Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir að óformlega hafi verið rætt um mögulegt forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á ríkisstjórnarfundi í dag. „Hún lofaði okkur því að taka ekki langan tíma í að komast að niðurstöðu,“ segir hann í samtali við Heimildina.
Spurður hvað honum fyndist um mögulegt framboð Katrínar sagðist Bjarni vilja bíða með allar yfirlýsingar. „En það hefur auðvitað mikil áhrif á stjórnarsamstarfið ef hún myndi taka þá ákvörðun.“
Yrði það í óþökk Sjálfstæðisflokksins?
„Við getum ekki orðað það þannig, nei nei.“
Enn fremur segist Bjarni ekki hafa ástæðu til að hafa áhyggjur af mögulegri stjórnarkreppu ef Katrín sæktist eftir forsetaembættinu. „Fyrst skulum við fá niðurstöðu,“ segir hann.
Kemur til greina að þú verðir forsætisráðherra?
„Ég er ekkert að velta þeirri stöðu fyrir mér. Nú erum við að bíða eftir endanlegri niðurstöðu frá Katrínu. Svo þurfum við að ræða saman þingflokkarnir og það þarf að mynda nýjan meirihluta. Ef þessir flokkar ætla að starfa saman þá þarf að ræða hlutverkaskipti eins og þú ert að vísa til.“
Mögulegt framboð Katrínar stærra mál en vantrauststillaga á hendur Svandísi
Bjarni vildi ekki svara því hvort Sjálfstæðisflokkurinn myndi verja Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra vantrausti ef stjórnarandstaðan léti slag standa á þinginu í næstu viku, Flokkur fólksins hefur sagst ætla að leggja slíka tillögu fram. „Við bara stökkvum yfir þann læk þegar við komum að því,“ segir Bjarni.
Hann sagði þó að málið hefði hvorki verið rætt á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins fyrr í dag né í ríkisstjórn. „Auðvitað er þetta mál varðandi mögulegt framboð Katrínar töluvert stærra mál og mér ofar í huga heldur en það hvað mögulega gerist eftir að eitthvað annað hefur gerst á þinginu í næstu viku,“ sagði hann.
Heimildin spurði Bjarna enn fremur af hverju hann hefði ekki farið á fund NATO í Brussel í dag líkt til stóð. Bjarni sagðist hafa ástæðu til að ætla að það væri skynsamlegra fyrir sig að vera heima á Íslandi. „Og það er nú komið ágætlega á daginn.“
Athugasemdir