Sex blaðamenn Heimildarinnar hlutu tilnefningar til Blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands. Hlaut miðillinn fimm tilnefningar í öllum fjórum flokkum verðlaunanna. Blaðamannaverðlaunin verða afhent eftir viku, föstudaginn 15. mars.
Margrét Marteinsdóttir hlaut tilnefningu fyrir viðtal ársins fyrir viðtal sitt við Gyrði Elíasson rithöfund. Í viðtalinu ræddi Gyrðir í fyrsta sinn opinskátt um þunglyndi sem hann hefur glímt við í áratugi.
Ingi Freyr Vilhjálmsson hlaut tilnefningu til umfjöllunar ársins. Var það fyrir umfjöllun hans um sjókvíaeldi á Íslandi.
Heimildin hlaut tvær tilnefningar til rannsóknarblaðamennsku ársins. Var það annars vegar Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson fyrir fréttaskýringar um endurvinnsluferli drykkjarferna. Afhjúpaði hún að fjölmargir Íslendingar hefðu flokkað fernur í þeirri trúa að þær væru endurunnar þegar þær voru í raun brenndar í sementsverksmiðjum á meginlandi Evrópu.
Helgi Seljan og Aðalsteinn Kjartansson voru einnig tilnefndir saman til rannsóknarblaðamennsku ársins. Var það fyrir umfjöllun þeirra um snjóflóðið sem féll á Súðavík í janúar 1995.
Sunna Ósk Logadóttir var tilnefnd til Blaðamannaverðlauna ársins fyrir viðamikla umfjöllun sína um málefni náttúrunnar. Sunna hefur skrifað gagnrýnar greinar um togstreitu sem skapast hefur í loftslagsmálum á Íslandi.
Heimildin hlaut flestar tilnefningar allra miðla, eða fimm. Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar hlaut þrjár tilnefningar til verðlaunanna, Fréttastofa RÚV tvær, Fréttablaðið eina og Reykjavík Media og Purkur eina.
Hér má sjá tilnefningarnar í heild sinni:
Viðtal ársins:
- Auður Ösp Guðmundsdóttir, fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Fyrir viðtal við Evu Ólafsdóttur sem steig fram og greindi frá kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu afa síns, Guðjóns Ólafssonar.
- Björk Eiðsdóttir, Fréttablaðinu. Fyrir viðtal við Magnús Karl Magnússon, prófessor í læknisfræði við Háskóla Íslands.
- Margrét Marteinsdóttir, Heimildinni. Fyrir viðtal við Gyrði Elíasson, rithöfund.
Rannsóknarblaðamennska ársins:
- Arnhildur Hálfdánardóttir og Arnar Þórisson, RÚV. Fyrir umfjöllun um svokallaða „óleyfisbústaði“, það er húsnæði sem er ekki samþykkt sem íbúðarhúsnæði og er oftar en ekki hættulegt til búsetu.
- Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, Heimildinni. Fyrir fréttaskýringar um endurvinnsluferli drykkjarferna sem afhjúpaði að fernur, sem fjölmargir Íslendingar hafa flokkað jafnvel áratugum saman í þeirri trú að þær væru endurunnar, eru brenndar í sementsverksmiðjum á meginlandi Evrópu.
- Helgi Seljan og Aðalsteinn Kjartansson, Heimildinni. Fyrir umfjöllun um snjóflóðið sem féll á Súðavík í janúar 1995.
Umfjöllun ársins
- Elísabet Inga Sigurðardóttir og Sunna Sæmundsdóttir, fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Fyrir umfjöllun um fylliefni og fegrunaraðgerðir í Kompás.
- Ingi Freyr Vilhjálmsson, Heimildinni. Fyrir umfjöllun um sjókvíaeldi á Íslandi.
- Jóhannes Kr. Kristjánsson, Sævar Guðmundsson og Heimir Bjarnason, Reykjavík Media og Purkur kvikmyndagerð. Fyrir sjónvarpsþættina Stormur sem fjölluðu um Covid 19-faraldurinn á Íslandi frá hliðum sem ekki höfðu sést áður í fjölmiðlum hér á landi.
Blaðamannaverðlaun ársins
- Heimir Már Pétursson, fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Fyrir ítarlega og vandaða umfjöllun um kjaramál á árinu.
- Ingunn Lára Kristjánsdóttir, RÚV. Fyrir nýstárlega og eftirtektarverða framsetningu frétta á helstu samfélagsmiðlum, til að mynda á TikTok og Instagram, og fyrir svokallaðar flettifréttir á gagnvirku formi.
- Sunna Ósk Logadóttir, Heimildinni. Fyrir viðamikla umfjöllun um málefni náttúrunnar í sinni fjölbreyttustu mynd.
Fyrirvari: Hér er fjallað um mál er varða Heimildina með beinum hætti.
Athugasemdir (1)