Í dag er talað um eitruð sambönd og eitrað andrúmsloft. Loftið sem við öndum að okkur er mengað. En við mættum tala meira um mengun í umræðu.
Árið 2018 gáfum við Bára Huld Beck og Steinunn Stefánsdóttir út bókina Þjáningarfrelsið – Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla. Kveikjan að bókinni voru málaferli, mér hafði verið stefnt fyrir skoðanapistil um meinta ofbeit á landi. Málið vann ég tvisvar með lögmanninum Ragnari Aðalsteinssyni og loks vísaði Hæstiréttur skrípaleiknum frá. Þá upplifði ég aðstöðu sem svo margir sem ég þekki sem skrifa um samfélagsmál hafa lent í: Að óttast um tilverugrundvöll okkar mæðgina í tvö ár út af dómsmáli.
Bókin var unnin hratt og við tókum fjölda viðtala um þöggun, starf og starfsumhverfi blaðamanna, auk greina sérfróðra um efnið. Bókin fékk Fjöruverðlaunin og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en enginn græðir á svona bók. Mig minnir að við höfum endað í mínus.
Mér skilst að bókin sé notuð í kennslu í dag en hún kostaði þrotlausa vinnu þennan vetur og fram á sumar. Hún hefði getað verið brjálaðri, margt hefði getað verið í henni sem var þar ekki. Þó dýpkaði innsýn inn í veröld pr-isma og þöggunar. Meðvitund um prinsipp skerptist; ég var þá nýflutt heim frá Þýskalandi þar sem þrífst prinsipp-drifnari menning en við eigum að venjast því Þjóðverjar vita af reynslunni: Að við þurfum að vernda okkur gegn okkur. En svo er nokkuð til sem heitir afvegaleiðing umræðu.
Almenningur fær ekki að njóta vafans
Fyrir nokkrum árum kom rithöfundur frá Ungverjalandi á samkomu hjá PEN á Íslandi. Hann var spurður hvernig málin hefðu þróast í ólýðræðislega átt í Ungverjalandi. Svarið var á þá leið að valdamenn hefðu m.a. hætt að svara gagnrýni efnislega og leiddu hana frekar hjá sér eða afvegaleiddu eins og hún væri hlægileg.
Pínu fyndnir útúrsnúningar geta verið skaðlegt mein í umræðu. Stjórnmálamaður gerir eitthvað sem myndi kalla á afsögn hans í nágrannalöndum en hér verður það persónulega ofan á og athæfinu er jafnvel slegið upp í hálfkæring. Hann eða hún er svo næs ... og þess vegna fær almenningur ekki að njóta vafans.
„Hann eða hún er svo næs ... og þess vegna má almenningur ekki njóta vafans.“
Venjast því að eiga ekki marga vini
Þá að blaðamönnum með getu til að vinna í flóknum málum. Þau sem vinna af ástríðu eftir kjörorðum og reglum fagsins við rannsóknarblaðamennsku þurfa að vera þrælklár og að vissu leyti leggja persónulegt líf sitt til hliðar. Það verður hversdagslegt að fara helst ekki á mannamót og venjast því að eiga ekki marga vini.
Fólk þetta starfar í starfsumhverfi sem er nánast ómöguleiki í svo fámennu samfélagi, býr stöðugt við hættuna á að fá á sig stefnur og er vant því að vera sallað niður og ásakað um rætinn tilgang. Þó er þetta óhemju krefjandi vinna sem þarf að vinnast hratt um leið og hún krefst nákvæmni og ábyrgðar. Hún fylgir þessu fólki 24/7 – með tilheyrandi áreiti og jafnvel hótunum.
Það er ekki að ástæðulausu sem talað er um flótta úr greininni yfir í almannatengsl og kynningarstörf. Blaðamenn sem þessir eru stöðugt ásakaðir um að ganga erinda stjórnmálaflokka eða vera knúnir áfram af hagsmunum einhverra afla. Þegar þeir eru að elta staðreyndir og kanna réttmæti ábendinga.
Á sama tíma eru blaðamenn sem þessir á pari við björgunarsveitina. Án þeirra hefði samfélagið orðið af ófáum mikilvægum uppljóstrunum sem hafa bætt það, þróað og bjargað frá sjálfu sér. Og komið í veg fyrir að ótal margt hefði farið á enn þá verri veg – hefði ekki komist upp um það. Þess vegna er svo stingandi að sjá lítið gert úr störfum þeirra.
