Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur bætt lítillega við sig fylgi samkvæmt nýjustu kosningaspá Heimildarinnar og mælist nú með 23,6 prósent. Það tryggir henni forystu í kapphlaupinu á Bessastaði en hinir þrír frambjóðendurnir sem hafa verið að keppa við hana um mest fylgi síðustu vikur hafa allir sigið síðustu daga og vikur. Fylgið sem Katrín er að mælast með er við það minnsta sem hún hefur haft frá því að hún kynnti framboð sitt snemma í april. Það myndi samt sem áður duga henni að óbreyttu til að verða næsti forseti Íslands.
Sá meðbyr sem Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri hafði framan af kosningabaráttunni, og náði hámarki í byrjun marsmánaðar, virðist vera kyrfilega yfirstaðinn. Í kosningaspá sem gerð var 6. maí, fyrir um tveimur vikum síðan, mældist Halla Hrund með 31 prósent fylgi og marktæka forystu á Katrínu, sem mældist þá með 25 prósent. Síðan þá hefur Halla Hrund tapað um þriðjungi fylgis síns og mælist nú með 20,8 prósent. Hún er nú nær Baldri Þórhallssyni, prófessor í stjórnmálafræði, sem situr í þriðja sæti með 18 prósent fylgi, en hún er Katrínu, sem leiðir baráttuna sem stendur.
Þrefaldast á tveimur vikum
Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team, er sá frambjóðandi sem er að bæta mestu við sig. Hún er nú komin upp í 15,4 prósent fylgi og hefur rúmlega þrefaldað það á tveimur vikum. Halla er eini frambjóðandinn nú sem bauð sig líka fram 2016, síðast þegar nýr forseti var kosinn, og átti þá mikinn endasprett sem skilaði henni á endanum 27,9 prósent atkvæða á kjördegi. Fylgi hennar nú mælist mun meira en það gerði þegar jafn margir dagar voru í kosningar þá, en árið 2016 var Halla að mælast með tæplega níu prósent fylgi tólf dögum áður en kosið var.
Leikarinn og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, hefur haldið nokkuð stöðugu fylgi í marsmánuði og mælist nú með stuðning 12,3 prósent kjósenda. Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður og fyrrverandi dómari, er sá sem mælist vinsælastur þeirra sjö sem ná ekki tveggja stafa fylgi, en alls segjast 5,8 prósent ætla að kjósa hann.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona hefur verið pikkföst í sléttu 1,5 prósent fylgi vikum saman og virðist ekkert ætla að haggast í aðra hvora áttina af þeim stað. Þeir fimm sem eru í framboði en hafa ekki verið nefndir hér mælast svo samanlagt með 2,6 prósent fylgi, eða tæplega helming þess sem Arnar Þór, sá frambjóðandi sem situr í sjötta sæti eins og er, mælist með.
Allt stefnir því í að næsti forseti Íslands verði kosinn með stuðningi undir fjórðungs þjóðarinnar. Það yrði langminnsta hlutfall atkvæða sem forseti hefur verið kosinn með, en það met á Vigdís Finnbogadóttir sem stendur. Alls kusu 33,8 prósent þeirra sem greiddu atkvæði árið 1980 hana sem nýjan forseta lýðveldisins.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspá Heimildarinnar er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig.
Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar reglulega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdraganda kosninga.
Fylgisaukning Höllu T virðist einkum vera á kostnað fylgis Höllu Hrundar. Þannig gætu atkvæði greidd Höllu Tómasdóttur tryggt Katrínu sigur.
Það lítur út fyrir að Halla Tómasar ætli sér að endurtaka leikinn frá 2016 þegar hún skautst uppí tæp 28% á lokametrunum. Flestir sem ákváðu sig á kjördag virðast hafa kosið hana. Kannski þeir geri það aftur?