Níu þúsund og fimm hundruð manns börðust um á örlitlu svæði í sjónum. Þrjú tundurskeyti frá sovéska kafbátnum S-13 höfðu sprengt sér leið inn í skrokk hins 25.000 tonna farþegaskips Wilhelm Gustloffs.
Þetta var í lok febrúar 1945. Ég hef sagt frá aðdraganda þess í undanförnum tveim flækjusögum — frá Alexander Marinesko, skipstjóra S-13, sem yrði vafalítið dreginn fyrir herrétt þegar í land kæmi – frá Hannibals-áætlun þýskra yfirvalda sem var ætlað að flytja sem mest af þýskum hermönnum frá Eystrasaltslöndunum og Póllandi til Þýskalands svo þeir gætu haldið áfram baráttunni gegn óaflátanlegri sókn Rauða hersins þaðan.
Ískaldur vetrarsjór
Það var ekki helsta takmark Hannibals að frelsa óbreytta borgara á flótta undan hermdarverkum og hefndarþorsta sovésku hermannanna en fjöldinn allur beinlínis tróð sér um borð í skipin sem lögðu upp á síðustu stundu frá Gotenhafen (Gdynia) og um borð í Wilhelm Gustloff var raunar stór meirihluti þeirra þúsunda sem skipið flutti venjulegt fólk.
Þar á meðal þúsundir barna.
En eftir að Wilhelm Gustloff hafði marað í hálfu kafi í 40 mínútur sökk skipið og þúsundirnar svömluðu um í ísköldum vetrarsjónum og næturmyrkri 30 kílómetra norður af strönd Pomeraníu sem nú tilheyrir Póllandi.
Frá Grænlandssundi til Eystrasalts
En svo hélt fólkið sem barðist um í sjónum að það hefði dottið í lukkupottinn.
Risastór skuggi kom siglandi utan úr myrkrinu í austri, þýska beitiskipið Admiral Hipper. Fyrstu stríðsárin hafði þýska útvarpið iðulega sagt fréttir af þessu knáa og öfluga skipi sem jafnaðist á við Wilhelm Gustloff að lengd.
Það hafði tekið þátt í innrás Þýskalands í Noreg og í desember 1940 laumaðist skipið suður með Vestfjörðum út á Atlantshaf þar sem það leitaðist við að sökkva flutningaskipum sem fluttu Bretum nauðsynlegar vistir frá Ameríku. Í desember tveim árum seinna var Admiral Hipper svo kominn í Barentshaf og réðist að skipalest sem flutti Rauða hernum hergögn og vistir frá vestrænum bandamönnum.
Herskip heldur heim
Eftir það hafði beitiskipið legið að mestu í höfn í Gotenhafen og drabbast niður og í janúar 1945 var stærstur hluti áhafnarinnar settur í að grafa skotgrafir gegn aðsteðjandi sókn Rauða hersins. Þá var ákveðið að flytja skipið til viðgerða í Þýskalandi og 1.500 flóttamenn tróðu sér um borð þótt skipið væri ekki hluti af Hannibals-áætluninni.
Hipper lagði úr höfn skömmu á eftir Wilhelm Gustloff og var nú þarna kominn í kjörstöðu til þess að bjarga þúsundum skipbrotsmanna sem börðust um í sjónum. Hávær gleðióp kváðu við í sjónum þegar Hipper nálgaðist en þau breyttust jafnharðan í örvæntingarfull neyðarhróp og reiðiöskur þegar skipstjóri beitiskipsins, Hans Henigst, neitaði að gefa skipun um að stöðva siglingu sína til að bjarga fólki.
Var honum þó fullljóst hvað gerst hafði og að hann gæti bjargað þúsundum mannslífa.
Það var samt óþægilegt ef Rauði flotinn færi að hreykja sér beinlínis af því að hafa drepið þúsundir óbreyttra borgara
Forkastanleg ákvörðun – eða skiljanleg?
Frá mannúðarsjónarmiði var ákvörðun Henigsts forkastanleg en frá sjónarmiði skipstjóra á stóru herskipi var hún bæði skiljanleg og í raun sjálfsögð. Henigst mátti vita að kafbáturinn sem sökkt hafði Wilhelm Gustloff væri enn á sveimi í nágrenninu og með því að stöðva lagði hann beitiskipið sitt og alla þar um borð í gríðarlega hættu.
Henigst sigldi því hjá en svolítil huggun harmi gegn var að hann fyrirskipaði fylgdarskipi sínu, stórum tundurskeytabát að nafni T36, að verða eftir og bjarga eins mörgum skipbrotsmönnum og hægt væri. Svo fór að 536 manns var bjargað um borð í T36. Þó nokkrum var einnig bjargað um borð í tundurskeytabátinn Löwe.
En sjórinn luktist um allt að níu þúsund manns, réttláta sem rangláta, konur, börn, gamalmenni, hermenn sem húsmæður. Sögurnar sem varðveist hafa af drukknandi deyjandi fólki, þær eru ægilegar.
En örvæntingarópin hljóðnuðu að lokum þegar skipið sökk til botns á ekki nema 44 metra dýpi. Sjálft var skipið rúmir 200 metrar að lengd.
