„Við erum í Aðalstræti og ég heiti Karl Gunnarsson.“
Hvað ert þú að gera hér?
„Ég er leigubílstjóri.“
Stendur hérna út í sólinni
„Já eins og við flest gerum á svona dögum.“
Er ekki erfitt að vinna inn í bíl þegar er svona mikil sól?
„Nei nei. Það venst eins og hvað annað. Þetta er allt eins og þessi hundsbit eru.“
Þú stendur hérna út í sólinni þangað til einhver kemur og vill fá far?
„Já eða bílinn er kallaður út.“
Er búið að vera mikið að gera í dag?
„Þetta eru rólegheita dagar.“
Hvað heldur þú að valdi því?
„Það er bara minna af ferðamönnum eftir páska. Svona pása, stund milli stríða. “
Hvað hefur verið þér efst á huga síðustu daga og vikur?
„Ég veit það ekki. Bara það sem er dagur þrasið hverju sinni. Ég er svolítið pólitískur.“
Nú okei, hvað ertu búinn að vera pæla?
„Til dæmis leigubílamál.“
Hvað er að frétta af þeim?
„Það er nú eiginlega ekki alveg nógu gott.“
Segðu mér meira
„Ég var að keyra konu sem býr í þessu hérna húsi, hún hafði verið að kasta kartöflu í leigubíla sem lágu hérna í Aðalstrætinu að nóttu um helgina. Af því að þeir voru að tala saman á flautinu. Rífast um stöðu sína. Sem var aldrei áður. Eða var aldrei áður, er núna. Þökk sé kaotískri stjórnsýslu.“
Hvaða augnablik eða reynsla í lífi þínu hefur mótað þig mest?
„Þetta er svo djúp og persónuleg spurning en dauðinn mótar okkur flest.“
Hefur þú komist í nálægð við hann?
„Ég er að verða 64 ára núna í maí. Já eðlilega.“
Þá sjálfur?
„Nei að missa nána.“
Þannig að þú hefur orðið fyrir því að missa einhvern náin þér?
„Já ég held að allir sem eru 64 ára hafa orðið fyrir því. Ég held að það sé ekkert sérstakt við mig þar.“
Er eitthvað eitt dauðsfall frekar en annað sem hefur mótað þig? Af því að spurningin var hvað hefur mótað þig mest?
„Ég veit það ekki, hvað hefur mótað mig mest. Ég held að það séu bara tímabil í lífinu sem móta mann mest. Ég held að mamma hafi mótað mig mest þegar ég var yngri og svo mótar hún mig líka núna þó hún sé löngu farin frá mér.“
Hvernig mótar hún þig núna?
„Ég hugsa bara oft til hennar.“
Hvernig manneskja var mamma þín?
„Besta mamma sem ég átti. Þannig var það bara.“
Voru einhver orð sem hún var vön að segja sem fylgja þér núna eða hvað er það sem fylgir þér?
„Það er nú svolítið varðandi önnur málefni.“
Ertu búinn að fá far?
„Ég veit það ekki.“
Munaði litlu að ég missti af þér
„Nei nei. Ég skal segja þér það sem kannski mótaði mig mest. Það var það að, og ég þarf að hugsa um alltaf. Af því að maður gleymir því. Að mamma bannaði manni að klaga. Hvernig gerði hún það? Jú hún sagði að ef ég kæmi og væri að kvarta undan einhverju og það væri svona klögumál þá vildi hún fá að vita út af hverju það væri og hvort að ég ætti kannski einhvern þátt í því að hafa skapað þessar aðstæður. Það varð til þess að ég klagaði ekki í mömmu og ég reyni að klaga ekkert yfirleitt. En svo dettur maður í klögunina og þá á maður kannski einhvern þátt í máli sjálfur.“
En hver er munurinn á því að klaga og segja frá?
„Mamma sagði það að ég ætti aldrei að sleppa því að segja frá en ef ég væri að kvarta undan því að þessi og hinn væru svona leiðinlegir og væri að klaga eitthvað. Klögumál eru svona óþörf held ég. Þau eru röfl á fullorðnsku en á barnísku þá er það að þú sért að klaga og maður á yfirleitt sök á einhverju sem maður er að klaga um og þá þarf maður ekkert að klaga.“
Er langt síðan að mamma þín dó?
„Já hún dó þegar ég var þrítugur. Hún dó 1.maí fyrir 34 árum síðan.“
Það hlýtur að hafa mótað þig
„Ég var svo heppin að ég átti svo æðislega konu að ég fann eiginlega voða lítið fyrir andláti móður minnar.“
Af því að þú fékkst svo góðan stuðning í gegnum það?
„Já ég átti bara frábæra konu. Þess vegna lifi ég svolítið ennþá í mömmu að ég eiginlega fattaði ekkert að hún væri farin. Hún er hérna með okkur enn og hún er auðsjáanlega með okkur núna.“
Má ég spyrja hvað hún hét?
„Hún hét Randí. Ekki með y.“
Fallegt nafn
„Já það fannst mér en samt sko sagði mamma að að nöfn eru til alls vís og þetta var svona einelti, Randí randafluga og allskonar. Ég var ekki búinn að fatta það.“
Bar dauða hennar brátt að?
„Já eins og með byssukúlu.“
Lenti hún í slysi?
„Nei bara æðagúlpur sem sprakk og það var bara aftaka.“
Hvað var hún gömul?
„Hún var 54 ára.“
10 árum yngri en þú ert núna
„Já.“
Þú ert búinn að lifa hana af í árum
„Já já, vel það.“
Var það ekkert furðulegt augnablik? Þegar þú varst kominn yfir aldurinn hennar?
„Nei. Maður upplifði það að móðir sín hefði dáið ung. Það var löngu áður sem ég áttaði mig á því að mamma hefði dáið ung.“
En áttaðir þú þig þá ekki strax eftir á að hún hefði dáið ung? Tók það tíma að meðtaka það?
„Já ég hugsa að, sá þroski sem dauðinn færir okkur, hann kemur ekki á einu augnabliki, þetta þarf að innbyrðast á svolítið löngum tíma. Sorgin er ekki ferillinn sem þú innbyrðir dauðann á heldur þegar þú ert farinn að standa upp úr sorginni og hættur að vorkenna sjálfum þér og horfa á lífið. Þá áttar þú þig betur á reynslunni sem dauðinn gefur manni. “
Ef mamma þín er að hlusta og hún er með í þessu samtali, hvað viltu segja við hana?
„Ég þarf ekkert að segja við hana, ef hún er með í þessu samtali þá veit hún alveg hvað ég er að hugsa.“
Athugasemdir