Tilkynnt var í dag á vef Stjórnarráðsins að samkomulag hafi náðst á milli Fjármála- og efnahagsráðherra og lífeyrissjóða vegna húsnæðislána sjóðanna til einstaklinga í Grindavík. Samkvæmt samningnum mun ríkissjóður greiða niður áfallna vexti og verðbætur af fasteignalánum yfir sex mánaða tímabil, frá gjalddaga í desember 2023 til maí 2024.
Áætlað er að stuðningurinn taki til um 150 til 200 sjóðafélagalána og mun heildarupphæðin að öllu líkindum vera í kringum 120 til 150 milljónir króna.
Þá segir í tilkynningunni að markmiðið sé að sjá til þess að lántaki verði „jafn vel settur líkt og greiddar hafi verið áfallnar verðbætur og vextir af láni hans yfir tímabil samkomulagsins.“ Tekið er fram að stuðningurinn muni ekki ná til afborgana af höfuðstól sjóðsfélagalána og stuðningurinn mun að hámarki nema 50 milljónum króna yfir samningstímabilið.
Lífeyrissjóðirnir ófærir um að veita Grindvíkingum greiðsluskjól
Skömmu eftir að rýma þurfti Grindavíkurbæ vegna jarðhræringanna sóttu margir íbúar eftir greiðsluskjóli frá lánveitendum sínum. Ólíkt helstu viðskiptabönkunum hér landi töldu lífeyrissjóðirnir sig ófæra um að fella niður vexti og verðbætur á lánum sínum til Grindvíkinga.
Til að mynda bar Gildi lífeyrissjóður fyrir sig að sjóðnum væri ekki lagalega heimilt að afskrifa vexti og verðbætur með almennum hætti hjá lántökum. Bent var á að samkvæmt lögum væri lífeyrissjóðum óheimilt að ráðstafa fjármunum í öðrum tilgangi en að greiða lífeyri.
Viðbrögð lífeyrissjóðanna vöktu mikla athygli og umtal í fyrra og gagnrýndu margir ósveigjanleika sjóðanna gagnvart íbúum Grindavíkur sem eiga nú um sárt að binda. Haldin voru mörg mótmæli fyrir utan höfuðstöðvar lífeyrissjóðanna þar sem Grindavíkurbúar og forystufólk margra verkalýðsfélaga mættu.
Nú virðist sem ríkið hafi tekist að höggva á þennan hnút en fram kemur í tilkynningunni að samkomulagið sé gert með fyrirvara um heimild í fjárlögum. Þá eru lántakendur hvattir til þess að leita til lífeyrissjóðanna um úrræði samkomulagsins.
Athugasemdir