Vindorkuverið Búrfellslundur, sem Landsvirkjun áformar austan Sultartangavirkjunar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, er innan mögulegra áhrifasvæða jökulhlaupa vegna eldsumbrota undir Bárðarbungu, Köldukvíslarjökli og Sylgjujökli.
Á þetta bendir Veðurstofa Íslands í umsögn um tillögu að deiliskipulagi hins fyrirhugaða virkjunarsvæðis. Stofnunin segist hafa unnið straumfræðilega líkanareikninga fyrir nokkrar mögulegar jökulhlaupasviðsmyndir. „Samkvæmt niðurstöðum reikninganna er möguleiki á að flóðvar í Sultartangastíflu, eða jafnvel stíflan sjálf bresti í verstu sviðsmyndum,“ segir í umsögninni. Áætlað uppbyggingarsvæði geti því farið á kaf „í djúpt og straumþungt vatn með miklum tjónmætti“.
Möguleg jökulhlaup eru áætluð mun stærri en svo að afmarkaðir flóðfarvegir yfirfalls úr Sultartangalóni beri þau.
Veðurstofan gerir sér grein fyrir því að virkjun vatnsorku í jökulám er í eðli sínu viðkvæm fyrir jökulhlaupum en bendir engu að síður á að áætluð staðsetning vindorkuvers á mögulegu áhrifasvæði jökulhlaupa fjölgi „orkufjöreggjum þjóðarinnar sem útsett eru fyrir sömu hættu“. Svo segir í umsögn stofnunarinnar: „Velta má fyrir sér hvort að minnka megi samfélagslega áhættu í orkumálum með því að sem fæstum orkuinnviðum stafi ógn af hverjum einum tilteknum náttúruváratburði.“
Sveitarfélagið Rangárþing ytra, sem auglýsti deiliskipulagið, fékk verkfræðistofuna Eflu til að svara framkomnum umsögnum. Efla leitaði aftur svara hjá Landsvirkjun sem segir marga flóðaútreikninga hafa verið gerða á framkvæmdasvæði Búrfellslundar. Hönnun verkefnisins taki mið af því að vindmyllurnar geti lent í straumvatni og eru hönnunarforsendur sagðar sérhannaðar með það í huga þar sem bæði er litið til veðurfarslegra flóða sem og jökulhlaupa.
Þó sé ekki litið til þeirra stærstu sem talin eru möguleg enda að mati Landsvirkjunar óraunhæft að hanna mannvirki sem standast flóð þar sem jörðin sjálf geti tekið umtalsverðum breytingum.
Þá taki hönnunarforsendur vindmyllanna og tilheyrandi mannvirkja tillit til möguleika á stíflurofi og flóðvarsrofi.
Athugasemdir