Ef ég ætti að fanga foreldrahlutverkið í einu orði væri orðið „samviskubit“. Ekki virðist lengur nóg að veita börnum ást og umhyggju, þak yfir höfuðið og næringu. Það er heldur ekki nóg að muna eftir sparinestisdeginum í skólanum, náttfatadegi, búningadegi, bangsadegi, bekkjarkvöldi, mömmumorgni, foreldraviðtalinu, öskudegi, jólaföndri, dósasöfnun, fjáröfluninni og kökubasarnum. Það þarf líka að senda þau í fimleika, fótbolta og fiðlutíma, kenna þeim að tefla og rökræða, fara með þau á skíði og til Tene, klæða af þeim kuldann með úlpu fylltri kanadískum gæsadún, kaupa handa þeim Nike-skó, tryggja að þau vinni til verðlauna, hljóti alþjóðlega viðurkenningu og séu tekin tali í fréttatíma Sjónvarpsins.
„Ef nútímaforeldrið er ekki að keyra börnin í ballett eða Suzuki-tíma er verið að handmauka handa þeim avókadó-smurning. En væri kröftum okkar betur varið við að valda þeim vonbrigðum?“
Þá er þó ekki allt talið. Því sama hvað við foreldrar rífum af afkvæmum okkar iPaddinn, grætum dómara af hliðarlínunni á fótboltamótum og felum spínat í pastasósunni er alltaf hægt að gera meira. Hvetja, pína, mauka, skutla, kaupa. Hvert tár barnanna er okkur að kenna, vonbrigði þeirra eru okkar afglöp. Endi litla Gunna sem hassreykjandi auðnuleysingi í Kristjaníu eða litli Jón sem hvítflibbaglæpamaður á Kvíabryggju vill enginn þurfa að lifa með þeirri hugsun að hefðum við aðeins munað eftir sparinestisdeginum og mætt á badmintonmótið væri Gunna nú sviðsstjóri hjá borginni og Jón meðeigandi á lögmannsstofu.
Málið er þó enn flóknara.
Snúður eða tómt nestisbox
Árið 1953 bjó Donald Winnicott, breskur barnalæknir, til hugtakið „hin nógu góða móðir“. Eftir að hafa fylgst með þúsundum mæðra og börnum þeirra veitti Winnicott því eftirtekt að börnum sem ekki gengu að ótakmarkaðri athygli mæðra sinna vísri reiddi betur af en þeim sem nutu óskiptrar athygli. Börn sem ættu móður sem olli þeim reglulega vonbrigðum – svaraði þeim ekki strax þegar þau kölluðu, lék ekki við þau eftir pöntun, eldaði ekki matinn sem þau vildu – væru betur í stakk búin til að takast á við þá staðreynd að lífið léti ekki undan duttlungum hvers manns.
Ef nútímaforeldrið er ekki að keyra börnin í ballett eða Suzuki-tíma er verið að handmauka handa þeim avókadó-smurning. En væri kröftum okkar betur varið við að valda þeim vonbrigðum? Láta þau taka strætó og smyrja brauðið þeirra með venjulegu smjöri? Er það kannski ekki snúðurinn á sparinestisdaginn sem tryggir framtíðarmöguleika þeirra heldur þvert á móti tómt nestisbox? Hvenær er „nógu góð móðir“ nógu góð? Hvenær er hún of góð og hvenær má hún eiga von á símtali frá barnaverndaryfirvöldum?
Dapurleg þróun
Í amstri dagsins látum við eins og hver sé barna sinna gæfu smiður. Innst inni vitum við þó að það er blekking. Hinn hrollkaldi sannleikur er að lífið er hending. Þar sem við sitjum við saumavélina kvöldið fyrir öskudag, af því að litli Jón hætti við að mæta í skólann sem Logi geimgengill og vill nú vera Bart Simpson, reynum við hins vegar að leika á lífið. Því þótt við höfum enga stjórn á stóru atriðum tilverunnar vonumst við til að margt smátt geri eitt stórt.
Það er þó eitt sem við getum öll gert til að tryggja framtíðarmöguleika barna okkar.
Þátttaka barna á Íslandi í almennum bólusetningum dróst saman um allt að 6% á árunum 2018 til 2022. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði þróunina dapurlega. „Ég held það væri afskaplega skynsamlegt af foreldrum, af öllum foreldrum, að láta bólusetja börnin sín,“ sagði Kári í viðtali. Vakti hann athygli á því að eitt af hverjum fjórum börnum sem smitist af mislingum lendi á sjúkrahúsi, nokkur fjöldi hljóti skemmdir á heila og eitt til tvö af hverjum þúsund láti lífið. „Ef þeim þykir vænt um þau, ef þau vilja verja þau af miklum áföllum út af sjúkdómum, þá held ég að það væri afskaplega skynsamlegt að fara með barnið sitt og láta bólusetja það.“
Áður en þú fálmar eftir pískinum tilbúin í sjálfshýðingu fyrir að hafa ekki skráð krakkann í kirkjukórinn eins og hinar mömmurnar og heldur út í búð að kaupa döðlur í sykurlausu hrákökuna sem þú lofaðir að baka fyrir fjáröflunarsamkomu fótboltafélagsins ættir þú að spyrja þig að einu: Er barnið bólusett?
Athugasemdir (4)