Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, skýtur öðrum forsetaframbjóðendum – og mögulegum frambjóðendum eins og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra – ref fyrir rass í nýjustu fylgiskönnun Prósents.
Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 34% vilja Baldur sem forseta Íslands en 21% Katrínu og 21% leikarann Jón Gnarr. Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team sem bauð einnig fram krafta sína árið 2016, mældist með 12% fylgi ef litið er til þeirra sem tóku afstöðu.
Konur völdu Baldur
Konur voru ívið hrifnari af Baldri en karlmenn. 39% kvenkyns svarenda sem tóku afstöðu sögðust myndu kjósa Baldur á meðan hlutfallið var 30% hjá karlmönnum.
Karlmenn voru aftur á móti hrifnari af Katrínu og Jóni Gnarr en konur, 23% karlkyns svarenda sem tóku afstöðu vildu annað þeirra í embættið á meðan hlutfallið var 20% á haus hjá konum.
Þegar kemur að aldri var unga fólkið, 18 til 24 ára, hvað hrifnast af Jóni Gnarr, en 49% þess hóps sögðust vilja hann sem forseta lýðveldisins. Hópurinn fyrir ofan, 25 til 34 ára, svaraði svo með allt öðrum hætti en 39% þeirra vildu Baldur. Elsti hópurinn, 65 ára og eldri, vildi svo að mjög litlu leyti sjá Gnarr á meðan 37% þeirra sögðust myndu kjósa Baldur og 24% Katrínu.
Fólkið með hæstu tekjurnar vill Katrínu
Ef litið er til einstaklingstekna þá var hæstlaunaði hópurinn hrifnastur af Katrínu (34%) en sá með lægstu tekjurnar vildi bæði Baldur (30%) og Gnarr (30%).
Könnunin var framkvæmd frá 28. mars til 3. apríl og voru 2.500 manns í úrtakinu. Af þeim svöruðu 52%, 19% þeirra tóku ekki afstöðu.
Athugasemdir (1)