Það er 27 stiga hásumarhiti þennan þriðjudag, seint í maí. Ég geng í gegnum grasagarðinn í Uppsölum á leiðinni til baka í vinnuna eftir að hafa tekið þátt í mótmælafundi í miðbænum gegn stríðinu sem geisar í Gaza. Ég lagði af stað til baka áður en mótmælin voru búin því ég vildi ná áttum áður en ég þarf setja mig í kennarastellingarnar og taka við nemendum mínum.
Ef maður kvelst af oftrú á fegurð heimsins getur upplestur af nánast óendanlegum lista yfir saklaus fórnarlömb í Palestínu og óhugnanlega lágum aldri flestra þeirra svo sannarlega hrist upp í manni.
Á Fróni eru trén varla byrjuð að laufgast
Systir mín sem býr á Íslandi sendi mér skilaboð í gær: „Ég pakka hérna eins og ég sé að fara til Tene“. Hún ætlar að heimsækja okkur og vera fulltrúi fjölskyldunnar á lokatónleikum skólakórs unglingsdóttur minnar. Munurinn á veðrinu í Svíþjóð og á Íslandi verður varla meiri en þennan maímánuð. Á Fróni eru trén varla byrjuð að laufgast og grasið glóir gult í bakgrunni myndanna sem ég fæ sendar af bróðurdóttur minni í norðurpólsvorinu, kappklæddri í hlýjan, vatnsheldan fatnað, vettlinga og húfu.
Í Svíþjóð hefur maí verið óvenju hlýr í ár og gróðurinn keppist við að bresta út eins og flugeldasýning í blóma og þar sem ég fer sveittur úr jakkanum mínum í skugga trjánna í grasagarðinum verður mér næstum ofviða. Gróðurangan og blómstrandi greinar svo marglitar að ég á ekki orð til að lýsa þeim. Grænt laufþakið ber við heiðskíran bláma himinsins og svalir skuggar smeygja sér milli laufblaðanna þegar hlý gjólan leikur um greinarnar. Fuglarnir tísta kæruleysislega um landamæri sín og lendur.
Gult gras og berar greinar eru litir maímánaðar á Íslandi. Þar virðast veðurguðirnir hafa sofið yfir sig og þurfa því að umbreyta síðvetri í sumar á örfáum vikum og byrja haustið svo snemma til öryggis, helst strax í ágúst. „Enn einn dagurinn með 9 stiga hita og rigningu“. „Hef ekki séð til sólar í margar vikur“. Sólarsjúkir Íslendingar leita leiða í hitann; meira að segja Svíþjóð getur virkað freistandi þegar það er Tenerifeveður hér, en í samanburði við rigningarmagnið á Íslandi hefur í raun ekki rignt hér að neinu ráði í langan tíma.
Eins og granni minn og ellilífeyrisþegi sagði þegar ég minntist á morgunskúrina sem kom á fimmtudaginn síðasta: „Já, við fengum heila tvo millimetra, það var ekki meira en svo.“ Tjarnir og skurðir eru að þorna upp og stöðuvötnin grynnka dag fyrir dag. Halakörturnar reyna að synda gegnum leðjuna sem hefur tekið stað pollanna þar sem þær klektust úr eggjunum sínum. Hegrinn er ekki einu sinni hungraður í hitanum, hann stendur þarna grámóskulegur og mjósleginn og vantar bara sígarettu í gogginn til að vera eins og fiðraður gothari.
Hásumarhiti en ekki hásumar
Veðrið þessa dagana minnir á sumarið 2018 þegar það var svo heitt og þurrt að vökvunarbann og vatnsskömmtun var fyrirskipað víða um land í Svíþjóð. Á kvöldin tendraði himinninn von í okkur með þrumum, en ekki einn einast dropi féll – þess í stað kveiktu eldingarnar sem teygðu sig til jarðar í þurrum gróðrinum. Öll tilveran hvíslaði „rigndu, gerðu það, rigndu“ en fékk bara rymjandi þrumur sem svar. Í ár fáum við ekki einu sinni þrumur hér og grasflatir sveitarfélagsins sem eru slegnar samkvæmt stundatöflu frekar en hæð grassins, eru farnar að gulna. Hásumarhiti Svíþjóðar teygir sig í litaspjöld ískalds vorsins á Íslandi og grænir litirnir gulna í þurrkunum.