Yfirklór frekar en efnislegt svar
Að fylgjast með viðbrögðum við grein um Running Tide í Heimildinni hefur verið sláandi. RÚV fjallaði nokkru síðar um umfjöllunina en aðrir fjölmiðlar virtust hika við að fjalla um efnið – sem tengist vel metnum aðilum í samfélaginu. Eins stakk það í augun þegar fjölmiðlar birtu aðeins svör framkvæmdastjóra Running Tide við greininni sem frétt. Viðbrögðin virkuðu frekar eins og yfirklór en efnislegt svar við greininni.
Botninn tók úr þegar faglega unnin gagnrýni, byggð á áliti sérhæfðra vísindamanna og staðreyndum, var útmáluð sem afneitun á loftslagsvandanum. Verkefni sem snúa að vísindum þurfa að lúta öguðum vinnubrögðum vísindamanna – sem þurfa stöðugt að setja verk sín undir smásjá og mæta uppbyggilegri gagnrýni.
Skrýtnast var þó að sjá leikarann Benedikt Erlingsson í umræðum á Samstöðinni hefja óumbeðinn máls á umfjöllun Heimildarinnar til að ráðast bæði á Heimildina og æru þrautreyndra blaðamanna með dylgjum um að það ætti eftir að afhjúpa umfjöllun þeirra. Hann gat þó ekki vinatengsla sinna við annan stofnanda Transition Labs, þess fyrirtækis sem Running Tide hóf starfsemi í gegnum hér á landi. Manns sem undirrituð þekkir raunar líka og ber honum sérlega vel söguna en það breytir samt ekki því að grein þessi um stoðir og árangur þessa tiltekna tilraunaverkefnis var byggð á rannsóknarvinnu, áliti sérhæfðra vísindamanna og staðreyndum.
Botninn tók úr þegar faglega unnin gagnrýni, byggð á áliti sérhæfðra vísindamanna og staðreyndum, var útmáluð sem afneitun á loftslagsvandanum.
Er Benedikt Erlingsson að afvegaleiða umræðu?
Almenningur á heimtingu á að vita hvernig staðið er að tilraunastarfsemi á miðunum okkar og eins ef verkferlum hins opinbera virðist ábótavant þegar leyfi við framkvæmdir sem þarfnast sértækra leyfisveitinga eru veitt. Þegar allt grænt er vænt – og fyllsta ástæða til – þá er bráðnauðsynlegt að rýna í verkferla sem viðkoma margflóknum úrlausnarefnum og mega ekki verða til þess að útkoman skaði náttúruna frekar en hitt. Nokkuð sem getur gerst í viðkvæmum tilraunum, enda er viðfangsefnið óhemju flókið.
Benedikt gekk svo langt að tengja umfjöllunina við meint leiðindi í vinstri mönnum, mál sem hefur ekkert að gera með vinstri eða hægri. Þá gaf Benedikt til kynna að Heimildin væri að þiggja olíupeninga – sem er alvarleg ásökun – og að búa til klikkbeitur.
Hið síðarnefnda vitnar um fáfræði hans um fjölmiðla; til að skapa klikkbeitu þarftu ekki að leggja í margra mánaða langa rannsóknarvinnu, eins og raunin var við gerð umræddrar greinar, heldur væri nóg að skrifa fyrirsögnina: Er Benedikt Erlingsson að afvegaleiða umræðu?
Eftir þessa söluræðu Benedikts virkar kvikmyndin Kona fer í stríð svipað og ef Ólafur Ólafsson myndi gera heimildamynd um bankahrunið. Umfjöllunin var eftir tvo margverðlaunaða blaðamenn, annað þeirra er einn reyndasti blaðamaðurinn í faginu við að skrifa um mál sem snúa að vísindum og náttúru; þekkt fyrir yfirburða blaðamennsku. Við Benedikt vil ég segja: Trúðar eru fyndnir og sorglegir. Þessi var bara sorglegur!
Eftir þessa söluræðu Benedikts virkar kvikmyndin Kona fer í stríð svipað og ef Ólafur Ólafsson myndi gera heimildamynd um bankahrunið.
Eyðir viðmiðum að hvítþvo mál
Ef bæta á heiminn er ekki síður mikilvægt að gefa kost á því að skoða það sem hefði mögulega mátt hugsa betur.
