Ég heiti Martyna Daniel og ég er á leiðinni í vinnuna á Borgarbókasafninu í Grófinni. Ég vinn þar sem sérfræðingur í fjölmenningamálum og er að skipuleggja viðburði á mörgum tungumálum og virkja þátttöku mismunandi notenda bókasafnsins frá mismuandi menningarheimum og fá fólk til að hittast fyrir utan þeirra eigin tungumálabúbblu.
Ég tala ensku, frönsku og pólsku, ég tala líka spænsku. Mamma mín er frá Póllandi og pabbi frá Suður-Ameríku og ég fæddist í Sviss. Það dýrmætasta sem ég hef lært af starfinu er að gera tilraunir með mismunandi gerðir af lýðræðislegum umræðum. Því hópurinn sem ég er að sinna er jaðarsettur hópur sem er vanur hörku í sinn garð í umræðum. Við erum að gera tilraun núna þar sem við bjóðum fólki í umræðu og lautarferð inni á safninu. Fólk fer úr skónum, sest á gólfið og deilir mat og talar saman.
Ég held að stærsti lærdómur lífs míns hingað til sé að gleyma því ekki að þrátt fyrir að vinnan sé áhugaverð og heillandi má hún ekki taka yfir alla hluta lífs þíns. Ég var einu sinni í aðstæðum þar sem ég vann allt of mikið fyrir fyrirtæki sem kunni ekki að meta mig og framlag mitt. Ég drap mig næstum á þessari vinnu, ég missti mig og fór í massa kulnun. En síðan kann ég að meta hvert einasta augnablik með vinum mínum, í göngutúrum. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að læra þetta svona snemma í lífi mínu en þetta gerðist þegar ég var þrítug.
Athugasemdir (1)