Henrik Lyhne er sextugur liðsforingi í danska hernum þar sem hann er flestum hnútum kunnugur eftir rúmlega 40 ára hermennsku. Hann hefur á undanförnum árum skrifað fjölmargar greinar þar sem hann hefur fjallað um danska herinn. Danskir fjölmiðlar hafa sömuleiðis margoft birt við hann viðtöl um herinn og ástandið þar, sem Henrik Lyhne segir miður gott. Skýringarnar eru sífelldur niðurskurður, ásamt óstjórn.
Það er sjaldnast fallið til vinsælda að gagnrýna og endar iðulega með að fyrirtækið eða stofnunin losar sig við þann sem gagnrýnir. Henrik Lyhne er bæði þekktur og virtur og kannski er það ástæða þess að hann hefur ekki fengið „reisupassann“. Það segja að minnsta kosti sumir danskir fjölmiðlar.
Getum ekki barist í myrkri, erum þá blindir eins og hænur
Í danska vefmiðlinum OLFI, sem fjallar um öryggis- og varnarmál, birtist fyrir hálfum mánuði löng grein ásamt viðtali við Henrik Lyhne undir yfirskriftinni „Hæren mangler natkampudstyr – kan ikke kæmpe i mørke vi er blinde som høns“. Í upphafi greinarinnar í OLFI er rifjað upp að í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar 2022, hafi ekki skort fögur fyrirheit. Tveimur vikum eftir innrásina náðu fimm flokkar (meirihluti) á danska þinginu, Folketinget, samkomulagi um stefnu Danmerkur í öryggismálum. Kjarni þessa samkomulags var að nú, seint og um síðir, myndi Danmörk standa við markmið Nato um að verja tveimur prósentum af vergri þjóðarframleiðslu til hermála. Þetta átti þó ekki að gerast „í einum grænum“ heldur í áföngum fram til ársins 2033. Samkomulagið á þinginu gerði enn fremur ráð fyrir sjö milljarða aukaframlagi, hér og nú, eins og það var orðað, til að styrkja herinn og fylla á vopnabúrið.
Innan fárra mánaða var aukaframlagið uppurið, hluti þess fór til Úkraínu, hluti framlagsins fór í að senda hersveit til Lettlands og enn fremur í kostnað vegna freigátu sem send var til eftirlits á Eystrasalti. Samtímis ákváðu stjórnmálamennirnir að senda margs konar vopnabúnað til Úkraínu, farartæki, varahluti, skotfæri og fleira og í staðinn yrði pantað nýtt fyrir herinn. Allt þetta skortir danska herinn í dag því í stað þess sem sent var til Úkraínu kom ekkert, það var aldrei pantað.
Meiri peningar – seinna
Eftir þingkosningar og stjórnarmyndun í desember 2022 tilkynnti ríkisstjórn Mette Frederiksen að markmiðinu um tvö prósent af vergri þjóðarframleiðslu til hermála skyldi náð 2030. Á síðasta ári gekk danska þingið frá nýju samkomulagi varðandi öryggis- og varnarmál, þar var gert ráð fyrir að framlög til málaflokksins yrðu aukin um 155 milljarða danskra króna (3.100 milljarðar íslenskir), umfram fyrri áætlanir, á næstu 10 árum. Þótt forsvarsmenn hersins fagni því að fá fleiri krónur í kassann eru þeir ekki jafnánægðir með að þessum fjármunum skuli dreift á mörg ár og bið verði á fyrstu „úthlutun“. Í því ástandi sem nú ríki sé brýnt að bregðast skjótt við.
Ekki eitt heldur allt
Í áðurnefndu viðtali við OLFI nefndi Henrik Lyhne margt af því sem herinn skortir og það er löng upptalning. „Okkur vantar vopn af ýmsu tagi, sérstaklega léttar vélbyssur, við höfum sent öll felunet sem við eigum til Úkraínu og óvíst hvenær við fáum ný í staðinn. Við eigum að senda herdeild til Lettlands síðar á árinu. Ég á að athuga hvort hermennirnir kunni að nota felunet áður en þeir fara en ég get ekki kannað það ef þau eru ekki til. Enn verra er þó að herinn getur ekki stundað næturhernað því til þess skortir okkur nauðsynlegan búnað, við höfum enga nætursjónauka og erum því eins og hænsn í myrkri, sjáum ekki neitt. Svo er allt í ólagi með fjarskiptin, okkur sárvantar talstöðvar, við höfum neyðst til að notast við fjarskiptatæki sem við höfum fengið að láni hjá lögreglunni og heimavarnarliðinu. Þau tæki eru öðruvísi en tæki hersins og ef við fáum réttu tækin, sem vonandi gerist, kunna hermennirnir ekkert á þau. Svo er skortur á nauðsynlegum fatnaði og líka vantar hjálma. Ég gæti nefnt margt fleira,“ sagði Henrik Lyhne.