Rithöfundar venjast því að þurfa að taka við opinberri gagnrýni. Stundum er hún niðurlægjandi og svo vond að vinna í nokkur misseri er unnin fyrir gýg. Oft finnst höfundi hún ekki sanngjörn. Hægt er að gera athugasemdir ef höfundur telur gagnrýnandann ekki vera í réttmætri aðstöðu til að fjalla um bókina sína en óskrifaða reglan er sú að þú mótmælir aldrei gagnrýnanda. Þú hringir ekki í almannatengil og vinir þínir, með engan faglegan bakgrunn í sértæku máli, mæta ekki í umræðuþætti til að „leiðrétta“ gagnrýnina með aðdróttunum.
Ólíkt höfundi býr stjórnmála- og viðskiptafólk oft að styrku baklandi með aðstoðarmenn, spunameistara og traust fjármagn – og svo framvegis. Í slíkri aðstöðu er engum vorkunn að þurfa að taka umræðuna.
Niðurstaðan við gerð Þjáningarfrelsisins var að ábyrgðin býr líka hjá neytendum fjölmiðla. Í raun hjá öllum þeim sem taka þátt í umræðu samfélagsins. Við þurfum að kunna sundtökin. Vita hvenær við erum ekki í aðstöðu til að tjá okkur um mál – nema þá geta tengsla og hvers konar hagsmuna. Ekki reyna að hvítþvo alvarleg mál þar sem það eyðir því að nokkuð hafi merkingu – og um leið hvers konar heilbrigðum viðmiðum.
Hér á landi vantar oft svo mikið upp á að prinsippum sé haldið á lofti. Að það sé ríkjandi meðvitund um aðstöðu; úr hvaða átt hvaða rödd kemur og á hvaða forsendum. Þáttastjórnendur þurfa af heilindum að kanna tengsl viðmælenda við umræðuefnið. Þá bera stjórnmálamenn líka ríka ábyrgð, hvernig þeir umgangast fjölmiðla. Við öll.
„Við þurfum betri viðmið“
Undirrituð hefur velkst í umræðu frá unga aldri, skrifað skoðanapistla síðan hún var 24 ára og nánast sleitulaust síðan 2003 – en finnst eins og nú sé nokkuð skrýtinn stemmari í gangi. Eins hefur maður á fullorðinsárum búið í þremur öðrum Evrópulöndum að fylgjast með fjölmiðlum – þar sem þessi meðvitund um prinsipp virðist ólíkt styrkari og þroskaðri. Svo jú, mætt ytra í viðtöl hér og þar og stundum spottað efnistök tengdum verkum mínum – eins og í bókablaði Politiken þar sem rýnirinn sem tók viðtalið mátti því ekki dæma bókina mína. Má ekki þekkja höfundinn! Bara vinnulagsreglur. Gagnsæi verður að vera til staðar.
„Þá er mikilvægt að fjölmiðlar og borgarasamtök séu virk og geti bent á spillingarvanda í opinberri umræðu. En við þurfum betri viðmið. Þó ekki sé nema til að eiga sömu möguleika á að takast á við spillingarhættur og nágrannalöndin,“ sagði Jón Ólafsson, heimspekingur og þáverandi formaður Gagnsæis, í viðtali í Þjáningarfrelsinu.
„Þá er mikilvægt að fjölmiðlar og borgarasamtök séu virk og geti bent á spillingarvanda í opinberri umræðu.“
Samtakamáttur áhrifafólks
Þegar ég birti esseyju um forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur og reyndi að greina birtingarmynd þess og upplifun fólks á því, þá gagnrýndi ég hana ekki persónulega heldur leitaðist við að kasta upp mynd af áhrifamætti þess þegar félagslega vinsæll forsætisráðherra hættir skyndilega til að fara í forsetaframboð – og aðstöðumun sem þá skapast. En notaðist við ákveðið orðfæri um góðborgara og auðmagn í tilraun til að ná utan um pælingarnar.
Ég minntist á anda elítu – og með því gildishlaðna orði var átt við samtakamátt áhrifafólks í samfélaginu, en sjálf greinin miðaði að spurningum sem leituðu á marga vegna framboðs við svo sérkennilegar aðstæður. Margir virtust eiga erfitt með hvernig staðið var að þessu – líkt og niðurstöður kosninganna leiddu síðar í ljós. Engu af því var svarað efnislega í mótgreinunum – á þann hátt sem margir hefðu þurft að heyra til að fá svörun við því sem angraði þá. Raunar svo að óróleikinn var viðbúinn áfram hefði Katrín orðið þetta sameiningartákn þjóðarinnar. Sem er ekki hollt fyrir samfélagið – sama hvað hverjum finnst.
