Litlar breytingar urðu á fylgi forsetaframbjóðenda á síðustu dögum. Samkvæmt nýjustu kosningaspá Heimildarinnar leiðir Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri kapphlaupið á Bessastaði enn með 31 prósent atkvæða og Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, er önnur með 24,9 prósent. Það er nánast sama fylgi og þær mældust með fyrir helgi, en fyrstu kappræðurnar þar sem allir frambjóðendurnir tólf komu saman fóru fram á föstudag.
Fylgi Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði. mælist nú 20,7 prósent sem er 0,7 prósentustigum minna en á föstudag. Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, stendur líka nánast í stað með 11,4 prósent fylgi.
Á eftir þessum fjórum, sem hafa einokað efstu sætin í kosningaspánni síðustu vikur, koma svo Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team, með 4,4 prósent og Arnar Þór Jónsson, sem var varaþingmaður Sjálfstæðisflokks þar til að hann sagði sig úr flokknum og fyrrverandi dómari, með 3,9 prósent. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona mælist með 1,6 prósent fylgi en hinir fimm sem eru í framboði deila svo með sér 2,1 prósent fylgi.
Fylgið flakkaði mikið 2016
Rúmar fjórar vikur til kjördags, sem er 1. júní næstkomandi. Þegar horft er til þeirrar stöðu sem var uppi þegar svo skammur tími var til stefnu síðast þegar nýr forseti var kosinn á Íslandi, sumarið 2016, þá ætti það að kveikja von hjá ýmsum sem eiga á brattann að sækja um að baráttan sé fjarri því búin.
Þá mældist Guðni Th. Jóhannesson, sem sigraði í kosningunum með 39,1 prósent atkvæða, með tæplega 59 prósent fylgi. Á þeim tíma virtist sem Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og ritstjóri Morgunblaðsins, væri sá frambjóðandi sem myndi helst ógna Guðna. Fylgi hans mældist rúmlega 20 prósent á þessum tíma. Andri Snær Magnason kom þar á eftir með tæp tólf prósent og Halla Tómasdóttir, sem var þá sem nú í framboði, var fjórða með einungis um sex prósent fylgi.
Þegar atkvæðin voru talin var staðan mikið fyrir alla í þessum hópi. Guðni og Davíð höfðu tapað þriðjungi síns fylgis, Andri Snær bætt við sig fjórðungi á meðan að Halla hafði fimmfaldað fylgi sitt, og fékk á endanum 27,9 prósent atkvæða.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspáin er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig. Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar reglulega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdraganda kosninga.
Þær kannanir sem teknar eru gildar í kosningaspánni verða að uppfylla lágmarksskilyrði tölfræðilegrar aðferðafræði. Þar er litið til stærðar úrtaksins, fjölda svarenda, könnunartímabils og þess hvort úrtakið standist kröfur til að reynast marktækt, svo fátt eitt sé nefnt.
Sjö þeirra sem sækjast eftir embætti forseta Íslands hafa þegar mætt í kappræður í Pressu á Heimildinni í tveimur aðskildum þáttum. Hægt er að horfa á þá hér að neðan:
Ef gerð er skoðanakönnun í dag. Hvaða máli skiptir þá skoðanakönnun gærdagsins , vikugömul skoðanakönnun eða jafnvel enn eldri könnun??
Við getum hugsað okkur tvær öfgar:
* Ein könnun sem var gerð í gær og birt í dag, úrtakið 300 manns
* Önnur könnun sem var gerð undanfarna viku og birt í gær, úrtakið 2500 manns (ATH það voru kappræður á þessu tímabili)
Hvorug könnunin gefur góða mynd af stöðunni í dag en með því að vega þær saman (og fleiri til) út frá þáttum sem lýst er hér að ofan fæst örlítið raunsannari mynd af heildarstöðunni.
Það má síðan líta á það sem bæði kost og galla að fyrir vikið breytist kosningaspáin hægar þar sem eldri kannanir "hanga inni" en fá sífellt minna vægi í útreikningunum.