Varaformaður Vinstri grænna vill að flokkurinn noti tímann fram að næstu kosningum til að „kveikja neistann, ræða framsæknar hugmyndir og finna róttæknina.“ Áherslur flokksins í útlendingamalum hafi ekki komist nægilega að í umræðunni þar sem Vinstri grænum hafi ítrekað verið stillt upp við vegg „með að samþykkja eða hafna einstökum lagafrumvörpum frá dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra og varaformaður Vinstri grænna, sagði í setningarræðu sinni á flokksráðsfundi flokksins á föstudag að sér hafi fundist Vinstri græn hafa farið halloka í umræðu um útlendingamál undanfarin misseri „og við ekki komist nægjanlega vel að í umræðunni með áherslur okkar, þar sem okkur hefur ítrekað verið stillt upp við vegg með að samþykkja eða hafna einstökum lagafrumvörpum frá dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins.“
Hann sagðist þó líka óttast aukna skautun í þessum málum „þar sem upp eru að dragast öfga hægri skoðanir á móti skoðunum um opin landamæri. Þetta er ekki góð þróun og hjálpar ekki útlendingum og innflytjendum á Íslandi, fólkinu sem á stóran þátt í að halda uppi verðmætasköpun og hagvexti í landinu.“
Varaformaðurinn sagði útlendingamálin erfið og að þau hafi litað alla stjórnmálaumræðu á undanförnum misserum. Hann telji þó að nýlega framlögð 20 aðgerða heildarsýn á málefni útlendinga og innflytjenda muni gera umræðunni í samfélaginu og pólitíkinni gott. „Í mínum huga verður VG að búa sér til pláss í umræðunni um útlendinga- og innflytjendamál, taka frumkvæði og tala út frá okkar áherslum og okkar sýn. Ég vil meina að okkur hafi tekist að gera þetta á undanförnum tveimur vikum.“
Segir árangurinn mikinn en að það þurfi að „kveikja neistann“
Guðmundur Ingi talaði upp árangur Vinstri grænna í því ríkisstjórnarsamstarfi sem flokkurinn hefur setið í síðan haustið 2017 í ræðu sinni. Hann sagði margt hafa áunnist á þeim tíma og að lesa mætti um þann árangur í VG blaðinu sem sent hafi verið heim til félagsmanna í lok síðustu viku, þótt sá listi væri hvergi nærri tæmandi. „Nú þegar kjörtímabilið er rúmlega hálfnað er byrjaður að detta í hús árangur verkefna sem lagt var upp í við upphaf kjörtímabilsins. Við erum við upphaf uppskerutímans.“
Flokksráðsfundurinn var settur sama dag og ný könnun Gallup á fylgi flokka sýndi að Vinstri græn mælist með 4,7 prósent fylgi, sem myndi þýða að flokkurinn dytti út af þingi ef kosið yrði í dag. Það yrði í fyrsta sinn í Íslandssögunni sem flokkur sitjandi forsætisráðherra næði ekki inn manni í kosningum.
Guðmundur Ingi sagði Vinstri græn eiga að nota næstu misseri, í aðdraganda kosninga sem til stendur að halda á næsta ári, til að „kveikja neistann, ræða framsæknar hugmyndir og finna róttæknina.“ Vinstri græn eigi áfram að vera farvegur breytinga í samfélaginu og deigla þeirra sem vinni að réttláta samfélagi. „Sex ár í ríkisstjórn eru fljót að líða en baráttan fyrir jöfnuði, réttlátari heimi og náttúruvernd er eilífðarverkefni okkar vinstri grænna, óháð því hvaða ríkisstjórn situr á hverjum tíma. Hið innlenda og alþjóðlega stórkapítal sér róttækum vinstri og róttækum græningjaflokki fyrir sífelldum verkefnum og við veigrum okkur aldrei við því að taka slaginn.“
Athugasemdir (4)