Kvenhatandi, móðguð og öfundsjúk að daðra við Trumpisma
Skoðanapistlar þurfa að vera ögrandi og lýsa upp það sem liggur í loftinu. Meðal annars gagnrýndi ég viðbrögð við gagnrýni á framboðið. Sú gagnrýni virtist réttmæt þegar nokkrir aðilar skeiðuðu fram á ritvöllinn á mettíma, birtu greinar ýmist á Vísi, RÚV og í Heimildinni – og gagnrýni á framboðið var ýmist útmáluð sem kvenhatur, Trump-ismi, vandlæting & móðgun – og frústrasjón yfir velgengni annarrar konu.
Í skrifunum var ég ekki að þykjast ekki vera einhver góðborgari – fer ekki dult með að ég hef aðgengi að áheyrn. Það að ég hefði nefnt anda elítu var eitt gripið úr langri grein til að breiða yfir pælingar um hvernig áleitnar spurningar trufluðu marga meðan áhrifafólk hópaðist saman, að því er virtist andvaralaust, til að lýsa yfir stuðningi við fyrrverandi forsætisráðherra. Orðið var gripið á lofti í svargreinunum og notað til að afvegaleiða spurningar um álitamál varðandi virkni lýðræðis, nauðsyn gjár milli þings og þjóðar og annað sem mörgum fannst réttar að ræða.
Orð og merking afbökuð
Ragnar Kjartansson prumpaði framan í mig, tilkynnti að hann væri elíta og að Katrín væri frábær – sem varð til þess að fólk póstaði gömlu kosningavídeói með honum að styðja Katrínu svo Bjarni Ben kæmist ekki til valda!
Grein um kvenhatur í garð Katrínar eftir Jón Ólafsson birtist grunsamlega stuttu eftir mína og vakti umræðu um hvernig hægt er að misnota femínisma sem áróðurstæki. Annar prófessor birti grein þar sem bæði greinin og persóna mín voru tvinnaðar saman við keimlíkan málflutning. Stjórnmálafræðingur sem kennir við HÍ nefndi grein sína Vandlæting Auðar – og uppnefndi mig þar með listamannsnafni afa míns heitins sem var fæddur 1902.
Allavega þrír af greinarhöfundum hafa áður haft hagsmunatengsl við Katrínu. Reynt fólk segir mér að á síðustu metrunum fari engin grein af þessum toga út nema í samráði við frambjóðandann. En það er pínu trist að sjá sérfræðinga og listamenn í augnabliksákafa álpast í skó almannatengla, jafnvel grandalausa því menningin hér býður upp á það. Nokkuð sem þarf að varast í næstu kosningum.
Sjálfsagt er að skrifa grein til að svara skoðanapistli – sem skrifaðir eru til að tendra umræðu. Öðru máli gegnir þegar mann grunar að fjórar manneskjur í áhrifastöðu hafi leitast við að afvegaleiða grein til að eyða innihaldi hennar í aðdraganda kosninga – í stuðningi við ákveðinn frambjóðanda. Einhverjir virtust varla hafa lesið orð mín í ákafanum að afbaka þau og jafnvel gera mér upp meiningar eða leggja út frá merkingu sem var aldrei þar.
Í nafni þjáningarfrelsis
Ég er ekki í stjórnmálaflokki, geng engra erinda og spái lítið í þetta forsetaembætti. Hvað þá að ég sjái ofsjónum yfir að kona verði forseti. Gæti alveg eins þæft að í einhverjum af þessum pistlum hafi gætt kvenfyrirlitningar gagnvart mér. Og þetta snýst ekki um vinstri eða hægri.
Þetta snýst um að reyna að lýsa upp álitamál almennings og fanga það sem blasir við að sé í gangi – og hafa frelsi til að viðra efasemdir um það í aðdraganda kosninga. Ef maður upplifir að gengið sé á skrifin með óeðlilegum hætti er einnig skylda manns að benda á það. Í nafni þjáningarfrelsis eigum við ekki að vera hrædd við að velkjast í umræðu heldur reyna að læra við hver mistök – sem við gerum öll stundum – og muna að hún er vera. Eins konar guð.
Athugasemdir (4)