og eigi því sem stendur ekki rétt á að fá þar viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir Yazan. Kærunefndin sagði, ranglega miðað við nokkur læknisvottorð sem Heimildin hefur fengið að sjá, að Yazan hefði „ekki verið undir neinu sérstöku eftirliti eða í meðferð vegna [sjúkdómsins] hér á landi.“
Duchenne samtökin, ÖBÍ, Einstök börn, Þroskahjálp, samtökin Réttur barna á flótta og Ungmennaráð Unicef hafa öll sent frá sér yfirlýsingu þar sem brottvísuninni er mótmælt og þá voru sálfræðingur, kennarar og þroskaþjálfi sem þekkja til Yazans á meðal þeirra sjö sem skrifuðu undir mótmælayfirlýsingu sem þau sendu Heimildinni. Undir hana skrifa einnig vinir Yazans hér á Íslandi.
Yazan og fjölskylda hans sögðu ítarlega frá aðstæðum sínum í viðtali við Heimildina fyrir rúmum mánuði. Þá sagði Yazan að hann hefði verið boðinn velkominn í Hamraskóla frá fyrsta degi og að þar liði honum vel.
„Þið hljótið að hafa farið með mig til himnaríkis,“ sagði Yazan við foreldra sína. Nú fær hann að vera á Íslandi í að minnsta kosti fjórar vikur í viðbót, fram að verslunarmannahelgi.
Athugasemdir (2)