Matvælaráðuneytið hefur sent atvinnuveganefnd tillögur að breytingum á lagafrumvarpi þar sem laxeldisfyrirtækjum landsins eru veitt ótímabundin rekstrarleyfi til að stunda sjókvíaeldi hér við land. Atvinnuveganefnd fékk þessar tillögur í síðustu viku. Ráðuneytið leggur til nokkrar breytingar á þessari grein frumvarpsins en í öllum þeirra felst að ákvæði um ótímabundin rekstrarleyfi er breytt í tímabundin leyfi, til 16 ára. Þetta herma heimildir blaðsins.
„Innan nefndarinnar er enginn áhugi á að hafa þetta ótímabundið.“
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata og meðlimur í atvinnuveganefnd, segir við Heimildina að þverpólitísk samstaða hafi verið um það að breyta þessari grein frumvarpsins: „Innan nefndarinnar er enginn áhugi á að hafa þetta ótímabundið. Þetta kom fram strax á fyrsta fundi þegar frumvarpið var rætt.“ Gísli Rafn segir að þessi andstaða sé „þvert á allar pólitískur línur“: „Það er greinilegt að sú andstaða sem strax kom upp á frumvarpið í samfélaginu þrýsti á það að ráðuneytið var beðið að breyta þessu. Og þessi andstaða kom frá stjórnarliðunum í atvinnuveganefnd. Það var alveg greinilegt á þeim að þeir vildu ekki fá þetta ákvæði þarna inn. Nefndin var mjög samstíga í því að biðja um þessar breytingartillögur og það er ekki mjög algengt að ráðuneyti sé beðið um slíkar breytingar strax á fyrsta fundi.“
Atvinnuveganefnd mun nú funda og ráða ráðum sínum og reyna að komast að samkomulagi um það hvernig þessi grein frumvarpsins þar sem rætt er um lengd rekstrarleyfanna í laxeldinu hér við land á að hljóma.
Hörð viðbrögð og endurskoðun ráðuneytisins
Viðbrögðin í samfélaginu við þessari grein frumvarpsins um lagareldi voru mikil eftir að Heimildin fjallaði um málið þann 19. apríl síðastliðin. Orðrétt sagði í greininni að fallið yrði frá því að hafa rekstrarleyfin í greininni tímabundin og að þau ætti að gera ótímabundin í staðinn: „Ótímabundin rekstrarleyfi. Uppfylli rekstrarleyfishafi öll skilyrði laga þessara og reglna settra með stoð í þeim skal rekstrarleyfi til sjókvíaeldis vera ótímabundið. Rekstrarleyfi skulu sæta breytingum samkvæmt lögum og reglum á hverjum tíma sem og afturköllun skv. XII. kafla.“
Harðar umræður voru um málið á Alþingi þegar Bjarkey Gunnarsdóttir matvælaráðherra mælti fyrir frumvarpinu seint í apríl og sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar meðal annars um það: „Hvers konar þjóðareign er það að gefa þessi leyfi með varanlegum hætti til einkaaðila? Hver eru rökin og hvað breyttist? Af hverju mega þessi leyfi ekki vera tímabundin eins og flest önnur nýtingarleyfi á náttúruauðlindum? Meira að segja í orkuvinnslu þar sem fjárfestingar eru sannarlega bundnar til langs tíma og borga sig til baka yfir margra áratuga tímabil fá orkufyrirtækin ekki nema tímabundin rekstrarleyfi.“
Bjarkey Gunnarsdóttir matvælaráðherra sagði í kjölfarið að hún ætlaði að breyta greininni í frumvarpinu: „Ég heyri það alveg að réttsýni almennings og lögfræðin fara ekkert endilega saman í þessu máli. [...] Og mér og þinginu ber að hlusta á það. Og ég er tilbúin að fara í tímabundin leyfi.“
Bjarkey hefur nú gert þetta.
Athugasemdir