Það er alltof heitt fyrir þennan árstíma svona norðarlega; nei, of heitt punktur – það þarf ekkert að breiða yfir það. Samtímis látum við eins og þetta sé bara eðlilegt ástand. Samstarfsfólk mitt talar um að „njóta veðursins meðan það varir“ því „það er aldrei að vita hvort það verði gott sumar“ en á bak við kaffisjálfsalaspjallið leynist það hræðilega innsæi að fagnaðarfyrirsagnir blaðanna um að „hásumarhitinn er kominn til að vera!“ ætti að lesa eins og heimsendaspár og hryllingsmyndatitla.
Það er hásumarhiti en ekki hásumar. Dagatalslega séð er ekki einu sinni komið sumar. Þetta eru merki um loftslagshamfarirnar sem eiga sér stað alls staðar, þó með mismunandi afleiðingum. Eins og venjulega fáum við norðurbúar mildari afleiðingar af katastrófunum.
Það er óvenju hlýtt í Svíþjóð, en samtímis er nærri 50 stiga hiti í sumum löndum sunnan og austan við okkur. Hrikalegur, lífshættulegur, banvænn hiti. Óþægindin hér á Norðurlöndunum virðast mild í samanburðinum. Í Svíþjóð verður of heitt og of þurrt í maí, of mikið af bitmýi í júní og skíðatímabilið styttist svolítið með hverju árinu.
Á Íslandi verða vor- og hauststormar tíðari og sterkari, sumrin blautari og veturinn grárri. Í Miðausturlöndum, Asíu og Suður-Ameríku deyr fólk hins vegar úr hita. Hér lifum við veðrið af alla vega. Enn sem komið er.
Og við ýtum undir vandamálið með flugferðum okkar og bílum og brjálæðislegri neyslunni.
Við?
Ég.
Ég skal ekki fela sekt mína í fleirtölu. Ég ber líka ábyrgð á ástandi heimsins, en á sama tíma – kannski einmitt þess vegna – virðist ómögulegt að breyta neinu. Að hægja á þróuninni. Að finna grundvöll fyrir framtíðartrú. Blekkingin að maður geti verslað sig úr loftslagsvánni springur eins og þurr moldin í gulnandi grasflötinni minni.
Get ég sefað loftaslagssamviskubit mitt með því að vera grænmetisæta? Með því að keyra rafbíl og kaupa jakka á flóamarkaði frekar en nýja? Það að bæta gatið á gallabuxunum mínum, flokka ruslið og að nota taupoka þegar ég versla fyrir vikuna dugar ekki til að vega upp ferðir mínar til Íslands. Sjálfsblekkingin lýsir sér best í því að það er allt of hlýtt til að vera í jakka í dag, þótt hann hafi verið keyptur á flóamarkaði.
Í Palestínu er það ekki loftslagið sem drepur heldur pólitískt aðgerðaleysi
Í Palestínu er í augnablikinu ekkert voðalega heitt í veðri, bara aðeins hlýrra en hér í Svíþjóð, svo fólkið deyr að minnsta kosti ekki úr hita þar. Fyrir utan þau sem urðu fyrir eldflaugum í „taktískum árásum“ og brunnu upp í tjöldunum sínum í Rafah, eða sem krömdust undir húsarústum. Þegar það kemur að Palestínu er það ekki loftslagið sem drepur heldur pólitískt aðgerðaleysi. Alþjóðlegt pólitískt getuleysi.
„Eldur varð vegna þess að Hamas hafði komið fyrir eldsneytisgámum nálægt búðunum,“ skrifa ísraelskir stjórnmálamenn. En ef ísraelski herinn getur skotið einstaka leiðtoga Hamas með taktískum eldflaugum gegnum skráargöt fornra hurða húsanna sem enn eftir standa hljóta þeir að geta fundið út hvar eldsneytisgámarnir eru áður en þeir ýta á gikkinn.
