Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team, er kominn með 11,9 prósent fylgi samkvæmt nýjustu kosningaspá Heimildarinnar. Hún hefur næstum þrefaldað fylgi sitt á tíu dögum og er eini frambjóðandinn með umtalsvert fylgi sem er að bæta vel við sig síðustu daga. Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri er enn sá frambjóðandi sem mælist með mest fylgi en það er nú komið niður í 24,7 prósent og hefur ekki mælst minna síðan 26. apríl. Fylgi hennar hefur dalað um rúmlega sex prósentustig frá því í byrjun mánaðar og lækkað milli kosningaspáa í fimm skipti í röð.
Nær enginn munur er nú á Höllu Hrund og Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, sem mælist með 23,6 prósent fylgi. Katrínu hefur þó tekist að halda sínu fylgi mun stöðugra síðustu daga og vikur en Höllu Hrund. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, er enn í þriðja sæti með 17,8 prósent fylgi en stuðningur við hann hefur dalað í tíu af síðustu ellefu kosningaspám og hefur aldrei mælst minni en nú. Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri, er að mælast á mjög svipuðum slóðum og Halla Tómasdóttir með 12,3 prósent fylgi en það örlar þó á upptakti í fylgisþróun hans.
Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður og fyrrverandi dómari, er sjötti með 5,3 prósent fylgi og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona mælist með 1,5 prósent stuðning. Hinir fimm frambjóðendurnir mælast samanlagt með 2,8 prósent fylgi.
Meiri fylgisaukning en 2016
Sá forseti Íslandssögunnar sem kosinn hefur verið með minnstu hlutfalli atkvæða er Vigdís Finnbogadóttir þegar hún sigraði forsetakosningarnar 1980. Þá fékk hún 33,8 prósent atkvæða. Miðað við stöðu mála í kosningaspánni nú mun næsti forseti að óbreyttu verða kosinn með mun lægra hlutfalli atkvæða, og jafnvel með stuðningi minna en fjórðungs þjóðarinnar.
Þó verður að taka tillit til þess að fylgið er enn á töluverðri hreyfingu og skoðanakannanir sýna að fjölmargir kjósendur eru enn óákveðnir um hvern þeir ætli að kjósa. Miðað við þá þróun sem varð í kosningunum 2016, þeim síðustu sem haldnar hafa verið þar sem nýr forseti var kosinn, þá er ekki ósennilegt að drjúgur hluti kjósenda sem sér ekki leið fyrir sinn frambjóðanda þegar að kosningunum kemur ákveði að færa atkvæðið á annan frambjóðanda sem á möguleika á sigri og þeim líst betur á en aðra sigurstranglega.
Sá frambjóðandi sem naut þeirrar sveiflu hvað mest árið 2016 var einmitt Halla Tómasdóttir, sem er eini frambjóðandinn nú sem var líka í framboði þá. Fylgisþróun hennar í ár og fyrir átta árum er raunar með ólíkindum svipuð.
Hún byrjaði bæði skiptin mjög hægt og með ákaflega lítið fylgi. Tæpum þremur vikum fyrir kosningar var hún þá sem nú komin upp í um átta prósent fylgi. Nú, þegar fimmtán dagar eru til stefnu, er fylgið komið upp í tólf prósent en hún náði ekki þeim áfanga fyrr en níu dögum fyrir kosningar árið 2016. Halla er því að bæta hraðar við sig fylgi nú en þá en hún endaði með því að fá 27,9 prósent atkvæða fyrir átta árum og lenda í öðru sæti á eftir Guðna Th. Jóhannessyni.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspá Heimildarinnar er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig.
Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar reglulega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdraganda kosninga.
Athugasemdir (4)