Þar sem ég sit á kaffihúsi og skrifa þessi orð blasir við mér tilvitnun sem máluð er á vegginn: „Lífið gengur ekki út á að bíða eftir að stormurinn líði hjá. Það gengur út á að læra að dansa í rigningunni.“
Það rignir í vefheimum. Aðallega svívirðingum. Nýverið var settur á laggirnar Facebook-hópurinn „Baldur og Felix – alla leið“ þar sem fólk gat skráð sig vildi það skora á Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðing að bjóða sig fram til forseta. Það fjölgaði hratt í hópnum. Ekki leið þó á löngu uns bóla tók á formælingum: „Ég mun ekki kjósa þá.“ „Erum við ekki búin að innvinna okkur næga kynvillingafrægð?“ „Nei takk.“
Það að fordómar í garð samkynhneigðar skuli birtast í þeim forarpytti sem internetið er kemur engum á óvart. Furðu vekur hins vegar þörf ósköp venjulegs fólks til að skrá sig í stuðningsmannahóp mögulegs forsetaframbjóðanda einvörðungu til að lýsa almennu frati á hann. „Hvað ertu þá að gera hér?“ spurði einn stuðningsmannanna vingjarnlegan eldri mann sem fann sig knúinn að tilkynna hópnum að Baldur fengi ekki atkvæði hans. „Mér var boðið að ganga í stuðningsklúbbinn hans,“ svaraði maðurinn.
Svo virðist sem við höfum glatað listinni að segja ekki neitt. Við lifum á tímum skoðunarinnar og virðumst búin að gleyma að við þurfum ekki að færa í orð allt sem flýgur okkur í hug, viðra hvern einasta vanhugsaða þanka, sá fræjum hugans sem fæst hefðu orðið blóm hefði þeim ekki verið plantað í hugsunarleysi í mykjuríkan jarðveg Internetsins; að stundum er allt í lagi að koma ekki til dyranna eins og við erum klædd, leyna vinkonu því að okkur finnist nýju skórnir hennar ljótir og brosa framan í samstarfsmann sem við óskum heitt að verði fluttur í aðra deild eða sendur í fyrstu mönnuðu geimferðina til Mars.
„Svo virðist sem við höfum glatað listinni að segja ekki neitt.“
En þótt skoðanaspýja samtímans sé hvimleið er andstæð árátta enn óviðfelldnari.
„Sátt og samstiga“
Annar líklegur forsetaframbjóðandi var í viðtali á Bylgjunni í vikunni. Halla Tómasdóttir, sem íhugar framboð, hugðist eiga yndislegt kvöld yfir Söngvakeppni sjónvarpsins um síðustu helgi. Hatursfull umræða í tengslum við keppnina batt hins vegar enda á þau áform. Halla sagði erfitt að horfa á fólk gera keppnina að enn einu þrætuepli. Hún sagðist sjá „merki þess að við séum aðeins reið og sár, kannski ekki eins sátt og samstiga og við gætum verið sem samfélag“.
Þegar neikvæðar athugasemdir tóku að birtast í Facebook-hópnum „Baldur og Felix“ tók stjórnandi hans þá áræðnu ákvörðun að eyða ekki innleggjunum heldur leyfa þeim að standa. „Við tökum þessum skrifum ekki illa,“ skrifaði hann. „Svörum af kærleika en ekki með skítkasti.“
„Í einni svipan urðu ómerkilegar bullur að fórnarlömbum, smásálir að frelsishetjum“
Daglangt stóðu athugasemdirnar, raus umkomulausra greyja sem öskruðu út í vindinn, ámátlegar og svo kjánalegar að erfitt var að sjá hvort réttara væri að hlæja að mælendum eða vorkenna þeim.
Ekki leið þó á löngu uns öll spjót stóðu á stjórnanda Facebook-hópsins. Meðlimir hótuðu að segja sig úr honum væru neikvæð ummæli ekki fjarlægð. Stjórnandinn átti ekki annarra kosta völ en að verða við kröfunni.
Í einni svipan urðu ómerkilegar bullur að fórnarlömbum, smásálir að frelsishetjum. Tröllin sem eyðileggja nú Internetið með hatri og heift gátu skyndilega látist vera göfugir krossberar tjáningarfrelsisins sem berðust af hugrekki gegn alræðistilburðum harðneskjulegra kúgara.
Ógerleg og óæskileg krafa
„Lífið gengur ekki út á að bíða eftir að stormurinn líði hjá. Það gengur út á að læra að dansa í rigningunni.“
Samfélag gengur ekki út á að tryggja að við séum öll „sátt og samstiga“. Það gengur út á að læra að dansa meðal fólks sem er annarrar skoðunar, menningar, aðhyllist önnur trúarbrögð, hefur aðrar langanir, lífsgildi, er af öðrum uppruna og kýs annan stjórnmálaflokk en við.
Ekki aðeins er krafa samtímans um að við séum öll samstiga og sammála ógerleg heldur kann hún einnig að vera óæskileg.
Á einstaka stað á jarðkúlunni má finna hópa fólks þar sem allir virðast á yfirborðinu sammála. Fáir flyttu hins vegar sjálfviljugir til Norður-Kóreu eða gengju vísvitandi í költ.
Í Norður-Kóreu eru allar rangar skoðanir fjarlægðar óháð því hvernig þær eru bornar fram. Í umræddum FB hópi er fólki fullfrjálst að tjá sig um málin á málefnalegan hátt.
Þetta er mikiðtil satt og rétt. En það eru líka til bullur af allt öðrum toga... háttsett fólk sem nýtur mikillar hylli... smásálir sem gerðar eru að fórnarlömbum elleðar frelsishetjum eftir þörfum áróðursmaskínunar hverju sinni.