„Við höfum enga nætursjónauka og erum því eins og hænsn í myrkri, sjáum ekki neitt.“
Mega ekki nota pallbílana til að flytja hermenn
Samkvæmt reglum sem innkaupa- og birgðastjórn hersins, sem fer með öryggismál, er ekki lengur heimilt að flytja hermenn á vörubílspöllum með bekkjum og segli yfir, eins og gert hefur verið um áratugaskeið og flest önnur lönd gera. Henrik Lyhne segir að í stað pallbílanna notist herinn við smárútur sem eru leigðar frá Mercedes Benz og Volkswagen (svonefnd rúgbrauð). „Þetta eru malbiksbílar og engan veginn heppilegir fyrir herinn því þeir festast um leið og farið er út af malbikinu. Ef svo mikið sem smábeygla kemur á þessa bíla verðum við að senda þá á verkstæði hjá eigandanum. Hér áður fyrr notuðum við bara hamar og pensilstroku af málningu ef beygla kom á gömlu Unimog-bílana. Sums staðar þurfa hermenn jafnvel að notast við almenningsvagna og sitja þá innan um aðra farþega. Ef hermenn ferðast með þessum strætisvögnum þurfa þeir að nota gúmmískóhlífar og plastábreiður yfir sætin svo þeir svíni ekki allt út.“
Bílaflotinn úreltur og fær iðulega ekki skoðun
Á undanförnum árum hefur mikið verið fjallað um tækjakost danska hersins sem er að stórum hluta kominn mjög til ára sinna. Herinn má ekki nota bíla sem ekki komast í gegnum árlega skoðun og vegna erfiðleika við að fá varahluti, og fjárskorts, stendur stór hluti bílaflotans og grotnar niður.
Í nýjustu umfjöllun OLFI tímaritsins er viðtal við Anders Krojgaard Lund, fyrrverandi yfirmann í dönsku herdeildinni í Suður-Slésvík, með aðsetur í Haderslev á Suður-Jótlandi. Hann segir að herdeildin, sem meðal annars þjálfar nýliða, þurfi að fara með ökutæki sín í skoðunarstöðina í Skrydstrup þar sem danski flugherinn hefur aðsetur. Flugfloti hersins hefur forgang í skoðunarstöðinni og vegna niðurskurðar þar, eins og annars staðar í hernum, sé undirmannað. Þetta þýði að ökutækin frá herdeildinni í Suður-Slésvík þurfi iðulega að bíða tímunum saman eftir skoðun. Ef bíllinn stenst ekki skoðun getur hann fengið undanþágu til að fara til baka til herdeildarinnar en verður síðan að bíða viðgerðar, sú bið getur tekið langan tíma, ef hún á annað borð fer fram.
Ekki ástæða til bjartsýni
Henrik Lyhne segir ekki ástæðu til bjartsýni varðandi herinn þótt fjárveitingar til hans eigi að aukast, seinna. Herinn er undirmannaður og þegar alls staðar vantar allt til alls er það ekki til þess fallið að laða ungt fólk að. Fyrir utan það sem nefnt hefur verið hér að framan er húsakostur hersins í mikilli niðurníðslu, vegna margra ára viðhaldsleysis. Nýlega kom fram að tvö af herskipum flotans hafa árum saman eingöngu getað skotið púðurskotum vegna þess að stýribúnaður fyrir fallbyssurnar hefur aldrei verið settur í þau, vegna sparnaðar. Um síðastliðna helgi greindi dagblaðið Politiken frá að tvö herskip liggi nú við bryggju í Nuuk á Grænlandi vegna bilana.
Henrik Lyhne segir að ástandið í hernum sé ótrúlegt. „Ég og fleiri höfum árum saman bent á ástandið en það virðist ekki breyta neinu. Það er eins og við hér í Danmörku lifum í veröld sem lýst er í barnabókum Morten Korch sem var vinsæll á fyrri hluta síðustu aldar. Þar er sumar, sólin skín á stráþök litskrúðugra bindingsverkshúsanna og aðalpersóna bókarinnar hjólar blístrandi niður mjóa götuna í þorpinu. Veruleikinn er annar í dag,“ klykkti Henrik Lyhne út með.
Athugasemdir (1)