Við börðumst fyrir sjálfstæði okkar sem þjóð, við börðumst fyrir okkar landhelgi. Það gerðum við ekki til að gerast aftur leiguliðar í eigin landi.
Í forsetakosningunum er orðræðunni af valdhöfum stýrt á þann veg að kosningarnar eigi ekki að snúast um stjórnmál, það sé á einhvern hátt ófínt. Þessi stýring er meðvituð og því verjast frambjóðendur því að svara átakaspurningum af ótta við fylgistap. Almenningi er líka talið trú um að best sé að forseti taki enga pólitíska afstöðu en það hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt nú.
Núverandi forsetakosningar snúast um eitt og aðeins eitt.
Kosningarnar snúast aðeins um það, hvort áform ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og nú Bjarna Benediktssonar um að gera Íslendinga að leiguliðum í eigin landi, nái fram að ganga eða ekki og til þess tryggja í sæti forseta Íslands þá manneskju sem ekki mun hreyfa andmælum við þeim áformum.
Þessi áform eru augljós í nýjum fjárlögum og stefnu þeirri sem okkur hefur birst í orku og auðlindamálum, þar sem hagsmunir lands og þjóðar eru að engu hafðir. Þar sem landið er allt undir og auðlindirnar okkar, sameignin. Auðlindum okkar er stillt upp eins og útsöluvörum í stórmarkaði þar sem allt á að gefa, selja og helst sem fyrst.
Að þessu hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nú Bjarna unnið lengi og skipulega. Með því að hola að innan velferðarkerfið, eftirlitsstofnanir, veikja bæjar og sveitastjórnir og með því til dæmis að standa í vegi fyrir frumsköpun í atvinnulífinu á landsbyggðinni.
Ekkert má það framkvæma í byggðum landsins sem valdhafar geta ekki gert sér að féþúfu á kostnað heildarinnar. Svona er þetta hringinn í kringum landið. Fjársveltum sveitarfélögum svo boðnar dúsur á borð við einhverjar málamyndar uppbyggingu, viðgerðir og íþróttamiðstöðvar og leikvelli í staðinn fyrir afsal á auðlindum. Þetta er augljós kúgun og þetta verður að stöðva.
Verst er að um þetta er allt búið að semja, ráðstafa og plana án þess að til afgreiðslu þingsins hafi náð. Valdhafar vanvirða þingið okkar með framferði sínu bak við tjöldin og sniðganga þar með lýðræðið. Hængurinn eini á fyrirætlunum stjórnvalda er forsetinn sem verður að staðfesta ó-lögin sem fyrirhuguð eru svo plönin séu á yfirborðinu gild og góð fyrir þjóðina.
Það skiptir því máli hver verður forseti Íslands. Þar hefur aldrei verið mikilvægara en nú, að þar setjist í stól forseta einhver sá/sú sem mun aldrei samþykkja að íslenska þjóðin afsali sér sjálfstæði sínu til annara með brunaútsölu á auðlindum okkar og að okkar velferðarkerfi verði eyðilagt meira en orðið er. Og það getur forseti gert með málskotsréttinum og því hefur það aldrei verið mikilvægara en nú, hver verður forseti. Þetta er alvörumál, svo ekki sé meira sagt.
Við börðumst fyrir sjálfstæði okkar sem þjóð, við börðumst fyrir okkar landhelgi. Það gerðum við ekki til að gerast aftur leiguliðar í eigin landi.
Athugasemdir