Innviðaráðuneytið kynnti fyrir skömmu til umsagnar drög að nýrri reglugerð um réttindi flugfarþega. Í uppfærðri reglugerð er meðal annars lagt til að neytendur greiði Samgöngustofu 5.000 króna gjald fyrir að skjóta ágreiningsmálum fyrir úrskurðarnefnd Samgöngustofu. Þá er gert ráð fyrir því að neytendur fái þetta gjald endurgreitt ef úrskurður Samgöngustofu fellur þeim í vil.
Í reglugerðardrögunum kemur einnig fram að ekki verði lengur gert ráð fyrir því að Samgöngustofa taki við erindum vegna tapaðs eða skemmds farangurs í nýrri reglugerð.
Þá segir í tilkynningunni að rík þörf sé á því að fella úr gildi núgildandi reglugerð um neytendavernd flugfarþega sem var samþykkt árið 2012. Koma þurfi nýrri reglugerð í gagnið sem samræmist betur loftferðalögum sem samþykkt voru árið 2022.
700 til 800 mál á borði Samgöngustofu á ári
Í samtali við Heimildina segir Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, að forsendurnar að baki þessum breytingum séu að tryggja það að neytendur geti leitað sér aðstoðar og fengið aðgang að málsmeðferð með ódýrum hætti fyrir utan dómstóla.
„Þannig í rauninni er miðað við að þetta sé ódýrt og skilvirkt en engu að síður að það sé sá sem þjónustuna nýtur sem greiðir fyrir hana,“ segir Þórhildur sem tekur þó fram að ef úrskurðurinn fellur kvartanda í vil þá fær hann gjaldið endurgreitt.
Í nýjum lögum um loftferðir er kveðið á um að einstaklingar sem óska eftir úrskurði Samgöngustofu skuli greiða hæfilegt málskotsgjald. Innviðaráðherra ákveði hver upphæð málskotsgjaldsins skuli vera og í hvaða tilvikum kvartandi geti fengið gjaldið endurgreitt.
Þá bendir Þórhildur á að þó nokkur kostnaður felist í að taka mál sem þessi til meðferðar. Umtalsverður tími og mannauður fari í að taka slík mál fyrir. Árlega taki Samgöngustofa við um 700 til 800 kvörtunarmálum af þessu tagi.
Spurð hvert neytendur munu geta snúið sér vegna tapaðs eða skemmds farangurs ef ný reglugerð tekur að óbreyttu gildi segir Þórhildur að gert sé ráð fyrir því að neytendur muni framvegis þurfa að leita til kjaranefndar vöru- og þjónustukaupa, ef ekki tekst að semja beint við flugrekendur.
Formaður Neytendasamtakanna telur gjaldtökuna vera hóflega
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna telur upphæð gjaldsins, 5.000 krónur, vera hóflega. „Ég held að það sé svona innan þeirra marka sem við höfðum hugsað,“ segir Breki og benti á að til samanburðar við aðrar kjaranefndir sé gjaldið í lægri kantinum. „Til dæmis í úrskurðarnefndum í viðskiptum við fjármálafyrirtæki og úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum þá er það 10.000 krónur.“ Þá sé málskotsgjaldið hjá kjaranefnd vöru- og þjónustukaupa líka 5.000 krónur.
Drögin fóru í samráðsgátt í lok janúar og fresturinn til þess að skila inn umsögn rennur út 27. febrúar. Enn sem komið er hafa ekki borist neinar umsagnir um málið inn í gáttina.
Athugasemdir