Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, staðfesti eftir ríkisstjórnarfund í dag að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði greint ríkisstjórninni frá ákvörðun sinni um hvort hún ætli í forsetaframboð eða ekki á fundinum í dag. Hann vildi ekki segja hver sú ákvörðun væri. Það væri Katrínar að gera það síðar í dag. „Ég held að það sé eðlilegt að hún geri það, en ekki ég.“
Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði í Pressu í dag að búið væri að boða þingflokk Vinstri grænna á fund klukkan 13 í dag og búist er við að Katrín kynni ákvörðun sína í kjölfarið. Fastlega er reiknað með að hún muni láta slag standa og fari í forsetaframboð.
Sigurður Ingi ræddi líka stöðu ríkisstjórnarinnar hverfi Katrín úr henni og hvort grundvöllur væri fyrir áframhaldandi samstarfi flokkanna þriggja sem að henni standa.
Hann sagði enn forsendur fyrir samstarfinu. „Við höfum sagt það og erum bara í samtali sem við þurfum að fara í núna, formlega.“ Engar ákvarðanir liggi þó fyrir en það liggi á því að taka þær.
Aðspurður hvort hann langi til að verða forsætisráðherra ef til þess kæmi svaraði Sigurður Ingi því til að „þegar maður er í pólitík þá ertu alltaf í pólitík til þess að hafa áhrif og hvar maður hefur þau áhrif, það kemur í ljós.“
Hann vildi ekki gefa upp hvort hann styddi Katrínu sem næsta forseta. „Ég ætla að halda því fyrir mig. Það er þjóðin sem kýs forseta. En hún er gríðarlega öflugur kandídat.“
Útilokar ekki formannsframboð
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri grænna og félags- og vinnumarkaðsráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfundinn að það hafi mjög margt verið rætt á honum. Katrín muni sjálf fá að greina frá ákvörðun sinni þannig að hann ætli að leyfa henni að „eiga öll orð um það.“
Guðmundur Ingi neitaði því að hugsanleg stólaskipti ráðherra hefðu verið rædd á ríkisstjórnarfundum en aðspurður um hver yrði nýr ráðherra Vinstri grænna ef Katrín myndi tilkynna framboð í dag svaraði hann: „Það liggur ekki fyrir.“
Hann vildi ekki útiloka að hann myndi sækjast eftir því að leiða Vinstri græn ef Katrín hyrfi frá. „Ég er varaformaður og ákveði Katrín að stíga til hliðar að þá verð ég formaður fram að næsta landsfundi. Þannig það er allt eitthvað sem að er algjörlega opið eins og staðan er núna.“
Athugasemdir