Leki komst seint í gærkvöldi að stofnlögn kalds vatns á vestanverðum Reykjanesskaga sem hefur þau áhrif að „lítið eða ekkert kalt vatn“ er á Ásbrú, Háaleitishlaði og við flugvallarsvæðið fram eftir morgni.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef HS Veitna. Heitavatnslaust er í öllum byggðarlögum á Reykjanesi í kjölfar þess að hraun úr eldgosinu sem hófst í gærmorgun rann yfir lögn frá Svartsengi og hún fór í sundur.
Hins vegar segja HS Veitur í tilkynningu sinni að lekinn í kaldavatnslögninni tengist ekki eldgosinu. Um miðnættið stóðu vonir til þess að hægt yrði að gera við lögnina fyrir klukkan 6 í morgun. Það tókst ekki. „Erfiðlega gengur með viðgerð,“ segir í uppfærðri tilkynningu á vef HS Veitna um málið.
Vonir standa til að heitu vatni verði komið á varaleiðslu sem einnig laskaðist í eldgosinu í gær. Óvíst er hversu langan tíma sú vinna mun taka.
Athugasemdir