Öðru farþegaskipi sökkt
Það var ekki að ófyrirsynju að Henigst óttaðist árás. Marinesko var enn á svæðinu í kafbáti sínum S-13 og hefði vitaskuld ráðist að Admiral Hipper ef hann hefði fengið tækifæri til. Hann var kominn með „blod paa tanden“ eins og Danir segja. Það sýndi hann þann 9. febrúar þegar annað þýskt farþegaskip sem tók þátt í Hannibals-áætluninni kom fyrir sjónpípu hans.
Það var ekkert smá skip, frekar en Wilhelm Gustloff: General von Stauben, 15.000 tonna skip og um borð um 5.500 manns – þar af helmingurinn særðir hermenn. Marinesko skaut tveim tundurskeytum með nokkurra sekúndna millibili og hittu bæði mark sitt. Þetta var á mjög svipuðum slóðum og þar sem Wilhelm Gustloff sökk en þó töluvert nær landi.
Gamall tundurskeytabátur í fylgd með Steuben bjargaði um 300 manns úr sökkvandi skipinu og nálæg skip björguðu öðrum eins fjölda úr sjónum en talið er að allt að 4.500 hafi farist. Tölur um manntjón eru þó mjög á reiki, ekki síður en varðandi Gustloff.
Ægilegt manntjón
Marinesko og áhöfn hans hafði því valdið dauða hátt í 15.000 manns á tíu dögum. Langflest voru óbreyttir borgarar.
Þessi tvö stóru skip dugðu til þess að Alexander Marinesko var sá kafbátamaður í Rauða flotanum sem náði mestum árangri í stríðinu í tonnum talið. Og árangurinn dugði líka til þess að yfirvöldin hættu við að leiða hann fyrir herrétt vegna „liðhlaups“ með sænsku stúlkunni kátu sem sagði frá í grein á þessum vettvangi fyrir hálfum mánuði.
Hins vegar var eins lítið gert úr afrekum skipstjórans og kostur var. Þegar S-13 kom til hafnar var engin móttökuathöfn eins og hefð var fyrir eftir vel heppnaðan leiðangur. Marinesko fékk heiðursmerki Rauða fánans en hefði í raun mátt búast við töluvert fínni orðu.
Marinesko lækkaður í tign
Þegar stríðinu var lokið var hann lækkaður í tign og réttur og sléttur sjóliðsforingi á ný, enda sögðu aðmírálar Rauða flotans hiklaust að hann væri ekki „efni í sósíalíska hetju“.
Marinesko var þó áfram í flotanum en drykkjuskapur hans jókst og bera fór á fleiri kvillum. Afreksverki hans var lítt eða ekki haldið á lofti í áratugi eftir stríðið og voru fyrir því ýmsar ástæður.
Sovétmenn (og þeirra vestrænu bandamenn) vildu forðast að vekja samúð með Þjóðverjum yfir hinu gríðarlega mannfalli meðal óbreyttra borgara og sér í lagi ekki beina athyglinni um of að flótta Þjóðverja frá Prússlandi og Eystrasaltslöndunum undir lok stríðsins.
Marinesko hafði vissulega sýnt færni og hæfni við að „ná“ Wilhelm Gustloff en það var samt óþægilegt ef Rauði flotinn færi að hreykja sér beinlínis af því að hafa drepið þúsundir óbreyttra borgara.
Samviskuspurningar
Marinesko sjálfur glímdi við samviskuspurningar vegna þess arna en sagði ævinlega þegar Gustloff kom til tals að hann hefði einfaldlega ekki haft um neitt að velja annað en senda tundurskeyti sín af stað. Það hafði verið skylda hans sem stríðsmanns að sökkva hverju skipi óvinarins sem hann komst í færi við og hann hafi heldur ekki vitað hverjir væru um borð í Wilhelm Gustloff.
Vissulega hafi hann reiknað með því að þar væru svo og svo margir saklausir óbreyttir borgarar og þess vegna konur og börn, en þar gætu líka hafa verið þúsundir hermanna sem biðu þess eins að halda áfram baráttu sinni gegn Rauða hernum þegar til Þýskalands kæmi.
Og svo ef í harðbakkann sló, þá mátti grípa til þeirra óbilandi raka til að friða hugann að hinir „saklausu óbreyttu borgarar“ Þýskalands höfðu ekki beinlínis kvartað þegar þýskir hermenn frömdu ægileg hermdarverk á saklausum óbreyttum borgurum Sovétríkjanna eftir innrásina 1941.
Hetja Sovétríkjanna eftir 45 ár
Eftir því sem árið liðu mildaðist viðhorf yfirmanna Rauða flotans í garð hinnar óþægilegu kafbátahetju sinnar. Árið 1960 var hann aftur hækkaður upp í tign kafteins og 1963 fór loks fram móttökuathöfnin sem sleppt hafði verið á útmánuðum 1945 þegar S-13 kom til hafnar í Leníngrad eftir að hafa sökkt Wilhelm Gustloff og General von Stauben.
En þá var Marinesko dauðvona úr krabbameini og lést fáeinum mánuðum síðar.
Það var svo einn af duttlungum tilverunnar að eitt af hinum síðari verkum Mikhaíls Gorbatsjov, síðasta leiðtoga Sovétríkjanna, að veita Alexander Marinesko fulla uppreisn æru að honum látnum með því að sæma hann nafnbótinni „hetju Sovétríkjanna“ árið 1990.
Athugasemdir