Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra segist ekki geta tekið undir með bandaríska hagfræðingnum Joseph Stiglitz, sem sagði í viðtali í Kastljósinu í gær að seðlabankastjórar hefðu farið fram úr sér við hækkun stýrivaxta til að kveða niður verðbólgu.
Að hennar mati hafi verið rétt ákvörðun að hækka stýrivexti í kjölfar verðbólgunnar sem óx hratt árið 2022. Í óundirbúnum fyrirspurnum á þingi vakti Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, athygli á nýlegu viðtali við Stiglitz sem birt var í Kastljós í gær.
Í ræðu sinni rakti Ásthildur Lóa í grófum dráttum efni viðtalsins, þar sem Stiglitz sagði seðlabanka víða um heim hafa hækkað vexti að nauðsynjalausu og í raun hafi þeir gert vont efnahagsástand verra með of bröttum hækkunum.
Í viðtalinu taldi Stiglitz stjórnendur seðlabanka hætti til að einblína á verðbólgu og hagfræðikenningar í stað þess að horfa á heildarmyndina.
Vaxtahækkanir sem ráðist var í mörgum vestrænum ríkjum eftir heimsfaraldurinn hafi ekki dregið úr verðbólgu sem var knúin áfram af viðvarandi orku-, matar-, húsnæðisskort. Þvert á móti hafi brattar vaxtahækkanir haft þveröfug áhrif.
Sagði Ásthildur Lóa að boðskapur Stiglitz hafi verið „eins og beint út úr mínu eigin hjarta.“ Því næst varpaði hún þeirri spurningu til fjármála- og efnahagsráðherra, „hvort ekki sé kominn tími til að ríkisstjórnin axli ábyrgð og sjái til þess að snúið verði af þessari glötunarbraut grimmilegra vaxtahækkana.“
Ósammála ummælum Stiglitz
Í svari sínu sagði Þórdís Kolbrún að Stiglitz væri gríðarlega áhugaverður maður með mikla reynslu og tók undir með athugasemd hans um að peningastefna væri ekki aðeins „verkfræðilegt verkefni heldur mjög sálrænt og marglaga.“
Hins vegar taldi hún að í tilfelli Íslands hafi það verið rétt ákvörðun að hækka vexti. Í máli sínu benti hún á að verðbólgan hér á landi væri frábrugðin þeirri í Evrópu, sem hefur glímt við orkuskort frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu.
Þá sagði ráðherra að verðbólgan hér á landi ætti í raun meira skylt við verðbólguna í Bandaríkjunum, þar sem eftirspurn hafi drifið verðbólguna áfram. Þess vegna sé stýrivaxtahækkun viðeigandi tæki til þess að bregðast við verðbólgu.
„Það sem umræddur hagfræðingur segir er alveg í andstöðu við meginþorra hagfræðikenninga,“ sagði Þórdís Kolbrún og bætti við að hún væri þó til í samtal um hvaða aðrar leiðir eru færar en tók þó fram að henni hugnaðist ekki leiðir sem myndu vega að sjálfstæði Seðlabankans.
Húsnæðisskortur og fákeppni
Í seinni ræðu sinni svaraði Ásthildur Lóa ráðherra og sagði að þó svo verðbólgan hér á landi hafi ekki verið drifin áfram af orku- og matarverði, þá væri hún hins vegar að miklu leyti drifin áfram að húsnæðisskort og fákeppni í atvinnulífinu. Stiglitz hafi fært fyrir því sannfærandi í rök í máli sínu.
„Seðlabankinn var hreinlega flengdur. Ég veit ekki hversu oft ég hef bent á að verðbólgan á Íslandi er ekki heimilum landsins að kenna og það myndi ekki skila neinu að leggja allar þessar byrðar á þau nema að festa þau í langvarandi kreppu,“ sagði Ásthildur og spurði ráðherra hver ætli að bera ábyrgð á afleiðingum vaxtahækkana?
„Seðlabankinn var hreinlega flengdur“
Í svari Þórdísar Kolbrúnar tók hún fram að alþingi skapi lagaramman, verkfærin sem Seðlabankinn starfar eftir, að öðru leyti sé Seðlabankinn sjálfstæður í sínum störfum. Þá sagði hún að fá dæmi þess úr heimssögunni að það hafi gefi góða raun að vega að sjálfstæði Seðlabanka.
Sömuleiðis benti fjármála- efnahagsráðherra á að verðbólga væri á niðurleið sem gæfi til kynna að aðgerðir Seðlabankans væru að hafa tilætluð áhrif. Í ræðu sinni minntist ráðherra einnig á að það væru „uppi sjónarmið um að verðbólgan gæti þvert á móti verið vegna þess hve lengi vextir voru lágir.“
Athugasemdir (5)