Þeir hljóta að geta varist því að lenda sprengjum sínum þar sem tjaldbúðir standa, yfirfullar af flóttafólki frá þessu viðurstyggilega stríði og sofandi börnum. Hvernig getur stjórnmálafólkið okkar staðið mállaust frammi fyrir yfirgengilegum hörmungunum? Hvernig geta þau þóst að þau sjái ekki það sem gerist?
Mörg þeirra eru sennilega jafn máttlaus og ég sjálfur frammi fyrir hryllingnum. Ég endurtísti örvæntingunni á Twitter, set Palestínufánann í Instagram-reelin mín og deili greinum á Facebook. Ég kem við á mótmælafundum nemenda háskólans og heimsæki tjaldbúðir „Frjálsa háskólans í Gaza“ sem voru reistar við háskólabókasafnið í Uppsala til að minna á að það eru engir palestínskir háskólar eftir á Gaza. Þeir hafa allir verið jafnaðir við jörðu og bókasöfnin brennd.
Þessar aumingjalegu tilraunir mínar eru of litlar til að skipta máli einar og sér, því hvaða aðgerðir einstaklinga eða deilingar þeirra á samfélagsmiðlum gætu ögrað sterkustu herjum heimsins sem hlýða hverri skipun brjálæðinga sem vilja bara sjá dauða og eld og enn meiri dauða? Engar, en saman eigum við að minnsta kosti fræðilegan möguleika. Þess vegna eru mótmælin svo mikilvæg. Þess vegna skiptir máli að segja eitthvað. Samstaðan er mikilvæg og vaxandi þótt verk hvers og eins virðist lítið.
Ég stíg undir skugga eins af kastaníutrjám grasagarðsins og tek mynd af blómum þess. Ég anda að mér ilmi vorsins og reyni að skrúfa fyrir meðvitund mína um hamfarir heimsins. Reyni að fanga hugsanir mínar og leiða þær til hversdagsleikans. Ég finn enn fyrir taktföstum hrópum mótmælanna í líkamanum, lófarnir sárir eftir að hafa klappað með:
„Uni, uni, you can‘t hide! You‘re supporting genocide!“
Dyrnar að húsinu sem hýsir stjórnsýsludeild og rektor háskólans hafa verið læstar frá því að mótmæli voru haldin við bygginguna í síðustu viku. Enn ein tilraunin til að loka hið hræðilega úti – en hið hræðilega hér eru ekki mótmæli nemenda og starfsfólks heldur það sem mótmælin vilja vekja athygli á:
„You‘re supporting genocide!“
Með því að forðast virka afstöðu á móti því sem gerist tekur stofnunin afstöðu með því sem gerist. Það er engin leið að vera hlutlaus gagnvart hryllingi. Það að læsa það erfiða úti leysir ekki stofnunina undan ábyrgð sinni, en aðgerðin getur verið skiljanleg frá sjónarhorni einstaklingsins – hér er þrátt fyrir allt fullt af fólki sem vill fara í vinnuna og vinna hana og finna til öryggis á vinnustað sínum.
Ég er einn af þeim, einn af þeim sem fer í vinnuna, heldur fyrirlestra, stundar rannsóknir og skrifar bókarkafla og greinar – eins og það skipti einhverju máli í ástandi heimsins. En sú krafa er gerð til okkar að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist þrátt fyrir miskunnarleysi hörmunga heimsins. Lifið í misræmi meðvitundarinnar og látið eins og ekkert sé.
Ég geng í gegnum grasagarðinn í átt að vinnustaðnum mínum sem stendur við hinn enda garðsins. Nemendur mínir bíða þar eftir að fá að verja lokaritgerðirnar sínar og í dag er það er mitt hlutverk að vera prófdómari þeirra. Rétt eins og ekkert annað hafi í skorist. Ég verð að hrista af mér vanlíðanina, þrauka hitann og klæða mig í jakkann minn aftur; fara í mitt faglega hlutverk sem kennari við háskólann.
Ég horfi aftur í átt að blómstrandi trjánum. Með bleiku höll Uppsala í bakgrunninum virðist þessi staður allt í einu óendanlega fallegur, eins og staður handan tíma og rúms...
Og við mörk garðsins, uppvið múrinn næst höllinni, standa kastaníutrén og blómstra.
Eins og ekkert hafi í skorist.
Athugasemdir (2)