Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, mælist með 28,5 prósent fylgi í nýjustu kosningaspá Heimildarinnar og hækkar lítillega á milli spáa. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, andar ofan í hálsmál hennar með 26,8 prósent fylgi en ekki er marktækur munur á stöðu þeirra eins og er. Baldur hefur haldist í kringum 27 prósent fylgi nokkuð stöðugt í öllum spán Heimildarinnar sem gerðar hafa verið síðan að könnunarfyrirtækin Gallup, Maskína og Prósent hófu reglulega að mæla fylgi þeirra sem keppast um að verða næsti forseti Íslands. Katrín fór hæst í 31 prósent.
Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, mælist með þriðja mest fylgi líkt og hann hefur ítrekað gert í spám hingað til, en alls 16,7 prósent myndu kjósa hann ef kosið yrði í dag. Fylgi Jóns er þó, líkt og Katrínar, á hægri niðurleið síðustu daga.
Sá frambjóðandi sem er á mestri siglingu er Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri. Samkvæmt nýjustu kosningaspánni er fylgi hennar komið upp í 15,4 prósent. Það hefur rúmlega þrefaldast á tíu dögum og ekki er lengur marktækur munur á henni og Jóni Gnarr.
Fleiri að færa sig á efstu fjóra
Nokkrir aðrir frambjóðendur hafa þegar náð því að fá 1.500 manns til að mæla með framboði sínu og ættu því að vera í framboði til forseta eftir að frestur til að skila inn slíku rennur út næstkomandi föstudag. Á meðal þeirra er Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team sem bauð sig einnig fram árið 2016, en fylgi hennar er líka á niðurleið og mælist nú 5,2 prósent. Sömu sögu er að segja af varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins, Arnari Þór Jónssyni, sem mælist með 3,1 prósent fylgi. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona mælist nú í fyrsta sinn undir tveimur prósentum, með 1,6 prósent fylgi, og aðrir frambjóðendur deila svo á milli sín 2,7 prósentustigum.
Athygli vekur að hlutfall þeirra sem ætlar að kjósa þau fjögur sem mælast með mesta fylgi hefur vaxið upp í 87,4 prósent, en það var 81 prósent fyrir tíu dögum síðan. Hin formlega kosningabarátta er þó enn ekki hafin þótt margir frambjóðendur hafi verið á ferð og flugi um landið undanfarið. Hún hefst af fullri alvöru eftir að framboðsfresturinn rennur út í lok viku, en kosningarnar sjálfar fara fram 1. júní næstkomandi.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspáin er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig. Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar reglulega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdraganda kosninga.
Þær kannanir sem teknar eru gildar í kosningaspánni verða að uppfylla lágmarksskilyrði tölfræðilegrar aðferðafræði. Þar er litið til stærðar úrtaksins, fjölda svarenda, könnunartímabils og þess hvort úrtakið standist kröfur til að reynast marktækt, svo fátt eitt sé nefnt.
Athugasemdir (1)