„Það að bjóða mig fram í embætti forseta Íslands er miklu stærri ákvörðun en að hún tengist einhverjum breytingum hjá ólíkum stofnunum,“ segir Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi, í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Heimildarinnar.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur kynnt áform um að sameina tíu stofnanir sem heyra undir ráðuneyti hans í þrjár: Náttúruverndar- og minjastofnun, Náttúruvísindastofnun og Loftslagsstofnun. Með þessum áformum leggst staða orkumálastjóra af en verkefni Orkustofnunar fara undir Loftslagsstofnun. Halla Hrund segir þessi áform ekki hafa áhrif á ákvörðun hennar um forsetaframboð. „Ég hef talað fyrir og unnið að hagsmunum almennings, hvort sem er í viðbrögðum við jarðhræringum í hitaveitumálum á Reykjanesi, í málefnum raforkuöryggis íbúa landsins og í umræðu um mikilvægi auðlinda okkar. Ég er búin að koma þeim málum sem ég tel mikilvægt að settar séu áherslur á í góðan farveg.“
Óskar Söru Lind velfarnaðar sem settur orkumálastjóri
Halla Hrund er í launalausu leyfi frá störfum sem orkumálastjóri og hefur Sara Lind Guðbergsdóttir verið sett tímabundið í embætti orkumálastjóra, til 2. júní. Frá þessu var greint á ríkisstjórnarfundi á föstudagsmorgun. Sara Lind er lögfræðingur og hefur starfað sem settur forstjóri Ríkiskaupa. Halla Hrund vildi sem minnst segja um ráðningu Söru Lindar en óskar henni velfarnaðar í starfi. „Og að henni gangi vel að vinna með þessu frábæra fólki sem starfar hjá Orkustofnun,“ segir Halla Hrund.
Halla Hrund býður sig fram þar sem hún vill hafa sömu vökulu augu sem hún hefur haft sem orkumálastjóri og nýta þau, og rödd sína, með sterkari hætti í embætti forseta. „Ástæðan fyrir því að ég tek þetta skref núna er að ég hef auðvitað líka verið að vinna í öðrum málaflokkum. Ég hef reynslu að menntamálum, ég hef reynslu af menningarstarfi og jafnrétti og mig langar að lyfta þessum þáttum upp, tengja aðila saman, bæði hérna heima en líka erlendis, því forsetaembættið á líka svo marga möguleika á því að verða eins konar magnari alls þess góða hugvits og krafta sem koma fram í samfélaginu okkar. Þannig ég held að mínir kraftar geti nýst með enn betri hætti í þessu embætti og það er ástæðan fyrir því að ég tek þetta skref nú.“
Athugasemdir